Lítur svo á að erindinu sé ósvarað

Færeyska skipið Næraberg KG14.
Færeyska skipið Næraberg KG14. mbl.is/Ómar

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, lítur svo á að erindi sem Faxaflóahafnir sendu innanríkisráðherra, sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra í kjölfar komu færeyska skipsins Nærabergs hingað til lands í lok ágústmánaðar sé efnislega fullkomlega ósvarað og ráðuneytin vísi hvert á annað.  

Skipið fékk að koma til hafnar í Reykjavík en vélarbilun hafði komið upp í skipinu.

Næraberg veiðir makríl í grænlenskri lögsögu og mátti það hvorki koma til hafnar eða fá hefðbundna þjónustu, svo sem vatn, olíu, rafmagn og viðhald á skipi á grundvelli fyrstu milligreinar þriðju greinar laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Í fyrstu átti ekki að veita skipinu neina þjónustu, jafnvel þó að það væri olíulítið og vélarbilun hefði komið upp í skipinu sem gerði það að verkum að skipið hafði ekki afl til að sigla á sama hraða og venjulega.

Þetta vakti nokkra athygli og fjölluðu færeyskir fjölmiðlar meðal annars um málið. Að lokum var þó ákveðið að skipið fengi fulla þjónustu.

Hafa færeysk skip aðra réttarstöðu hér á landi?

Í erindinu sem sent var til ráðherranna voru þrjár spurningar. Í fyrsta lagi var spurt um hvaða lagaheimildir gildi vegna bann á sölu og þjónustu til skipa sem komin eru til hafnar hér á landi.

Í öðru lagi var spurt hvort Hoyvíkursamningurinn leiði til þess að önnur réttarstaða sé gegn færeyskum skipum en öðrum skipum, en samningurinn er fríverslunarsamningur á milli Íslands og Færeyja.

Í þriðja lagi vildu Faxaflóahafnir vita hvort ríkið beri ábyrgð á kostnaði sem kann að hljótast af kyrrsetningu skipa í höfnum hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert