Lögbannsmál gegn Símanum og Tali

Höfðað verður nýtt lögbannsmál gegn Símanum af hálfu Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF) vegna aðgangs viðskiptavina fyrirtækisins að skráadeilisíðunum Deildu.net og Piratebay. Máli, sem þegar hafði verið höfðað gegn Tali, verður væntanlega haldið áfram. Þetta staðfestir Tómas Jónsson, lögmaður STEFs, í samtali við mbl.is.

Forsaga málsins er sú að STEF höfðaði lögbannsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna aðgangs viðskiptavina fjarskiptafyrirtækjanna Vodafone, Hringdu, Símans, Tals og 365 miðla að umræddum vefsíðum. Málið gegn Símanum náði hins vegar ekki fram að ganga vegna tæknilegra ástæðna og dómari lýsti sig vanhæfan í málinu gegn Tali. Héraðsdómur félls hins vegar á lögbannskröfuna í tilfelli Vodafone og Hringdu.

Í kjölfarið lýstu 365 miðlar sig reiðubúna að taka mið af þeirri niðurstöðu og skoraði STEF bréfleiðis á Símann og Tal að gera slíkt hið sama. Frestur til að bregðast við því rann út í gær. Síminn svaraði á þá leið að fyrirtækið teldi það ekki hlutverk fjárskiptafyrirtækja að taka ákvarðanir um lokun á vefsíðum og að koma þyrfti til sérstakt lögbann sem beint væri að fyrirtækinu. Formleg viðbrögð frá Tali hafa ekki borist STEF en forsvarsmenn fyrirtækisins hafa að sama skapi sagt að til sérstaks lögbanns þyrfi að koma.

Verði formleg viðbrögð Tals með þeim hætti verður lögbannsmáli gegn fyrirtækinu sem þegar er í gangi haldið áfram að sögn Tómasar en nýtt mál verður höfðað í tilfelli Símans.

mbl.is