„Fíkn er alltaf fíkn“

Tryggvi Magnússon, umsjónarmaður gistiskýlisins.
Tryggvi Magnússon, umsjónarmaður gistiskýlisins. Eggert Jóhannesson

Tryggvi Magnússon, umsjónarmaður gistiskýlisins sem senn flytur frá Þingholtsstræti að Lindargötu var sjálfur að eigin sögn drykkjumaður. Hann hefur verið laus við vínið í 20 ár, og segir miklar breytingar hafa orðið á hvernig komið er fram við utangarðsfólk.

„Ég held að þetta [flutningurinn frá Þingholtsstræti] muni hafa áhrif til góðs. Við verðum betur í stakk búnir til að mæta okkar ágætu gestum á þeim stað sem þeir eru. Það sem ég á í rauninni við er að þegar maður er kominn á þennan stað í lífinu, þá þarf maður stundum að setja sig í þeirra spor og mæta hverjum einstaklingi, reyna að setja sig í hans spor og sýna ekki yfirlæti. Mæta honum akkúrat í aðstæðunum,“ segir Tryggvi.

„Ég þekki þetta sjálfur, því á sínum tíma upplifði ég það að mér var mætt eins og ég var. Ég var drykkjumaður en hef ekki verið í 20 ár, þannig að ég þekki í rauninni báðar hliðar á peningnum. Það er mjög mikilvægt atriði í þessum málaflokki að hitta hvern og einn akkúrat þar sem hann er.

Finnst þér þetta hafa breyst frá því fyrir 20 árum?

„Já, öll aðstaða og aðbúnaður hefur gjörbreyst til hins betra. Það er engin spurning. Þú heyrðir áðan á tali Dags að það er mjög margt verið að gera sem ekki var til áður og ekki verið að hugsa um neitt.“

Hvað með skjólstæðingana, hafa þeir breyst?

„Já, þeir breytast líka í takt við þjóðfélagið. Ég fékk að vinna í gistiskýlinu í nokkra mánuði 1995, síðan hóf ég aftur störf 2007 og hef verið síðan, og ég sé mikinn mun á þessum tveimur tímabilum. Áður voru þetta svona hefðbundnir rónar, drykkjumenn skilurðu. Kannski frekar eldri. Núna fer þetta miklu neðar í aldri og öðruvísi neysla. Auðvitað breytist þetta eins og við hin. En fíkn er alltaf fíkn, það er stóra málið,“ segir Tryggvi.

„Það togast á inni í manni þegar menn eru í neyslu, þessi fíkn og kannski eitthvað úr uppeldi. Þetta stangast algjörlega á við alla skynsemina. Það eru svakaleg átök þar á milli, sem er alveg ótrúlegt.“

Gistiskýlið við Lindargötu 48.
Gistiskýlið við Lindargötu 48. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina