Líffæragjafar skrái vilja sinn í nýjan gagnagrunn

Frá opnun vefsins í dag.
Frá opnun vefsins í dag.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra var fyrstur til að skrá sig í miðlægan grunn um líffæragjafa þegar hann opnaði formlega í dag sérstakt vefsvæði sem Embætti landlæknis hefur sett á fót í þessu skyni. Fólk er hvatt til að taka afstöðu og lýsa vilja sínum í þessum efnum.

Heilbrigðisráðherra skipaði í dag nefnd sem falið er að fjalla um líffæragjafir og leiðir til að fjölga þeim. Formaður nefndarinnar er Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Þetta kemur fram í tilkynningum sem hafa verið birtar á vef velferðarráðuneytisins og lændlæknisembættisins.

Þar segir, að fram til þessa hafi fólk sem sé reiðubúið að gefa líffæri ef á reynii þurft að fylla út sérstakt líffæragjafakort og ganga með það á sér. Að öðru leyti hafi upplýsingar um líffæragjafa hvergi verið skráðar og engar tölulegar upplýsingar eru til hér á landi um fjölda þeirra.

Vefsvæðið má nálgast gegnum hnapp á vef Embættis landlæknis, www.landlaeknir.is.Þar eru margvíslegar upplýsingar sem tengjast líffæragjöf, settar fram á aðgengilegan hátt sem spurningar og svör. Til að lýsa afstöðu sinni til líffæragjafar þarf fólk að opna sérstakt svæði á vefnum og auðkenna sig með Íslykli eða rafrænu skilríki. 

Við skráningu í grunninn getur fólk merkt við;

  •  Líffæragjöf sem nær til allra líffæra.
  • Líffæragjöf sem takmarkast við ákveðin líffæri.
  • Að heimila ekki líffæragjöf.

Notandinn heimilar Embætti landlæknis að vista upplýsingar um afstöðu sína til líffæragjafar í miðlægum gagnagrunni og miðla þeim til heilbrigðisstarfsmanna sem hlut eiga að máli.

Ef fólk skiptir um skoðun getur það alltaf breytt vali sínu á þessu sama vefsvæði.

Vefsvæðið með skráningargrunninum markar tímamót þar sem það auðveldar þeim sem þess óska að skrá vilja sinn á einfaldan hátt í rafrænan miðlægan gagnagrunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert