Sjötíu ár frá strandi við Viðey

Frá því þegar kanadíski tundurspillirinn Skeena strandaði við Viðey.
Frá því þegar kanadíski tundurspillirinn Skeena strandaði við Viðey. Ljósmynd/Skafti Guðjónsson

Þessa nótt skall á ofsaveður sem gerði björgunarstarf erfitt, sjórinn gekk látlaust yfir skipsflakið, stormur og kuldi nísti í niðamyrkri. Það var þegar fimmtán manns fórust með kanadíska tundurspillinum Skeenu sem strandaði við Viðey 25. október 1944.  Á morgun verður þess minnst að 70 ár eru frá strandinu.

Borgarsögusafnið mun standa fyrir fræðsluerindi þar sem sagt verður frá slysinu og því mikla björgunarafreki sem unnið var þessa stormasömu nótt. Mikil leynd hvíldi yfir atburðinum á þeim tíma og var hann flokkaður sem hernaðarleyndarmál. 

Einar Sigurðsson, skipstjóri á Aðalbjörgu RE 5, vann mikla hetjudáð er hann fór fyrir hópi breskra hermanna á bandarískum landgöngupramma í stórsjó og ofsaveðri. Oft náði olíumengaður og ískaldur sjórinn honum upp í háls en aðgerðin stóð yfir í tvær klukkustundir. Hetjuleg framganga hans átti þátt í því að 198 mönnum var bjargað úr sjónum en 15 manns fórust. 

Dóttir skipstjórans, Guðrún Einarsdóttir, var 8 ára þegar atburðurinn átti sér stað og man því eftir pabba sínum er hann kom kolsvartur heim eftir nóttina í olíumenguðum sjónum. Hún heyrði söguna frá fyrstu hendi og mun á morgun segja hana. Einnig heldur erindi Sigurlaugur Ingólfsson sagnfræðingur.

Erindið fer fram kl. 14.00 í Hornsílinu á Sjóminjasafninu, Grandagarði 8, en þar verða einnig sýndar ljósmyndir sem allar tengjast atburðinum.

mbl.is