Óttast langtímaáhrif gasmengunar

Gosmengunarský lagðist yfir Reykjavík fyrir nokkrum dögum.
Gosmengunarský lagðist yfir Reykjavík fyrir nokkrum dögum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, segir að ef eldgosið í Holuhrauni standi í marga mánuði eða ár sé ástæða til að velta fyrir sér langtímaáhrifum af gosmengun á fólk.

Þann 29. október verða tveir mánuðir liðnir frá því eldgosið í Holuhrauni hófst. Þorvaldur segist allt eins eiga von á að gosið verði langt.

„Við gætum alveg eins átt í þessu, ekki bara mánuðum saman, heldur árum saman,“ segir Þorvaldur. „Ef þetta verður mjög langt gos þá verðum við að fara hugsa meira um afleiðingar mengunarinnar sem kemur frá gosinu. Að mínu mati eru það brennisteinssýruagnirnar sem eru mesta áhyggjuefnið.

Við mælum mengunina bara út frá brennisteinsdíoxíði, en þegar brennisteinsdíoxíð fer út í andrúmsloftið þá hvarfast það við vatnsgufu og myndar brennisteinssýruagnir. Það er þessi bláhvíta móða sem við erum að sjá. Því lengur sem brennisteinsdíoxíð er í andrúmsloftinu því meira hvarfast það yfir í brennisteinssýruagnirnar. Það eru þessar brennisteinssýruagnir sem eru ertandi fyrir lungu og eru að valda fólki óþægindum.

Spurningin er ef þetta verður viðvarandi ástand hvaða áhrif það hefur á fólk sem er að anda þessu að sér dag eftir dag, t.d. við vinnu úti við. Það sem ég hef áhyggjur af eru þessi langvarandi áhrif.“

Þorvaldur sagði að vindar dreifðu þessari mengun talsvert. Vandamálið væri hins vegar það, að þó að vindarnir blésu brennisteinsdíoxíðinu burt þannig að það færi norður eða austur fyrir land, þá kæmi loftmassinn síðan stundum aftur inn á landið sem brennisteinsmóða. Það hefði t.d. gerst í Reykjavík fyrir nokkrum dögum. Þar hefði verið á ferð loftmassi sem hefði farið norður fyrir land, upp að austurströnd Grænlands, en síðan hefði hann komið aftur yfir landið. Hann hefði verið 3-4 daga á leiðinni til Reykjavík.

„Móðan frá Skaftáreldum var ekki brennisteinsdíoxíð heldur brennisteinssýruagnir. Þessi mikla móða var viðvarandi yfir Íslandi á þessum tíma og fór síðan yfir til Evrópu og olli einnig usla þar,“ sagði Þorvaldur.

Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði.
Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina