Engin lausn í deilu tónlistarkennara

Frá baráttufundi tónlistarkennara í síðustu viku.
Frá baráttufundi tónlistarkennara í síðustu viku. mbl.is/Golli

Engar viðræður hafa átt sér stað milli tónlistarkennara og sveitarfélaganna um helgina, en verkfall rúmlega 500 tónlistarkennara hefur staðið síðan á miðvikudag. Ný fundur hefur verið boðaður á morgun en ekki ríkir sérstök bjartsýni um að hann muni skila árangri.

Forsvarsmenn Félags tónlistarskólakennara funduðu með ríkissáttasemjara á þriggja tíma fundi á föstudaginn. Sáttasemjari lagði fram tilboð sem að sögn Sigrúnar Grendal Jóhannsdóttur, formanns félagsins, er ekki nægjanlega gott. „Aftur hljómar tilboðið þannig að verið er að breikka bilið á milli okkar og kennara í Kennarasambandi Íslands. Við sjáum útgangspunkt sem við erum að vinna út frá og ætlum að bregðast við á mánudaginn á fundi sem búið er að boða,“ sagði Sigrún í samtali við Morgunblaðið fyrir helgi.

Sigrún segir að það sem einkennt hafi viðræðurnar sé lítill vilji til sátta. „Alveg frá því viðræðurnar hófust hafa ekki verið eiginlegar samningaviðræður í gangi. Menn eru búnir að sitja við í tæpt ár og í því ljósi er enn erfiðara að treysta því að viðræðuáætlun skili nokkru,“ segir Sigrún. Verkfall tónlistarskólakennara hófst á miðvikudag. Viðræðuáætlun var undirrituð fyrir rúmum 10 mánuðum. Síðan hafa verið undirritaðir samningar við kennara og stjórnendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum en í Félagi tónlistarskólakennara eru rúmlega 500 manns eða um 5% félaga í Kennarasambandi Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert