Gasmengun á Höfn í Hornafirði

Eldgosið í Holuhrauni er enn í fullum gangi. Þessi mynd …
Eldgosið í Holuhrauni er enn í fullum gangi. Þessi mynd sýnir eldgosið í dag. mynd/Míla

Mikil gasmengun mælist nú á Höfn í Hornafirði og nágrenni. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sendi sms-skilaboð á íbúa á svæðinu þar sem mælt er með því að fólk haldi sig innandyra. 

Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna, segir í samtali við mbl.is að ástandið gæti haldist óbreytt í um 36 klukkustundir miðað við núverandi spár. „Mengunin gæti minnkað aðeins á svæðinu í kvöld og í nótt en svo er búist við að hún komi aftur á morgun,“ segir Víðir. 

Á milli 9.000 og 21.000 míkrógrömm á rúmmetra mælast á svæðinu og eru það að sögn Víðis hæstu gildi sem mælst hafa í byggð á Íslandi. Almannavarnir gáfu út nokkur ráð sem íbúar á menguðum svæðum geta nýtt sér. Er meðal annars mælt með því að fólk haldi sig innandyra og loki dyrum og gluggum. Þá er einnig mælt með að fólk láti kalt vatn renna á fullum krafti og að einnig geti verið gott að bleyta handklæði með vatni sem blandað hefur verið matarsóda. 

„Þeir sem eru veikir fyrir, til dæmis með astma, verða að passa upp á að taka lyfin sín samkvæmt ráðleggingum læknis. Þá verður fólk einnig að hafa samband við lækni ef það finnur fyrir óþægindum í öndunarvegi,“ segir Víðir. 

Á heimasíðunni loftgaedi.is má sjá töflu yfir áhrif mismikillar mengunar á heilsufar fólks. Samkvæmt þeirri töflu er nú hættuástand sem gæti valdið alvarlegum einkennum í öndunarfærum. 

 Post by Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Þessi mynd sýnir mengunarspá Veðurstofu Íslands. Blái liturinn sýnir hvar …
Þessi mynd sýnir mengunarspá Veðurstofu Íslands. Blái liturinn sýnir hvar búist er við að gasmengunin verði í dag. Mynd/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert