Pólitík skipti verulegu máli

Haukur Logi Karlsson
Haukur Logi Karlsson

Íslendingum hefur gengið illa að framfylgja ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins þegar um er að ræða aðgerðir íslenskra stjórnvalda sem höfðu mikla pólitíska þýðingu. Þetta er niðurstaða Hauks Loga Karlssonar en hann stundar doktorsnám í lögfræði við European University Institute á Ítalíu.

Haukur Logi fékk nýverið birta fræðigrein í tímaritinu European State Aid Law Quarterly. Í henni fer hann yfir helstu ríkisaðstoðarmálin sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur tekið upp gegn Íslandi síðustu tuttugu árin, eða frá því EES-samningurinn tók gildi árið 1994. Rannsóknin leiddi ýmislegt áhugavert í ljós m.a. í ljós að íslenskum stjórnvöldum gekk illa að framfylgja ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins þegar um var að ræða aðgerðir íslenskra stjórnvalda sem höfðu mikla pólitíska þýðingu.

Mál sem áttu þátt í hruninu

„Hugmyndin að baki yfirþjóðlegum ríkisstyrkjareglunum er að koma í veg fyrir að einstök ríki geti valdið tjóni á efnahagskerfi innri markaðarins á EES-svæðinu með ótilhlýðilegum stuðningi við ákveðin fyrirtæki eða atvinnugreinar. Með smáeinföldun má segja að reglunum sé ætlað að koma í veg fyrir sóun skattpeninga í hagfræðilega glórulaus verkefni sem raska eðlilegri samkeppni. Ávinningur neytenda af virkri eftirfylgni með reglunum ætti því að felast í faglegu aðhaldi að fjármálastjórn ríkja og bættu samkeppnisumhverfi á EES-svæðinu.

Ég fer yfir aðkomu ESA að einkavæðingu ríkisbankanna, byggingu Kárahnjúkavirkjunar, hugmyndum um 90% húsnæðislán, og loks að björgunarstörfum eftirhrunsáranna. Í öllum þessum tilvikum er hægt að færa rök fyrir því að ESA hafi ekki framfylgt ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins af nægilegri festu sem leiddi til þess að tækifæri til að útfæra þessi pólitísku stefnumál með farsælli hætti fóru forgörðum,“ segir Haukur Logi.

„Rannsóknarnefnd Alþingis tilgreindi þessi sömu stefnumál stjórnvalda sem orsakaþætti efnahagshrunsins. Ég læt það liggja á milli hluta hvort ESA hefði getað afstýrt því að jafnilla færi og raunin varð, en tel rétt að halda því til haga að ESA hefði getað gert betur í því sem að þeim sneri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert