Voru byssurnar seldar eða gefnar?

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, á sprengjueyðingaræfingu Gæslunnar hér á landi …
Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, á sprengjueyðingaræfingu Gæslunnar hér á landi fyrir nokkrum árum. mbl.is/Rax

Hversu margar eru byssurnar sem Landhelgisgæslan og lögreglan fengu? Fengust þær gefins eða voru þær keyptar? Ýmislegt er enn óljóst í stóra byssumálinu. 

Mál málanna undanfarna viku hefur klárlega verið svokallað byssumál þar sem MP5 vélbyssur frá Noregi hafa verið í aðalhlutverki. Málið hefur þótt einkennast af misvísandi upplýsingum. Bæði hér innanlands og í samanburði við yfirlýsingar frá talsmanni norska hersins. Upphaflega var greint frá því í fjölmiðlum að setja ætti slíkar byssur í allar lögreglubifreiðar. Lögreglan sagði ekkert slíkt hins vegar ákveðið. Talað var um 200 vélbyssur sem síðan urðu að 250.

Ríkislögreglustjóri sagði Landhelgisgæsluna hafa haft milligöngu um málið. Gæslan sagðist hafa fengið byssurnar að gjöf en norski herinn hefur þvertekið fyrir það. Þær hefðu verið seldar og hefur verið vísað í kaupsamning þess efnis frá í desember á síðasta ári. Landhelgisgæslan hefur hins vegar sagt að slíkur samningur væri alltaf gerður en aldrei hefði hins vegar verið greitt fyrir búnað frá Norðmönnum og norsk yfirvöld aldrei gengið á eftir greiðslum.

Talsmaður norska hersins segir herinn gera ráð fyrir greiðslum en hefur ekki getað staðfest að þær hafi farið fram. Hérlend stjórnvöld hafa á sama tíma almennt lýst yfir stuðning við að lögreglan fái slík vopn en að öðru leyti vísað á Landhelgisgæsluna og Ríkislögreglustjóra.

Hér á eftir er málið rakið í meginatriðum frá því að fjölmiðlar greindu fyrst frá því fyrir um viku:

DV greindi frá því 21. október að til stæði að koma MP5 vélbyssum fyrir í öllum lögreglubifreiðum ásamt Glock 17 skammbyssum. Heimildarmennirnir voru sagðir þrír ónafngreindir lögreglumenn. Sama dag var haft eftir Jóni Bjartmarz yfirlögregluþjóni á mbl.is að margt í frétt DV væri orðum aukið. Þannig væru byssurnar ekki eins margar og þar kæmi fram. Þá hefði engin ákvörðun verið tekin um að setja byssur í allar lögreglubifreiðar. Hins vegar talaði hann á þann veg að byssurnar hefðu verið keyptar af Norðmönnum. Talað var um 200 byssur í því sambandi.

Síðar sama dag sagði Jón Bjartmarz í Kastljósi Ríkisútvarpsins að 150 MP5 vélbyssur sem lögreglan hafi fengið hafi verið gjöf frá norskum yfirvöldum. Þannig hefðu vopnin ekki verið keypt. Sagðist hann hafa notað orðið „aflað“ í því sambandi við fjölmiðla sem hugsanlega hefði misskilist. Sagði hann lögregluna hafa átt um 70 vélbyssur frá því á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar og fram til ársins 2000 en þær hafi sáralítið verið notaðar og verið orðnar gamlar og ónothæfar. Ítrekaði hann að engar ákvarðanir lægju fyrir um að setja slíkar byssur í allar lögreglubifreiðar.

Fullyrðir að vélbyssurnar hafi verið seldar

Haft var eftir Dag Aamoth, upplýsingafulltrúa norska hersins, í fréttum Ríkisútvarpsins 23. október að Landhelgisgæslan hefði í lok síðasta árs keypt 250 MP5 vélbyssur. Kaupsamningur þess efnis hefði verið undirritaður 17. desember. Samkvæmt samningnum ætti Gæslan að greiða 625 þúsund norskar krónur fyrir byssurnar eða sem nemur um 11,5 milljón króna. Aamont vildi ekkert tjá sig um þá fullyrðingu íslenskra stjórnvalda að byssurnar hafi verið gjöf frá Norðmönnum.

Ríkislögreglustjóri sendi frá sér fréttatilkynningu sama dag þar sem sagði að MP5 vélbyssurnar hefðu átt að vera embættinu að kostnaðarlausu. Aldrei hefði staðið til af hálfu þess að kaupa þær. Var upphaf málsins rakið til komu norskrar sendihefndar til Íslands í júní 2013 þar sem rætt hefði verið um að lögreglunni gæti staðið til boða MP5 vélbyssur henni að kostnaðarlausu. Landhelgisgæslan hefði upplýst í janúar á þessu ári að vopnin væru væntanleg og lögreglan gæti fengið 150 stykki.

Ennfremur kom fram í tilkynningunni að vélbyssurnar væru í vörslu Landhelgisgæslunnar og hefðu ekki verið afhentar lögreglunni. Ríkislögreglustjóri hefði þó fengið 35 stykki lánuð til æfinga en skilað þeim aftur. Ríkislögreglustjóri ætlaði ekki að taka við byssunum ef greiða þyrfti fyrir þær. Ennfremur sagði að ríkislögreglustjóra hefði ekki verið kunnugt um samninginn frá 17. desember sama ár fyrr en upplýsingafulltrúi norska hersins hefði upplýst um hann í fréttum Ríkisútvarpsins.

Búnaður verðmetinn en ekkert greitt fyrir hann

Landhelgisgæslan sendi einnig frá sér fréttatilkynningu sama dag þar sem kom fram að hún hefði haft milligöngu um endurnýjun á vopnabúnaði lögreglunnar og um leið úreltan vopnabúnað Gæslunnar sjálfrar. Vopnin hefðu hins vegar ekki verið formlega afhent lögreglunni en væru geymd í viðurkenndum skotvopnageymslum. Þá hefðu engar greiðslur farið fram vegna samkomulags við Norðmenn í þeim efnum. Gæslan hefði um langt árabil átt í samstarfi við Norðmenn um endurnýjun búnaðar. Búnaðurinn væri þá verðmetinn á 1/8 af verði sams konar búnaðar frá framleiðanda. Aldrei hefðu hins vegar farið fram greiðslur eða eftir því verið leitað. Það ætti einnig við í þessu tilfelli.

Ríkisútvarpið talaði aftur við Dag Aamoth 24. október. Þar ítrekaði hann að um sölu á MP5 vélbyssunum hafi verið að ræða en ekki gjöf. Aðspurður sagði hann norska herinn gera ráð fyrir að greitt yrði fyrir vopnin en gat ekki staðfest hvort greiðsla hefði borist. Einnig var rætt við Aamoth í frétt norska dagblaðsins VG daginn eftir þar sem hann ítrekaði að um kaup á vopnunum hafi verið að ræða. Skýrt kæmi fram í samningnum frá 17. desember að um kaup væri að ræða. Vopnin hafi verið seld Landhelgisgæslunni. 

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, ítrekaði í samtali við Ríkisútvarpið 25. október að Gæslan hefði aldrei greitt neitt fyrir vopn eða vopnabúnað. „Þegjandi samkomulag“ væri við Norðmenn um að ekki væri greitt fyrir vopn sem þeir sendu til Íslands. Hins vegar væri alltaf skrifaður út reikningur þar sem fram kæmi verð. Norðmenn hefðu hins vegar aldrei gengið á eftir greiðslum. Fyrir vikið hafi Landhelgisgæslan litið á slíkt sem gjafir.

MP5 vélbyssa.
MP5 vélbyssa.
mbl.is/Eggert
Varðskipið Týr.
Varðskipið Týr. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert