Óvíst hverjir fái tíma bætta

Mynd úr safni
Mynd úr safni mbl.is/Helgi Bjarnason

Skólanefnd Akureyrarbæjar leggur til að greiðsluseðlar vegna tónlistarnáms í Tónlistarskóla Akureyrar fyrir nóvember mánuð verði ekki sendir út, vegna yfirstandandi verkfalls tónlistarskólakennara. Þetta kemur fram í fundargerð skólanefndar.

Formaður Félags tónlistarkennara, Sigrún Grendal, segir að það sé í höndum hvers rekstraraðila að ákveða hvort nemendur fái bætta þá tíma sem þeir missa af vegna verkfallsins.

Vika er síðan verkfall félaga í Félagi tónlistarskólakennara hófst og efnir félagið til kröfuskrúðgöngu í dag af því tilefni.

Fjölmargir nemendur við tónlistarskóla landsins hafa misst af tónlistartímum þessa viku og hafa ýmsir velt því fyrir sér hvort þeir fái tímana bætta enda í flestum tilvikum greitt fyrirfram fyrir önnina að hausti.

Á vef Tónskóla Sigursveins kemur fram að þegar verkfalli lýkur verður athugað hvort og með hvaða hætti skólinn getur bætt upp kennslu sem fallið hefur niður eða komið til móts við nemendur sína með öðrum hætti.

Nýi tónlistarskólinn mun endurgreiða skólagjöld í hlutfalli við þá hljóðfæra- söngtíma sem falla niður, að því er fram kemur á vef skólans en hann er eini tónlistarskólinn í Reykjavík sem borgin hefur gert þjónustusamning við, sem upplýsir um á vef sínum um hvernig nemendur fá bætt fyrir þá tíma sem falla niður á meðan verkfalli stendur. Tekið skal fram að í flestum skólum eru einnig tónlistarkennarar sem eru í FÍH en félagsmenn í FÍH samþykktu kjarasamning sinn. 

Allir tónlistarskólakennarar, deildarstjórar, millistjórnendur og aðstoðarskólastjórar sem greiða félagsgjöld í FT eru í verkfalli. Skólastjórar eru undanþegnir verkfalli vegna stjórnunarstarfa, en starfa ekki sem kennarar á meðan á verkfalli stendur. Aðstoðarskólastjórar fara í ver fall nema að þeir séu kallaðir til sem staðgenglar skólastjóra í stjórnunarstörf. Kennarar sem ekki greiða félagsgjöld í FT og starfa sem verktakar fara ekki í verkfall en mega ekki ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli.

Reykjavíkurborg hefur gert þjónustusamning við 18 einkarekna tónlistarskóla. Þeir eru sjálfstætt starfandi en njóta styrkja frá borginni. Tónlistarskólinn á Klébergi er eini tónlistarskólinn sem er alfarið rekinn af Reykjavíkurborg. Hver og einn tónlistarskóli  hefur sína gjaldskrá og er það því í höndum þeirra að ákveða hvort nemendur fái tíma í stað þeirra sem þeir missa úr vegna verkfalls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert