Umfjöllunin getur fylgt barninu alla ævi

Þörf er á skýrum reglum um umfjallanir fjölmiðla um börn, …
Þörf er á skýrum reglum um umfjallanir fjölmiðla um börn, umfjöllun getur fylgt barninu alla ævi. Þetta er meðal þess sem fram kom á morgunverðarfundi samtakanna Náum saman í morgun. Valdís Þórðardóttir

Nokkuð er um að viðkvæm einkamálefni íslenskra barna séu opinberuð undir nafni og mynd. Ungur aldur brotamanna vekur athygli fjölmiðla á brotum sem þættu síður áhugaverð ef eldri brotamenn ættu í hlut. Þörf er á skýrum reglum um umfjallanir fjölmiðla um börn, umfjöllun getur fylgt barninu alla ævi.

Þetta er meðal þess sem fram kom á morgunverðarfundi samtakanna Náum áttum í morgun þar sem umfjöllunarefnið var opinber umfjöllun um börn, ábyrgð fjölmiðla og foreldra.

Dæmi eru um frásagnir foreldra af matarfíkn barna sinna og fíkniefnaneyslu þeirra, þar sem börnin eru nafngreind og myndir af þeim birtar með, að sögn Heiðdísar Lilju Magnúsdóttur, blaðamanns og lögfræðings Fjölmiðlanefndar sem var ein þeirra sem héldu erindi á fundinum.

„Það má velta því fyrir sér hvort greinarnar hefðu nokkuð misst marks þótt nafni og mynd hafi verið sleppt,“ sagði Heiðdís um þessar tilteknu umfjallanir. „Flestar greinar birtast á netinu og munu þannig fylgja barninu á netinu alla þess ævi.“

„Fjölmiðlar ganga mislangt í að fjalla um einkalíf fólks,“ sagði Heiðdís Lilja. „Til þess að geta stundað starf sitt þurfa blaðamenn að nýta tjáningarfrelsi sitt og í því skyni fjalla um mál sem gætu reynst einhverjum óþægileg. Þetta  frelsi er ekki ótakmarkað og í 16. grein Barnasáttmála SÞ segir að börnum skuli tryggð vernd.“

Fjölmiðlar orðnir meðvitaðri

Hún sagði enga sérstaka stefnu vera í siðareglum Blaðamannafélagsins varðandi nafn- og myndbirtingar á börnum.  Í almennum hegningarlögum segi að hver sem skýri opinberlega frá einkamálefnum annars manns án þess að nægar ásstæður séu fyrir hendi skuli sæta refsingum. „Ég tel að fjölmiðlar séu orðnir meðvitaðri um ábyrgð sína varðandi umfjöllun um börn,“ sagði Heiðdís Lilja. „En það vantar skýrar viðmiðunarreglur í siðareglur Blaðamannafélags Íslands þegar börn eiga í hlut. Það er mikilvægt að fram fari umræða um þessi mál, við þurfum að halda henni á lofti.“

Umfjallanir um einelti og veikindi

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, flutti einnig erindi undir yfirskriftinni Réttur barna gagnvart fjölmiðlum. Hún sagði nokkuð um að málefni einstakra grunnskóla væru til umfjöllunar í fjölmiðlum. 

Nokkuð algengt væri að foreldrar segðu sögur langveikra barna sinna í fjölmiðlum. Þá hefðu birst margar frásagnir um meint einelti barna eða kennara „Þarna er oft verið að fara inn á mjög persónuleg mál barna. Þarna bera fjölmiðlar mikla ábyrgð, að meta hvort þörf er á öllum þessum upplýsingum,“ sagði Hrefna. „Í þessum umfjöllunum eru oft gefnar upp miklar persónuupplýsingar um barnið, t.d. að það glími við ýmis vandamál og sjúkdóma. Þurfa allir að vita þetta?“

 „Fullorðnir hafa þroska og dómgreind til að ákveða hvort þeirra mál eru til umfjöllunar, en börn hafa ekki þessa dómgreind. Foreldrar eru helstu málsvarar barna sinna, en hver tekur við ef þeir bregðast og gera börn sín berskjölduð í fjölmiðlum, án þess að sjálfsögðu að ætla sér það?“ spurði Hrefna. „Margir þessara foreldra eru ráðþrota og koma því fram í fjölmiðlum, en þarna verða fjölmiðlar að taka ákvörðun; er þetta rétti staðurinn til að útkljá málið og hversu miklar upplýsingar þurfa að koma fram?“

„Vissulega er það hlutverk fjölmiðla að veita raunsanna mynd af veruleikanum. En hvað greinir á milli þess hvort tiltekið efni á erindi við almenning eða ekki og hversu ítarlega á að fara?“

Facebook-færsla verður að frétt

Annað dæmi sem Hrefna nefndi í þessu sambandi var að oft verði Facebook-færslur að fréttum. T.d. hefði nýverið birst á netmiðli Facebook-færsla áhyggjufulls föður sem hefði varað aðra foreldra við meintum barnaníðingi. Faðirinn hefði komið fram undir nafni. „Á sama tíma var hann að upplýsa um persónuleg málefni sonar síns sem hann vill kannski ekki að verði á almannavitorði.  Var nauðsynlegt að nafngreina föðurinn, hefði fréttin að einhverju leyti misst gildi sitt?“ spurði Hrefna.

Stimpillinn getur fylgt barninu alla tíð

Ungur aldur brotamanna vekur athygli fjölmiðla á brotum sem að öllu jöfnu myndu ekki þykja áhugaverð ef eldri brotamenn ættu í hlut. Oft er litskrúðugu orðalagi beitt til að lýsa eiginleikum ungs fólks sem grunað er um afbrot og dæmi eru um að ungmenni hafi verið sýknuð eftir að nöfn þeirra og myndir af þeim hafa birst í fjölmiðlum. Velta mætti upp þeirri spurningu hvort tímabært sé að setja nafn- og myndbirtingum í fjölmiðlum skorður með löggjöf þegar fjallað er um afbrot barna.

Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Svölu Ísfeld Ólafsdóttur dósents við lagadeild HR á fundinum. Hún hefur skoðað lög, reglur og fjölmiðlaumfjallanir um afbrot barna og ungmenna á Íslandi.

Svala tiltók nokkur dæmi þar sem nöfn og myndir ungra meintra afbrotamanna hafa birst í fjölmiðlum. Orð eins og brjálæðingur og forhertur voru notuð um þetta unga fólk og Svala sagði rannsóknir hafa sýnt að svokölluð stimplunaráhrif sem fylgi umfjöllun sem þessari geta verið mjög neikvæð fyrir viðkomandi, neikvæð áhrif þessarar „stimplunar“ geti verið enn neikvæðari í litlu samfélagi eins og Íslandi en í stærri málum.

„Þessi umfjöllun um afbrot barna getur fylgt þeim til langframa og haft áhrif á framtíðarmöguleika þeirra,“ sagði Svala.

Lagaleg skylda að vernda börn fyrir skaðlegum afleiðingum eigin gjörða

Hún sagði að dæmi væru um að ungt fólk sem hefði verið fjallað um undir nafni og mynd sem afbrotafólk í íslenskum fjölmiðlum hefði verið sýknað og væri þannig í lagalegum skilningi ekki brotamenn. „Sakamál eru opinber mál og það er skylt að birta dóma hæstaréttar opinberlega. En þó að þinghald sé opið getur dómari ákveðið að óheimilt sé að skýra opinberlega frá því sem þar fer fram. Þá er heimilt að afmá nöfn úr dómum. Það er lagaleg skylda okkar að vernda börn fyrir skaðlegum afleiðingum eigin gjörða,“ sagði Svala og spurði:  

„Er tímabært að setja nafn- og myndbirtingum í fjölmiðlum skorður með löggjöf þegar fjallað er um afbrot barna? Ætti nafnleynd að vera meginregla í dómum hæstaréttar þegar viðkomandi hefur framið brot á barnsaldri?“ 

Náum áttum er opinn samstarfshópur um fræðslu- og forvarnarmál og að honum standa m.a. Embætti landlæknis, Barnaverndarstofa, Reykjavíkurborg, Þjóðkirkjan og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.

Heiðdís Lilja Magnúsdóttir er lögfræðingur Fjölmiðlanefndar.
Heiðdís Lilja Magnúsdóttir er lögfræðingur Fjölmiðlanefndar. Þórður Arnar Þórðarson
Hrefna Sigurjónsdóttir formaður Heimilis og skóla hélt erindi á málþingi …
Hrefna Sigurjónsdóttir formaður Heimilis og skóla hélt erindi á málþingi á vegum samtakanna Náum áttum í morgun. Þórður Arnar Þórðarson
Svala Ísfeld Ólafsdóttir dósent við lagadeild HR.
Svala Ísfeld Ólafsdóttir dósent við lagadeild HR. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert