„Við viljum koma heilir heim“

Lögreglumenn hafa haft aðgang að skotvopnum í áratugi.
Lögreglumenn hafa haft aðgang að skotvopnum í áratugi. mbl.is/Júlíus

Lögreglumaður á landsbyggðinni segir umræðu um vopnabúnað lögreglu helgast af vanþekkingu. Hann hafi á undanförnum átta til tíu árum farið í fimm útköll þar sem lögreglumenn voru vopnaðir. Engum skotum hafi verið hleypt af en eðli málanna samkvæmt þótti þeim nauðsynlegt að vera við öllu búnir.

Eins og margoft hefur komið fram í fjölmiðlum undanfarna rúma viku voru sendar til landsins - keyptar eða gefnar - frá Noregi MP5 léttar vélbyssur sem meðal annars gert er ráð fyrir að verði notaðar til að vopnbúa lögregluembættin. Tekist hafa á ýmis sjónarmið, meðal annars um það hvort íslensk lögregla eigi ekki að vera vopnlaus áfram sem hingað til.

„Það er bara þannig að lögreglan hefur búið yfir vopnum í marga áratugi og það er ekkert leyndarmál að skotvopn eru geymd á öllum lögreglustöðvum landsins,“ segir lögreglumaðurinn sem mbl.is ræddi við en hann kaus að koma ekki fram undir nafni. Maðurinn hefur starfað innan lögreglunnar um árabil og nú á landsbyggðinni.

Til að auka viðbragðstíma lögreglunnar

Hann segir lögreglumönnum sárna umræðan og að þeir telji skorta á hún sé með upplýstum hætti. „Umræðan snýst dálítið mikið um það að hin almenna lögregla þurfi ekki að vera búin vopnum því við höfum vopnaða sérsveit. En við búum ekki á höfuðborgarsvæðinu og búum því ekki við það að geta fengið vopnaða lögreglusveit á nokkrum mínútum. Það er bara þannig hjá okkur að það getur tekið þrjár til fimm klukkustundir að fá sérsveitarmenn á vettvang. Þangað til þurfa hinir almennu lögreglumenn að reyna halda velli. Það er bara eðli þessa starfs að við þurfum að geta sinnt þeim verkefnum sem koma upp hverju sinni og búa yfir þeim búnaði sem þarf.“

Hjá embætti lögreglumannsins eru ekki vopn í lögreglubílum en þau eru geymd á lögreglustöðvum. Hann segir lögreglumenn hins vegar ekki sjá eðlismun á því hvort vopnin séu geymd í læstum hirslum á lögreglustöðvum eða í læstum hirslum í farangursrými lögreglubifreiða, sem enginn kemst í. „Það er jafnvel talað um að þetta verði með þeim hætti að við komumst ekki einu sinni í vopnin í bílunum nema með því að fá uppgefinn ákveðinn talnalás frá stjórnstöð, þegar það þarf að nota þau.“

Auk þess bendir hann hið augljósa öryggi sem felst í því fyrir lögreglumenn á landsbyggðinni að hafa vopnin í bílunum. „Við erum að þjóna stórum landssvæðum, jafnvel þúsundir ferkílómetra. Ef við erum staddir í öðrum endanum á umdæminu og upp kemur útkall sem krefst þess að við þurfum að vopnast þá eigum við eftir að keyra á lögreglustöðina í kannski klukkustund og svo aðra klukkustund á vettvang. Það að hafa vopnin í bílunum er eingöngu til að auka viðbragðstíma ef til þess kemur.“

Þurfa að standast próf árlega

Sem fyrr segir þá hafa lögreglumenn haft aðgang að skotvopnum í áratugi. En spurður að því hvort ekki sé eðlisbreyting á vopnabúnaði lögreglunnar þegar í vopnabúrið eru komnar MP5 léttar vélbyssur segir lögreglumaðurinn: „Það er kannski dálítil eðlisbreyting vegna þess að þetta vex fólki í augum. En í mínum huga er skotvopn bara skotvopn og skiptir í raun ekki máli hvað það heitir. Bæði skammbyssur og hríðskotabyssur eru framleiddar til að gera menn óvíga, sem vonandi mun aldrei gerast.“

Hann segir miklu máli skipta hvað þetta varðar að lögreglumenn þurfa að standast próf í meðferð skotvopna á hverju einasta ári. „Í þeim prófum skjótum við með þeim skotvopnum sem við höfum. Ef við stöndumst ekki þessi próf þá fáum við ekki að nota þessi skotvopn. Okkur sárnar því mjög mikið umræðan um að lögreglumenn séu ekki hæfir til að bera og nota þessi vopn. Við fengjum ekki þessi vopn ef við værum ekki hæfir til að nota þau. Við fáum til þess þjálfun.“

Þegar hafa flestir lögreglumenn á landinu fengið þjálfun í notkun MP5 vélbyssa og segir lögreglumaðurinn sem mbl.is að gríðarlegur munur sé á þeim og skammbyssunum. „Þetta er miklu nákvæmara vopn en skammbyssan. Það er hægt að skjóta örugglega af lengra færi og í raun er þetta bara nákvæmara og betra vopn að öllu leyti.“

Fimm sinnum í útkall með skotvopn

Lögreglumaðurinn segist muna eftir fimm tilvikum á undanförnum átta til tíu árum þar sem útkall krafðist þess að lögreglumenn bæru skotvopn. „Ekkert af þessum málum rataði í fjölmiðla, þau voru ekki þess eðlis. Þau hefðu hæglega getað gert það en sem betur fer þróuðust þau með þeim hætti að það gerðist ekki. Þá erum við að tala um viðkvæm mál, veika einstaklinga, sjálfsvíg eða hótanir um sjálfsvíg. Þá vorum við í skotheldum vestum, með hjálma og skammbyssur og annað slíkt því útköllin eru þess eðlis að við megum ekki verða undir.“ Engum skotum hafi hins vegar verið hleypt af.

Hann segir að þetta sé veruleikinn sem blasi við lögreglumönnum. Ekki dagsdaglega en slík útköll geti komið upp. „Okkar starf snýst fyrst og fremst um að vernda borgara þessa lands og við það verðum við einnig að hugsa um okkar eigið öryggi. Við eigum fjölskyldur og viljum koma heilir heim. Um þetta snýst málið.“

Einnig segist hann ekki skilja það þegar fólk hefur undirskriftarsöfnun um að afvopna lögregluna né að þúsundir skuli skrifa undir. „Eiga þá lögreglumenn að vera lakar vopnum búnir en þeir sem afskipti er haft af? Í þessu sambandi má kannski nefna að sextán þúsund manns gengu um fjöll og firnindi þungvopnaðir síðustu helgi. Vonandi flestir með skotvopnaleyfi og allt sitt í lagi en það sér enginn neitt athugavert við það. Nei, það á að taka vopnin af lögreglunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert