Vilja sömu laun og grunnskólakennarar

Enn virðist vera langt í land í viðræðunum Félags tónlistarkskólakennara …
Enn virðist vera langt í land í viðræðunum Félags tónlistarkskólakennara við sveitarfélögin. mbl.is/Ómar Óskarsson

Verkfall tónlistarskólakennara hefur nú staðið yfir í rúma viku. Formaður Félags tónlistarskólakennara segir að enn sé langt í land í kjaraviðræðunum en kennararnir telja sig m.a. ekki geta samþykkt að rekstraaðilar skólanna geti tekið einhliða ákvörðun um lengd vinnuviku kennarana.  

Nokkrir árangurslausir fundir eru að baki í deilunni og verður næst fundað í húsi Ríkissáttasemjara á morgun kl. 15.

Höfnuðu tilboði tónlistarskólakennara

Að sögn Sigrúnar Grendal, formanns FT, lagði samninganefnd félagsins fram tilboð á síðasta fundi, tilboð sem samninganefndin taldi að kæmi til móts við sjónarmið sveitarfélaganna.

„Tilboðinu var hafnað. Það má segja að við stöndum frammi fyrir því að okkur eru settir afarkostir sem ég veit ekki til að önnur stéttarfélög hafi þuft að standa frammi fyrir,“ segir Sigrún í samtali við mbl.is.

„Eitt meginágreiningsefnið snýst um að við teljum okkur með engu móti geta skrifað upp á í miðlægum kjarasamningi að vinnuvika tónlistarkennara að lengd vinnuvikunnar sé einhliða ákvörðun rekstraraðila og geti þannig orðið 53 klukkustundir eða lengri eftir ákvörðun rekstraraðila.“

Vilja sömu laun og leik- og grunnskólakennarar

Aðspurð um launakröfur félagsmanna segir hún að í viðræðunum hafi aðeins verið boðið upp á breikka bilið á milli þeirra og annarra kennara.

Samninganefnd FT hafi meðal annars lagt fram að félagsmenn fái greitt eftir sömu launatöflu og leik- og grunnskólakennarar en ekki hefur verið orðið við því.

 „Við leggjum fram hugmyndir og það er okkar hlutverk að vera lausnaraðili og leita leiða. Ef kröfur sveitarfélagana eru með þeim hætti sem ég lýsi hér þá er málið snúið,“ segir Sigrún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert