Norðurslóðasókn - Heiðar Guðjónsson

Þar sem ís­inn rym­ur er sér­blað sem fylgdi Morg­un­blaðinu föstudaginn 31. októ­ber. Þar segja Ragn­ar Ax­els­son (RAX) og fleiri frá ferð sinni um Græn­land í máli og mynd­um. Í blaðinu fjalla Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og áhugamaður um norðurslóðir, og Haraldur Sigurðsson, prófessor í haffræði við Háskólann í Rhode Island, um málefni norðurslóða. Skrif Haraldar birtast á mbl.is um helgina.

Myndirnar sem RAX tók eru í myndasyrpu sem fylgir fréttinni. Þar að auki má hér sjá stutt viðtöl og myndbrot úr ferð þeirra.

Hægt er að nálgast blaðið í pdf-útgáfu neðst í þessari grein. Til að sjá myndirnar á sem bestan hátt er mælt með að skoða heila opnu í skjalinu í einu.

Norðurslóðasókn

TEXTI: Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og áhugamaður um norðurslóðir

Það var fyrir áratug sem ég fór fyrst til Grænlands. Ég leiddi skíðahóp sem hafði ákveðið að skíða hæsta tind norðurheimskautsins, fyrstir manna, en hópurinn, sem var mest samsettur úr Bandaríkjamönnum og Kanadamönnum, þurfti fyrst að fara í æfingaferð á létt­ari slóðir. Við fórum því til Scoresbysunds og þaðan með hundasleðamönnum upp á skriðjökulinn, inn í Liverpool Land. Þar settum við upp tjaldbúðir í þjóðgarðinum, sem er níu sinnum stærri en Ísland, klifum fjöll og skíðuðum niður, enda öll vélknúin ökutæki bönnuð þar um slóðir. Þessi lífsreynsla opnaði augu mín fyrir ævintýralegum heimi norðursins.

Það má segja að ég hafi tekið norðurslóðaveikina. Ég fór að lesa mér til um jarðfræði svæðisins, sögu og í raun allt sem ég komst yfir. Það er magnað til þess að hugsa að nágrannarnir Ísland og Grænland séu elsta og yngsta land heims, annað allt að 4.000 milljón ára gamalt og yngsti hluti Íslands aðeins nokkurra daga (sá elsti er Vestfirðir, um 16 milljón ára). Áfram héldu ferðir til Kanada og Bandaríkjanna auk Grænlands og við náðum takmarkinu að skíða Gunnbjörn (3.700 metra hár) á Austur-Grænlandi árið 2006, en smám saman fór framtíð norðursins að veltast meira fyrir mér en sagan.  

Það var því kærkomið tækifæri að fara í einstökum hópi í siglingu um sömu slóðir og ég fór fyrst til á Grænlandi. Ég hef yfirleitt verið þar um vor, þegar skíðafæri er sem best og hafið er ísilagt, en að ferðast um á báti sem búinn er helstu þægindum og flytur allan búnað, í stað þess að hírast í tjaldi og ganga með allt sitt hafurtask, er frábær upp­lifun. En það segir líka sitt um þær áskoranir sem við blasa þegar vinna á úr auðlindum norðursins. Það er nánast alger skortur á innviðum á svæðinu, sem aftur leiðir hugann að því hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Á því hef ég ákveðna sýn.

Að nýta sér breytingar

Sagan sýnir okkur að breytingar eru óhjákvæmilegar. Það sem skilur á milli feigs og ófeigs er hvernig brugðist er við breytingum. Byggð norrænna manna á Grænlandi, sem stóð í hátt í 500 ár, er talin hafa lagst af vegna þess að þeir breyttu ekki út af venjum sínum, þrátt fyrir að náttúran væri ólík því sem þeir áttu að venjast. Þeir aðlöguðust ekki aðstæðum.

Landbúnaðarbyltingin, sem hófst fyrir yfir 10.000 árum, kom síðast til Norður­landanna, af öllum svæðum Evrópu. Það var ekki fyrr en um 2.000 árum sem Norðurlandabúar fóru að einbeita sér að búskap frekar en veiðum.

Afleiðingin af þeirri tæknibyltingu og bættum lífskjörum var sú að fólksfjölgun tók mikinn kipp. Það var sérstaklega krefjandi fyrir forfeður okkar í Noregi, þar sem einungis um 3% landsvæðis þóttu heppilegt til ræktunar, en 97% voru meira og minna óræktanleg. Önnur tæknibylting, siglingatækni Miðjarðarhafsins, barst svo til Norðurlanda eftir árið 600 og opnaði á þann möguleika að nema ný lönd, enda voru auðlindirnar orðnar af skornum skammti heima fyrir.

Búnaðarhættir forfeðra okkar breyttust lítið sem ekkert þó að þeir flyttu á nýjar slóðir, hvort sem það var til Grænlands eða Íslands. Búsmalinn hafði minna að bíta og brenna en í fyrri heimahögum, og náttúran var viðkvæmari fyrir beit. Vísindamenn sem hafa rannsakað beinahauga í kringum byggðir norrænna manna á Grænlandi sjá til dæmis að nautgripirnir minnkuðu jafnt og þétt, enda var farið að drýgja hina takmörkuðu gjöf af heyi með sölum og þangi, allt þar til yfir lauk. Á Grænlandi tóku menn ekki upp nýja tækni, með því t.d. að fara á kajökum að veiða sel og hvali, sem Inúítar, sem vitað er að samskipti voru við, gerðu.

Í dag myndi engum heilvita manni detta í hug að nota búskaparhætti sem Íslendingar stunduðu fyrr á öldum, í raun allt fram undir 1950, og reyna að draga fram lífið þannig. Við höfum lært nýja tækni og nýjar aðferðir til að hagnýta okkur auðlindir náttúr­unnar á mun hagkvæmari hátt, með minni ágangi en meiri afrakstri.

Bein samsvörun er á milli þess sem gerðist þegar landbúnaðarbyltingin átti sér stað í heiminum fyrr á öldum, ný lönd voru numin og nýjar auðlindir nýttar, og nú er að gerast þegar iðnbyltingin er að iðnvæða þróunarlönd. Hvort tveggja kallar á breyttar áherslur og býður upp á nýja möguleika, með betri lífskjörum fyrir alla.

Duga auðlindirnar? 

Fólksfjölgunin í heiminum er hröð. Þegar ég fæddist árið 1972 voru þrír millj­arðar manna á jörðinni og hagfræðingar og vísindamenn í MIT gáfu út bókina The Limits to Growth, sem spáði fyrir um að auðlindirnar myndu þverra að stórum hluta í kringum 2000 og lífskjör myndu einungis versna frá fæðingarári mínu.

Reyndar höfðu aðrir vísindamenn í Cambridge, undir forystu hagfræðingsins Malthusar, spáð fyrir viðlíka hamförum árið 1800 þegar mannkynið náði fyrst að fylla milljarðinn.

Villan hjá vísindamönnunum var sú að þeir sáu ekki fyrir framfarir í hagnýtingu auðlinda. Þeir hugsuðu með svipuðum hætti og forfeður okkar á Grænlandi og „keyrðu eftir baksýnisspeglinum“ eins og það er kallað í dag.

Mannkynið losaði fyrst sjö milljarða árið 2011 og spáð er að það nái hámarki og haldist í kringum tíu milljarða um og eftir árið 2040. Tækniframfarir gera þessa fólks­fjölgun mögulega.

Við sjáum hvernig verið er að færa samfélög í Suður-Ameríku, Asíu og Afríku til nútímans og iðnvæða þau. Því fylgir myndun borga, en stórborgum fjölgar nú gríðarlega hratt. Borgir eru hagkvæmari en dreifðar byggðir, þær nýta byggingarefni, innviði og orku betur en aðrar tegundir búsetu. Eins er þjónustu­framboð mun meira og við sjáum um allan heim hvernig fólk flykkist úr sveitum til borga.

Það er ekki síst aukið jafnrétti kynjanna sem ýtir undir þessa þróun, því að sveitir bjóða mun fleiri störf sem kalla á líkamlegt erfiði og konur sækja síður í slík störf. Eins veldur aukin áhersla á uppeldi og þroska barna því að fjölskyldur flytja til borga, því að framboð á menntun og afþreyingu þar er allt annað og meira.

Árið 2008 var fyrsta árið í mannkynssögunni þar sem meirihlutinn bjó í þéttbýli, sem er gríðarleg breyting á aðeins einni öld. Auðvitað er ekki allt jákvætt við borgir, og þær henta ekki öllum, en það má segja að náttúran njóti góðs af þeim, því að auðlindirnar duga betur og álag á umhverfið minnkar.

Það stendur samt eftir að mannkynið hefur aldrei haft það betra en nú. Menntunar­stig hefur aldrei verið hærra, fátækt og ungbarnadauði aldrei verið minni og jafnrétti aldrei verið meira. Allir helstu mælikvarðar á lífsgæði sýna það sama. Og ekkert bendir til þess að sú þróun sé að snúast við.

Borgir vaxa hvað hraðast í Kína á næstu áratugum. Af þeim 14 nýju borgum sem bætast í hóp stórborga á næsta áratug eða svo er talið að átta verði í Kína og aðeins ein í hinum vestræna heimi; Chicago. Eins vaxa borgir sérstaklega hratt í Pakistan og á Indlandi.

Það eru þessi svæði sem helst vantar þær auðlindir sem norður­heimskautið hefur upp á að bjóða. Ólíkt Norður-Ameríku, sem er sjálfri sér næg um orku, vex orkuinnflutningur gríðarhratt í Asíu og mun halda áfram að vaxa um fyrirsjáanlega framtíð. Suður-Ameríka er að vinna úr nýuppgötvuðum orkuauðlindum, sem og Afríka. Innflutningur Asíu á hrávörum til uppbyggingar hefur vaxið ótrúlega á síðustu þremur áratugum og það mun væntanlega hægja á þeim vexti, en eftirspurnin verður áfram mikil. Það blasir því við að Asía ætti að hafa mikil viðskipti við norður­heimskautið; heimsálfuna vantar það sem við eigum.

Gagnkvæmur ávinningur viðskipta

Ef við skoðum útflutning Íslands til annarra ríkja norðurheimskautsráðsins er hann afskaplega takmarkaður. Ástæðan er einföld; við eigum sömu auðlindirnar. Þjóðirnar í hánorðri eiga ofgnótt af sumum auðlindum en engar af öðrum. Við þurfum því að eiga viðskipti við aðila sem eru í öfugri stöðu við okkur en ekki þeirri sömu. Með því að flytja til dæmis út fisk til Japan en flytja inn hrísgrjón þaðan má með sönnu segja að við séum að nálgast það að framleiða hrísgrjón. Það gefur augaleið að viðskipti sem þessi fela í sér gagnkvæman ávinning.

Ef við skoðum auðlindir norðurheimskautsins er það síðasta auðlindaríka svæði jarðarinnar sem er að mestu ókannað. Þær kannanir sem gerðar hafa verið benda þó til gríðarlegs magns auðlinda. Þannig er talið að norðan heimskautsbaugs séu um 15% alls landnæðis jarðar og um 20% allra orku- og námuauðlinda. Þá eru gríðarlegar vatns­birgðir ótaldar.

Á norðurheimskautssvæðinu búa einungis um fjórar milljónir manna. Í Reykjavík, sem er nyrsta höfuðborg heims, býr ríflega einn af hverjum tuttugu sem annars byggja svæðið. Á Íslandi eru síðan þróuðustu innviðir sem um getur á svæðinu; þar sem íslausar hafnir eru allt árið um kring, alþjóðlegur flugvöllur með flug til allra landa Norðurheimskauts­ráðsins, öflugt heilbrigðiskerfi, sendiráð frá öllum ríkjum norðurheimskauts­ráðsins og flestum áheyrnarríkjum, gríðarlega öflugt raforkukerfi og mikil sérfræðikunnáttu við siglingar, verklegar framkvæmdir og þjónustu í þessum heimshluta. Ísland hefur þróuðustu innviði norðurheimskautsins, enda voru Íslendingar miðstöð þjónustu á Norður-Atlantshafinu um alda skeið á Þjóðveldisöld, eins og Helgi Guðmundsson fer vel í gegnum í merkilegri bók sinni Um haf innan.

Flutningar eru forsenda velmegunar. Fremsti hagfræðingur sögunnar varði heilum kafla í upphafi bókar sinnar í að fjalla um flutninga. Í þriðja kafla Auðlegðar þjóðanna (1776) segir Adam Smith að hægt sé að flytja 15 sinnum meiri farm, með sama til­kostnaði, ef notast er við siglingar frekar en farartæki á landi. Enda gefur það augaleið að viðnámið í vatni er mun minna en á landi, og margra tonna skip er hægt að hreyfa með handafli eða vindafli. Flutningar eru undirstaða viðskipta, því án þeirra þyrftu hvert svæði að stunda sjálfsþurftarbúskap og gæti ekki notið gagnkvæms ávinnings við­skipta. Þannig eru flutningar undirstaða verkaskiptingar, sem aftur er undirstaða velsældar. Þegar flutningar til og frá Íslandi lögðust af eftir að Þjóðveldið leið undir lok hófst erfiðasta lífskjaraskeið þjóðarinnar. Það var ekki fyrr en einokunarverslun var aflétt og Íslendingar tóku flutninga í eigin hendur með stofnun Eimskipafélagsins að lífskjörin tóku aftur að batna.

Vestur-Íslendingurinn Vilhjálmur Stefánsson (1879-1962) var eins og margir landar hans upplýstur um gildi flutninga. Það sem hann sá þó, en aðrir ekki á sínum tíma, var hvernig nýtt Miðjarðarhaf gæti myndast á Norður-Íshafinu, þegar menn færu að sigla þar á milli þeirra þriggja heimsálfa sem þar liggja að, líkt og Grikkir og aðrar þjóðir höfðu tengt saman Asíu, Afríku og Evrópu á Miðjarðarhafinu. Vilhjálmur sá einnig fyrir að flug myndi hefjast yfir norðurpólinn, enda eru vegalengdir þar langtum styttri á milli heimsálfanna en að fara með miðbaug. Vilhjálmur var vinur Wright-bræðra og þekkti vel Charles Lindbergh. Að lokum fór svo að hann var ráðgjafi Bandaríkjastjórnar og Pan Am-flugfélagsins, sem fyrst hóf flugferðir um pólinn.  

Einn stærsti fraktflugvöllur heims er Ted Stevens í Anchorage í Alaska. Sá flugvöllur er í 300.000 manna borg í fylki sem telur einungis 700 þúsund manns og er hið torfærasta í Bandaríkjunum. En hvað ræður þessu? Það er að sjálfsögðu hnatt­ræn staða vallarins, Kyrrahafsmegin í Bandaríkjunum á 61. breiddargráðu. Það er hentugt fyrir vörur sem koma t.d. frá Suður-Kóreu, Japan, Taívan og Kína að hafa viðkomu í Anchorage og þaðan fara vörurnar áfram yfir pólinn, annaðhvort til austur­strandar Bandaríkjanna eða Evrópu. Þegar Sovétríkin lokuðu flughelgi sinni var flugvöllurinn einnig mjög umsvifamikill í farþegaflugi og slíkir flutningar gætu færst í aukana á nýjan leik.

Á Íslandi höfum við Keflavík, með sömu hnattrænu stöðu Atlantshafsmegin og Ted Stevens hefur Kyrrahafsmegin, en eilítið norðar á 64. breiddargráðu. Sá völlur þjónar nú 3,8 milljónum farþega á ári, en Reykjanesbær, sem völlurinn stendur við, telur um 14 þúsund manns. Fyrir nokkrum áratugum hefði þetta þótt ótrúlegt. En hægt er að sjá fyrir sér enn meiri umsvif í dag, bæði með frakt og farþega. Nefna má í því sambandi að fríverslunarsamningur við Kína tók gildi 1. júlí, sá fyrsti sem gerður var við Evrópuríki. Nýja-Sjáland kláraði fríverslunarsamning sinn við Kína árið 2008 og hefur verslun landanna þrefaldast í kjölfarið, þannig að og í dag hefur Kína tekið fram úr Ástralíu sem stærsti viðskiptaaðili Nýja-Sjálands. Til gamans má geta þess að flugleiðin frá Nýja-Sjálandi til Sjanghæ er um 9.400 kílómetrar en frá Íslandi 9.000 kílómetrar, það er sem sagt styttra á milli Sjanghæ og Keflavíkur en Sjanghæ og Auckland!

En það er ekki bara í fluginu sem gríðarleg þróun hefur átt sér stað síðustu ára­tugi. Með gámabyltingunni, sem hófst með uppfinningu Malcolm McLean (1913-2001) um miðjan 6. áratuginn, lækkaði flutningskostnaður heimsins um 95%. Sú sprenging sem fylgdi á eftir í milliríkjaviðskiptum þarf ekki að koma á óvart. Má segja að gámabyltingin, sem lítur ansi hversdagslega út, hafi breytt hnettinum í eitt markaðssvæði. Nú gátu lönd í Suðaustur-Asíu komið sér inn á hinn áður lokaða vestræna markað með nánast allar vörur. Viðskiptin blómstruðu og verkaskiptingin jókst, sem aftur leiddi til stökk­breytingar á lífsgæðum þessara áður lokuðu landa.

Nú er því svo fyrir komið að Kína er umsvifamesti aðilinn á alþjóðamarkaði eftir að hafa tekið fram úr Bandaríkjunum og er orðið umtalsvert umsvifameira en Evrópu­sambandið. Meiri hagvöxtur í Kína mun að öllum líkindum leiða til þess að um miðjan næsta áratug verður landið með meiri þjóðarframleiðslu en Bandaríkin. Sá vöxtur er drifinn áfram af alþjóðaviðskiptum og ekkert land heimsins er jafn viðkvæmt fyrir alþjóðlegum áföllum og Kína, enda er alþjóðlegi hluti hagkerfisins margfalt stærri en hjá Bandaríkjunum og ESB. Sú mynd sem margir hafa af Kína, að það geti leyft sér allt á alþjóðamarkaði í skjóli stöðu sinnar, er röng og ætti miklu frekar við um Banda­ríkin, sem eru alltaf að komast nær því að verða sjálfbær um allt.

Samstarf er nauðsynlegt

Kanada og Bandaríkin hafa mjög þróaðan námuiðnað og olíu- og gasvinnslu. En þessi lönd eiga líka nóg af slíkum möguleikum heimafyrir og þurfa ekki að sækja tækifærin annað og hafa stundum hreinlega ekki mannskap eða tæki til þess. Grænland og Ísland búa ekki yfir þessari þekkingu og reynslu. Hverjir eru líklegastir til að bjóða sig fram til samstarfs við okkur? Eru það ekki einmitt þjóðir Asíu sem vantar auðlindirnar og hafa þekkinguna á námu- og olíuvinnslu?

Íslendingar eru stoltir af sjávarútveginum. Enda vandfundin hagkvæmari eða þróaðri atvinnugrein á landinu, eða alþjóðlega. Sjávarútvegur á Íslandi var ekki burðarmikill þangað til erlendir aðilar komu til Íslands með samstarf í huga. Skoskir bræður settu upp vélskipaútgerð í Hafnarfirði í upphafi síðustu aldar og réðu Íslendinga til vinnu, sem þá sóttu sjóinn á árabátum. Það var fyrsti vísirinn að togaraútgerð landsins, sem hefur skapað gríðarleg verðmæti. Það leið ekki á löngu fyrr en Íslendingar voru farnir að reka sín fyrirtæki algerlega sjálfir, og kaupa fyrirtæki alþjóðlega á þessu sviði. Eins hefur útflutningur á hugviti tengdu sjávarútvegi alltaf verið að aukast. Það er ekkert sem segir að Íslendingar geti ekki með alþjóðlegu samstarfi tekið upp aðrar iðnir. Eins er hægt að nefna dæmi frá frændum okkar í Færeyjum þar sem þjónusta við olíuiðnað er hlutfallslega svipuð að stærð og útgerð á Íslandi. Færeyingar hafa byggt hratt upp sína þekkingu með alþjóðlegu samstarfi á tveimur áratugum, og það þrátt fyrir að engin olía hafi fundist þar enn.

Er ábyrgt af smærri löndum að segja hreinlega „við getum þetta ekki og ætlum ekkert að gera í þessu“? Er ábyrgt að selja bara leyfi til námu- og olíuvinnslu og gera ekkert til að reyna að yfirfæra þekkinguna sem því fylgir? Mér finnst ábyrgt að taka þátt, fyrst með takmörkuðum hætti, kynnast greininni og sjá hvaða möguleika þjóðin hefur til þátttöku. Það hlýtur alltaf að vera betra að fjölga arðbærum atvinnugreinum landsins, slíkt minnkar sveiflur og eykur atvinnumöguleika landsmanna og þar með lífsgæði.

Mannkynið býr í norðri og færir sig norðar

Einungis þriðjungur landnæðis jarðar er sunnan miðbaugs en tvöfalt meira landsvæði er norðan hans. Mannkynið býr þó að langmestu leyti norðan miðbaugs, níu af hverjum tíu íbúum jarðarinnar. Efnahagslífið og umsvifin eru því að langmestu leyti fyrir norðan. Hvað flutninga á milli landa varðar eru siglingar sem fyrr ódýrasti flutningamátinn. Þegar við bætist að stærsta hluta ónýttra auðlinda jarðar er að finna á sama svæði er ljóst að skipaumferð og flugumferð eiga eftir að aukast gríðarlega á næstu áratugum. Er þá alveg sama hvort horft er til flutninga á milli heimsálfa um Norður-Íshafið, á milli Kyrrahafs og Atlantshafs, eða til þess að nýta náttúruauðlindir svæðisins með strandsiglingum.

Þegar nýta á auðlindir fjarri íbúabyggð er ekki lausnin, eins og áður var, að flytja þangað fjölda fólks og byggja upp samfélag. Tæknin í dag býður upp á mun greiðari samgöngur og þegar nýta á t.d. námu, sem oft tæmast á 20 árum, borgar sig ekki að leggja rafkerfi, byggja upp þorp, heilbrigðiskerfi og alla þjónustu sem vantar heldur er notast við þá þjónustumiðstöð sem næst er. Hvað varðar Atlantshafs­hlutann af norðurheimskautinu bjóða fáir staðir upp á meiri möguleika en Ísland.

Ísland á að læra af sögunni. Við erum að sjá svipaðar breytingar alþjóðlega og ýttu forfeðrum okkar frá Noregi og norður á bóginn, en í dag er það iðnvæðing heimsins frekar en útbreiðsla landbúnaðar. Við vitum að norðurslóðasóknin heldur áfram og við þurfum að hugleiða hvort við viljum taka þátt í þeirri sókn eða láta öðrum hana eftir og hafa þar með ekkert um framhaldið að segja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert