Nágrannarnir Grænland og Ísland - Haraldur Sigurðsson

Þar sem ís­inn rym­ur er sér­blað sem fylgdi Morg­un­blaðinu föstudaginn 31. októ­ber. Þar segja Ragn­ar Ax­els­son (RAX) og fleiri frá ferð sinni um Græn­land í máli og mynd­um. Í blaðinu fjalla Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og áhugamaður um norðurslóðir, og Haraldur Sigurðsson, prófessor í haffræði við Háskólann í Rhode Island, um málefni norðurslóða. Skrif Heiðars birtust á mbl.is um helgina.

Myndirnar sem RAX tók eru í myndasyrpu sem fylgir fréttinni. Þar að auki má hér sjá stutt viðtöl og myndbrot úr ferð þeirra.

Hægt er að nálgast blaðið í pdf-útgáfu neðst í þessari grein. Til að sjá myndirnar á sem bestan hátt er mælt með að skoða heila opnu í skjalinu í einu.

Nágrannarnir Grænland og Ísland

TEXTI: Haraldur Sigurðsson, prófessor í haffræði við Háskólann í Rhode Island

Grænland er næsti nágranni okkar Íslendinga en samt er furðu lítið samband á milli þessara þjóða. Sumir telja að jafnvel megi sjást til Grænlands frá Íslandi. Stysta vegalengdin milli landanna er aðeins um 280 km, og vel má vera að hægt sé að sjá land í vestri þegar staðið er á fjöllum í mynni Ísafjarðardjúps (Rytur, Deild, Göltur) og horft í átt til austurstrandar Grænlands.

Nálægasta austurströndin er Blossevilleströnd, fyrir norðan Kangerlussuaq. Þetta er mikið hálendi, en þar fyrir ofan er Gunnbjarnarfjall, sem er hæsta fjall Grænlands, hvorki meira né minna en 3.694 m á hæð. Til forna mun þetta fjallendi hafa verið nefnt Hvítserkur. Gnípurnar við Ísafjarðardjúp eru um 500 m á hæð, svo ef maður tyllir sér á tá þar í björtu veðri má vel vera að sjáist milli landanna yfir Grænlandssund.

Íslendingar voru ekki fyrstir manna til að uppgötva Grænland. Það gerðu Saqqaq-eskimóar fyrir um 4.600 árum, sem komu langt úr vestri, alla leið frá austustu héruðum Síberíu. En Íslendingar voru tvímælalaust fyrstu Evrópumenn á Grænlandi. Á land­náms­­öld hrakti víkinginn Gunnbjörn Úlfsson af leið vestan Íslands. Langt í vestri sá hann það sem hann taldi eyjar í fjarska, er hann nefndi Gunnbjarnarsker.

Telja má fyrir víst að hér hafi hann séð hæstu toppa austurstrandar Grænlands, en þar ber Gunnbjarnar­fjall hæst. Ekki hætti hann sér nær, en sneri aftur til Íslands. Næstur til siglingar í vesturátt var Snæbjörn galti, sennilega um 978. Hann sigldi úr Grímsárósi í þeim tilgangi að nema land í vestri. Þegar til Grænlands kom var Snæbjörn galti veginn. Sennilega varð sögnin um Gunnbjarnarsker til þess að bæði Snæbjörn galti og síðar Eiríkur rauði leituðu lands langt vestan Íslands um 982.

Þótt stutt sé á landakortinu milli Íslands og Grænlands virðist Grænland enn í dag vera alveg hinum megin á hnettinum í huga flestra Íslendinga. Samskipti þjóðanna eru undarlega lítil þótt Grænlendingar séu næstu nágrannar okkar. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að við ættum að fylgjast betur með þessum nágrönnum okkar.

Með vaxandi straumi ferðamanna til Íslands er Ísland hin eðlilega gátt fyrir ferðamenn að fara áfram til Grænlands eftir Íslandsdvöl. Hvergi á jörðu er jafn stórbrotið landslag og einstök náttúra sem á Grænlandi, óspillt, einangruð og villt. Hér á Grænlandi er að mínu áliti eitt mesta ónumda ferðamannaland tuttugustu og fyrstu aldarinnar.

Krossgötur margra kynþátta

Fyrstu mennirnir komu til Grænlands fyrir um 4.600 árum. Minjar um þessa menn hafa fundist hér og þar á strandlengju Grænlands. Mest eru þetta verkfæri eða tól úr steini og var þessum horfna kynþætti gefið nafnið Saqqaq, eftir þorpinu þar sem margar minjar hafa fundist. Vitnisburður um þá var af skornum skammti, þar til svartur hárlubbi fannst í ís hjá Qeqertasussuk á Vestur-Grænlandi árið 2008. Erfðagreiningar á hárinu sýna að eigandinn var af kynþætti sem kom alla leið frá austurhluta Síberíu og var af Chukchi-kynþættinum, sem enn býr þar á austasta hluta Síberíu.

Á eftir Saqqaq kom kynþáttur frá norðausturhluta Kanada sem nefnist Dorset-fólk. Það var ríkjandi á Grænlandi frá því um eitt þúsund árum fyrir Krists burð og fram til fyrstu ára Krists. Hvarfi Dorset-manna frá Grænlandi fylgdi nokkuð langt hlé, þegar landið virðist hafa verið mannlaust að mestu eða öllu. En á tíundu öld eftir Krist verður breyting á. Þá koma tveir kynþættir sitt úr hvorri áttinni og byrja að nema land á Grænlandi. Úr norðvestri koma Inúítar, hinir eiginlegu eskimóar, sem eiga uppruna sinn að rekja til Alaska. Þeir voru miklir veiðimenn, bæði á sel og hval.

Kajakar þeirra voru að vísu gagnslausir til veiða á stæri hvölum, en með því að beita umiaq, eða konubátum, var þeim kleift að skutla og veiða sléttbakinn. En athafnasvæði Inúíta var lengst af Alaska, þar til loftslag tók að hlýna á miðöldum. Um 900 eftir Krist hlýnaði verulega á norðurhveli jarðar og þetta hlýskeið náði hámarki um 1100. Á þeim tíma opnuðust leiðir um hafið til ferða Inúíta norðan Alaska þegar ísinn hopaði og opin sund mynduðust alla leið til Grænlands. Þá er talið að Inúítar hafi fylgt ísröndinni á umiaq og elt einkum sléttbaks­hvalinn austur á bóginn, þar til þeir námu land á norðvesturströnd Grænlands.

Á sama tíma koma norrænir menn til Grænlands úr gagnstæðri átt, er þeir fylgja Eiríki rauða frá Íslandi, eins og kunnugt er, og nema land í annarri ferð Eiríks í Suðvestur-Grænlandi um árið 985. Landnám Íslendinga á Grænlandi, eins og reyndar allir leiðangrar norrænna manna í vesturátt á þeim tíma, var kleift vegna hins milda loftslags sem ríkti á fyrri hluta miðalda. Loftslagsfræðingar nefna það hlýskeið miðalda, en það nær frá byrjun níundu aldar og fram undir þrettán hundruð. Þannig leituðu tveir mjög ólíkir þjóðflokkar nýrra landa, annar úr vestri (Inúítar) og hinn úr austri (Íslendingar).

Síðar kom að því að þeir rákust saman á vesturströnd Grænlands. Inúítar koma fyrst að Norðvestur-Grænlandi en færa sig smátt og smátt suður á bóginn. Norrænir menn hefja landnám sitt hins vegar í Eystribyggð á Suðvestur-Grænlandi en leita sér fanga síðar upp með vesturströnd Grænlands. Ekki er vitað hvað hinir norrænu menn fóru langt norður, en varða hlaðin á íslenskan máta hefur fundist á eyðiey skammt fyrir norðan Upernavik og hún segir merka sögu.

Hér á eynni Kingiktorssuaq, um 20 km fyrir norðan Upernavik á vesturströnd Grænlands, fannst forn rúnasteinn í vörðunni, á um 73. gráðu norður. Á rúnasteininn er þetta letrað: „Erlingur Sighvatsson, Bjarni Þórðarson og Indriði Oddsson hlóðu þessa vörðu laugar­daginn fyrir gangdaginn (25. apríl).“ Þegar dæmt er út frá stíl og gerð rúnanna er varðan talin hlaðin á þrettándu öld. Hér voru því kaþólskir menn af íslensku ætterni á ferð, um 100 kílómetrum fyrir norðan Vestribyggð. Ef til vill voru hér veiðimenn á ferð í hinni sögufrægu Norðursetu, þar sem norrænir menn á Grænlandi fóru til veiða á hverju sumri.

Í Grænlandsannál í Hauksbók segir: „Allir stórbændur á Grænlandi höfðu skip stór ok skútur bygðar til að senda í Norðursetu til að afla veiðiskap.“ Þar veiddu þeir rostung, náhval og ísbjörn.

Enn norðar, á Skrælingjaeyju nærri 79. breiddargráðu, hafa nýlega fundist forn­minjar sem einnig benda til áhrifa norrænna manna. Þar á meðal eru járnnaglar úr norrænum báti, bútur af stálbrynju, járnblað, ofið efni og viðarkol úr eik. Svipaðar minjar finnast í Inuit-byggð á Ruin-eyju, aldursgreindar frá um 1190 til 1260. Eru þetta leifar frá skipstapa norrænna manna í nyrstu svæðum Grænlands eða minjar sem Inúítar hafa flutt með sér seinna til norðursins?

Í Eystribyggð eru taldar hafa verið 12 sóknir og hafa leifar af 262 bæjum fundist þar. Íbúafjöldi kann að hafa verið um tvö þúsund í Eystribyggð, og sennilega um 500 í Vestri­byggð þegar flest var og allt að 50 hreppar. Þróun byggðar hinna norrænu landnema á Grænlandi er ekki vel þekkt saga, en hún nær yfir um 450 ár.

Í þessari sögu eru glæsilegir kaflar, einkum landkönnun norrænu Grænlendinganna lengra til vesturs, allt til Vínlands á meginlandi Norður-Ameríku. Fornminjar í Eystribyggð bera vott um töluverðan auð og mikil samskipti við meginland Evrópu um tíma.

Veg­legar byggingar úr steini voru reistar hér, sem eiga engan sinn líka á Íslandi. Steinkirkjan í Hvalsey stendur enn og er þögult minnismerki um glæsta fortíð. Hún minnir helst á kirkjubyggingar á Írlandi eða meginlandi Evrópu.

Að sumu leyti var steinn valinn sem byggingarefni vegna þess hvað timbur var fágætt á Grænlandi, en norrænir menn sóttu hins vegar timbur til Marklands, nú Labradorskaga. Vitneskja um það er þegar grænlenskt Marklandsskip hlaðið timbri barst af leið árið 1346 og hraktist til Íslands með 17 manna áhöfn.

Einn merkasti fundur fornminja á Grænlandi varð árið 1921, þegar furðu vel varðveittur fatnaður fannst í gröfum í sífrera á Herjólfsnesi í Eystribyggð. Vegna skorts á tréviði höfðu líkin verið vafin inn í fatnað áður en þau voru sett í gröfina. Fatnaður­inn hefur varðveist mjög vel og gefur miklar upplýsingar um tísku og viðskipti hinna norrænu Grænlendinga við Vestur-Evrópu. Kjólarnir eru mjög vandaðir og líkjast mjög þeim sem voru tískuvara á meginlandi Evrópu á miðri 13. öld og allt fram á 15. öld. Þessar einstöku leifar sýna tvennt: norrænir menn og konur á Grænlandi voru í góðu sambandi við meginland Evrópu og höfðu efni til að klæðast í tísku síns tíma.

Hvaðan komu slík efni? Margt bendir til að útflutningur á grávöru (skinnum af heimskautsdýrum, refum, ísbjörnum o.fl.) og útflutningur á rostungstönnum (fílabein norðursins) hafi verið undirstaðan. Ýmsar aðrar sérstakar vörur komu einnig frá Grænlandi, til dæmis svarðreipi, sem eru skorin úr húð rostungsins og voru sterkustu reipin sem fáanleg voru í Evrópu. Um tíma hefur því verið almenn velmegun í Eystri­byggð.

En það eru einkum endalok hinnar norrænu byggðar og hvarf þessa Evrópska kynstofns, sem menn staldra við og velta fyrir sér. Þetta má hiklaust telja mestu ráðgátu norðurslóða.

Ritaðar heimildir varðandi Grænland á miðöldum eru af skornum skammti, en einangrun fór vaxandi vegna þess að ekki var haldið við skipaflota heimamanna. Þá var verslun og samgöngur til Evrópu háð erlendum kaupmönnum og Grænlandsverslun. Eftir að Grænlandsverslunin var einokuð af Hákoni konungi Noregs árið 1261 fór að draga úr siglingum og á fjórtándu öld var aðeins eitt skip í förum til Evrópu: Grænlands­knörrinn. Loks ferst hann árið 1367 og er ekki endurnýjaður.

Verslun með einstakar vörur frá norðurslóðum var lengi undirstaða hagsældar norrænna manna á Grænlandi. Grávara, eða feldir af sjaldgæfum dýrum í norðri, fór að berast til Evrópu frá Rússlandi og það skemmdi markaðinn fyrir Grænlenska grávöru. Sömu sögu er að segja um rostungstennur, sem kallaðar voru fílabein norðursins.

Fílabein tók að berast til Evrópu úr suðri og þar með féll verð á rostungstönnum frá Grænlandi. Með breyttri verslun versnaði þannig og hvarf forsenda byggðar og lífernismáta norrænna manna á Grænlandi. Ofan á þetta bættist svo harðnandi veðurfar, er litla ísöldin gekk í garð á fimmtándu öldinni.

Árið 1342 er Vestribyggð talin komin í eyði. Norskur prestur, Ívar Bárðarson, dvelur á Grænlandi árin 1341 til 1364 og á þeim tíma er Vestribyggð greinilega komin í eyði. Enn var byggð í Eystribyggð þegar Björn Einarsson Jórsalafari hraktist til Grænlands, á leið sinni til Íslands árið 1385. Síðasta ritaða heimildin frá Grænlandi er vottorð um brúðkaup í Hvalseyjarkirkju hinn 16. september árið 1408, er Íslendingarnir Þorsteinn Ólafsson og Sigríður Björnsdóttir voru gefin saman á staðnum.

Um þetta vottar skriflega Brandur Halldórsson hinn ríki á Barði í Fljótum, sem var staddur í Hvalsey ásamt þremur öðrum íslenskum mönnum. Þessir Íslendingar voru staddir í Hvalsey þar sem skip þeirra hafði hrakið af leið árið 1406 og hér dvöldu þeir í fjögur ár áður en skipsferð barst heim til Íslands.

Jón „Grænlendingur“ kom til Grænlands á hollenskum hvalfangara árið 1540 og fann enga norræna menn. Skip hans barst af leið milli Hamborgar og Íslands. Sama er að segja um komu Martins Frobisher til Grænlands árið 1577 og enska landkönnuðarins John Davis árið 1585, þar sem þeir hitta aðeins fyrir Inúíta en enga norræna menn. Þegar Norðmaðurinn Hans Egede kemur til Grænlands árið 1721 finnur hann aðeins Inúíta en enga norræna menn.

Hvers vegna hverfa norrænir menn alveg sporlaust á Grænlandi á milli áranna 1408 og 1540, eftir að hafa lifað þar í fjögur hundruð og fimmtíu ár? Þetta er ein mesta ráðgáta miðaldanna og margar tilgátur hafa komið fram. Mest eru þetta ágiskanir og vanga­veltur en einkum ber að hafa tvö mikilvæg atriði eða staðreyndir í huga þegar fjallað er um hrun byggðar og hvarf norrænna manna á Grænlandi.

Hið fyrra er vitneskjan um hægfara breytingu á matarræði þeirra. Greining á samsætum eða ísótópum á frumefnunum köfnunarefni og kol í aldurgreindum mannabeinum úr gröfum á Grænlandi gefa upplýsingar um matarræði og einkum um hlutfallið á milli fæðu úr sjó (selur, hvalur, fiskar) og úr landi (sauðfé, nautgripir). Á elleftu öld er greinilegt að búpeningur var ein aðal fæðan, en smátt og smátt verður fæða úr sjó mikilvægari, þar til hún er algjörlega yfirgnæfandi í kringum 1400. Það liggur beinast við að álykta að stöðug hnignun hafi verið í landbúnaði, að sífellt hafi verið erfiðara að heyja fyrir búpening bænda og að lokum hafi landbúnaður liðið undir lok af þeim sökum.

Hitt atriðið er hnignun veðurfars á miðöldum, sem oftast er kallað litla ísöldin. Mikill fjöldi gagna sýnir að loftslag byrjaði að kólna verulega á norðurhveli jarðar um 1300. Mælingar á ískjörnum boruðum í Grænlandsjökli sýna vel þessa kólnun og nýlega hafa komið fram gögn frá jöklum hátt í fjöllum Suður-Ameríku, sem sýna einnig byrjun litlu ísaldarinnar um 1300. Hún er því ekki bundin við norðurhvel, heldur er hnattræn kólnun. Kólnun virðist hafa verið nokkuð hröð allt fram undir 1400, en litla ísöldin hefur staðið yfir allt þar til loka átjándu aldar eða jafnvel lengur.

Margar kenningar hafa komið fram til að skýra litlu ísöldina. Sumir halda því fram að hún hafi orsakast af miklum eldgosum en auðvelt er að sýna fram á að slík áhrif eru skammvinn og jafnvel stærstu eldgos valda kólnun sem er að mestu um þrjú ár, en varir ekki í margar aldir. Aðrir stinga upp á því að litla ísöldin hafi orsakast af minni virkni sólarinnar og benda á að sólblettir hafi verið töluvert færri á tímabilinu frá 1650 til um 1700. En litla ísöldin byrjaði tveimur öldum fyrir þennan tíma og varði lengur en þessi tími minni sólvirkni. Enda hefur ekki verið sýnt fram á að sólvirkni sé minni á tímum færri sólbletta.

Fyrir níu árum kom fram ný og mjög markverð kenning, sem kann að skýra litlu ísöldina. Það er Bandaríkjamaðurinn William Ruddiman sem setti fram þessa kenningu, en hún er á þá leið að litla ísöldin hafi orsakast af miklum samdrætti í landbúnaði á norðurhveli öllu, sem dregið úr losun gróðurhúsagastegundanna koltvíoxíði og metangasi. Flestir halda að gróðurhúsalofttegundir verði aðeins mikilvægar í andrúmslofti okkar við iðnbyltinguna í byrjun nítjándu aldar, en það er ekki svo.

Ískjarnar sýna að koltvíoxíð byrjar að vaxa sem gróðurhúsagas í andrúmslofti fyrir um átta þúsund árum vegna fyrstu akuryrkju fornmanna. Þá voru þeir farnir að brenna skóga og hreinsa skóglendi fyrir akra sína. Sömuleiðis sýna ískjarnar að metangas byrjar að vaxa í andrúmslofti fyrir um fjögur þúsund árum. Það gerist þegar kynþættir í Austurlöndum, einkum Kína, hefja hrísræktun í votlendi, en við það losnar mikið magn af metangasi út í andrúms­loftið. Þessar byltingar í landbúnaði mannkyns orska stöðugan vöxt gróðurhúsagastegunda í lofthjúpnum, eins og ískjarnar sýna.

Það hefur lengi verið vitað að miklar plágur herjuðu víða í Asíu og Evrópu á fjórtándu og fimmtándu öld, en þar á meðal er Svarti dauði þekktastur. Skömmu síðar geisa miklar plágur um alla Norður- og Suður-Ameríku, þegar Evrópubúar bera þangað sýkla sem okkur kunna að virðast fremur meinlausir en frumbyggjar Ameríku höfðu aldrei kynnst og höfðu enga vörn gegn. Rannsóknir síðari tíma sýna að dauðsföllin í Asíu, Evrópu og Ameríku voru gífurleg og miklu meiri en fyrr var áætlað.

Mælingar á koltvíoxíði og metangasi í ískjörnum bæði á suðurskautinu og Grænlandi sýna að það dregur mikið úr gróðurhúsagastegundum á fjórtándu og fimmtándu öld. Ruddiman bendir á plágurnar sem orsökina. Hans kenning er sú að mannfall vegna þeirra hafi gjöreytt landbúnaði. Við það hafi dregið mjög úr losun gróðurhúsategunda, skógar hafi vaxið upp aftur, sem drukku í sig koltvíoxíð og við það dró úr gróðurhúsaáhrifum og loftslag kólnaði: litla ísöldin gekk í garð.

Svarti dauði náði til Íslands árið 1402. Engar heimildir eru fyrir því að hann hafi náð til Grænlands. En samt sem áður eru nú töluverðar líkur á því, ef við fylgjum kenningu William Ruddiman, að Svarti dauði hafi beint og óbeint valdið endalokum norrænna manna á Grænlandi, ekki vegna sýkingar, heldur vegna þeirra loftslagsbreytinga sem við nefnum litlu ísöldina.

Auður Grænlands

Þegar ég var staddur í þorpinu Illulissat á Vestur-Grænlandi fyrir tveimur árum birtist þar skyndilega forseti Suður-Kóreu ásamt fríðu föruneyti. Hann kom til að hefja viðræður við grænlensku stjórnina um hugsanlegan námugröft Kóreumanna á Grænlandi. Slíkar heimsóknir eru til marks um hvað stórveldin víðs vegar um heim horfa nú til Grænlands sem eins auðugasta ríkis á jörðu hvað varðar málma og aðrar auðlindir. Samt sem áður er nú enginn námurekstur á Grænlandi.

Síðasta náman var Nalunaq-gullnáman í Kirkespirdalen, nálægt þorpinu Nanortalik í Suður-Grænlandi, skammt frá Hvarfi eða Kap Farvel. Angel Mining. Bergið inniheldur 11–16 grömm af gulli í hverju tonni af grjóti. Unnin voru um 10–15 kg af gulli á mánuði í námunni. En þrátt fyrir það hefur námunni verið lokað, því að rekstur hennar er óhagstæður. Það er oft viðkvæðið á Grænlandi, þar sem allur rekstur er mun dýrari en í öðrum löndum, vegna einangrunar, fjarlægðar, veðurs og erfiðra skilyrða. Um tíma voru kol grafin úr jörðu á Diskóeyju á Vestur-Grænlandi, en þeirri námu var lokað árið 1972. Í Ivigtut á Suður-Grænlandi var lengi eina kríólítnáma í heimi en henni var lokað árið 1987.

Gullið er aðeins einn af fjölda af málmum og steinefnum sem finnast í jarðskorp­unni á Grænlandi. Þessi mikli auður í jörðu er tengdur jarðsögu Grænlands. Í fyrsta lagi er landið ótrúlega gamalt, allt að þriggja milljarða og átta hundruð milljóna ára gamalt. Elsta bergið á Grænlandi er því með því allra elsta sem finnst á jörðu.

Vegna þessa háa aldurs er jarðsaga Grænlands mjög flókin og jarðskorpan hér hefur gengið í gegnum margar jarðbyltingar. Á þessari löngu leið hefur mikið magn af málmum og sjaldgæfum jarðefnum safnast saman í hinni fornu skorpu Grænlands. Það sem Suður-Kóreumenn hafa einkum áhuga á í Grænlandi eru málmarnir eða efnin sem nefnast “rare earth elements” eða sjaldgæfu efnin. Það er röð fimmtán sjaldgæfra frumefna, þar á meðal lanþanum, seríum, neodyníum, samaríum, europíum, gadolínium, ytterbíum, lutetíum og mörg fleiri, sem hafa einstök einkenni.

Sjaldgæfu efnin eru ómissandi í öllum tækniiðnaði, tölvum, snjallsímum og öðrum rafeindatækjum, sem eru í mikilli eftirspurn í heiminum í dag og 95% af þeim koma nú frá Kína. Undanfarið hafa Kínverjar stjórnað markaðinum á sjaldgæfu efnunum og verð þeirra hefur rokið upp úr öllu valdi. Nú leita aðrar þjóðir að námum þar sem hægt er að vinna sjaldgæfu efnin og er Grænland talið hafa ríkustu og bestu námuvinnslusvæðin á jörðu fyrir þau.

Kvanefjeld-náman í Suðvestur-Grænlandi er nærri þorpinu Narsaq. Hér tróðst kvika inn í jarðskorpu Grænlands fyrir 2.500 milljón árum og storknaði sem berg með óvenjulega efnasamsetningu. Þetta berginnskot nefnist Ilimaussaq-innskotið. Í þessu bergi er ótrúlegur auður af sjaldgæfu efnunum, auk þóríums og úrans. Auk þess er fjallið er allt geislavirkt og radon-gas streymir frá því. Danir hófu námugröft hér árið 1956, til að vinna úran. En síðar óx mótspyrna í Danmörku gegn kjarnorkuvopnum og kjarnorkuverum og var úranvinnslu því hætt árið 1984.

Nú er vaxandi áhugi á að endurvekja námugröft hér og vinna bæði sjaldgæfu efnin og úran úr námunni. Slíkur námugröftur á úrani brýtur gegn dönskum lögum en stjórn Grænlands hefur lýst sig óháða þessum skilmálum Dana og hyggst veita leyfi til námuvinnslu þrátt fyrir það. En málið er bæði viðkvæmt og flókið, þegar kemur að vinnslu á hernaðarlega mikilvægu efni eins og úrani. Hvað segja Bandaríkjamenn ef úran frá Grænlandi er einn daginn komið í kjarnorkuvopn í Íran?

Talið er að Kvanefjeld-námusvæðið innihaldi um 250 þúsund tonn af úrani, níu milljón tonn af sjaldgæfu efnunum og auk þess um tvær milljónir tonna af sínki. Hér er sennilega sjötta stærsta úrannáma jarðar. Greenland Minerals and Energy Ltd. hefur stýrt Kvanefjeld-námunni síðan 2007, en það er fyrst og fremst ástralskt félag.

Elsta bergið á Grænlandi er að finna í grennd við Isua, um 150 km fyrir norðaustan höfuðborgina Nuuk. Hér eru setlög og eldgosamyndanir sem eru um 3,8 milljarða ára gamlar. En hér er einnig risastór járnmyndun sem nefnist Isukasia og var upp­götvuð árið 1962. Þá var talið að hér væru 950 milljón tonn af málmríku bergi, með um 36% járn. Sumt af berginu er undir jökli en það er einfalt mál að grafa undan honum.

London Mining hyggst hefja járnnámurekstur í Isua sem fyrst og stefnir á framleiðslu sem nemur 15 milljón tonnum af málmi á ári. Þrátt fyrir nafnið mun London Mining fyrst og fremst vera kínverskt fyrirtæki. Stjórnendur þess vilja flytja inn eitt eða tvö þúsund kínverska námumenn til að vinna verkið en Grænlandsstjórn hefur ekki enn samþykkt þá ósk. Í undirbúningi er lögn á 105 km langri stálpípu frá námunni og niður að strönd, þar sem járnríka grjótinu verður dælt um borð í skip og það flutt til Kína til frekari vinnslu. Námufyrirtækið London Mining mun greiða Grænlandsstjórn stighækkandi vinnsluleyfi, sem hluta af hagnaði, sem nemur 1% fyrstu fimm árin, þá 3% fyrir 6. til 10. árin, síðan 4% fyrir 11. til 15. árin og loks 5% eftir sextánda árið.

Nýlega samþykkti grænlenska þingið að erlend fyrirtæki sem hefja verkefni metin á meir en einn milljarð dollara geti samið um vinnuafl við erlend verkalýðsfélög. Þetta gerir London Mining og öðrum stórum verktökum kleift að flytja inn erlenda starfsmenn. Nú er talið að London Mining muni flytja inn allt að eitt þúsund kínverska námumenn til að grafa upp járnfjallið í Isua.

Árið 2005 fannst bergtegundin kimberít á Vestur-Grænlandi í grennd við Sarfartoq og þar með kviknaði sá möguleiki að hér fyndust einnig demantar. Bergið er um 500 til 600 milljón ára gamalt og það myndar bergganga. Kimberlít verður til þegar berg­kvika kemur upp úr möttli jarðar af mjög miklu dýpi (um 200 km) og ber með sér steindir sem hafa myndast í möttlinum, þar á meðal demanta.

Þá hófst leitin fyrir alvöru og síðan hafa demantar fundist víða á þessu svæði, sem er skammt fyrir sunnan millilandaflugvöllinn í Kangerlussuaq. Hingað til hafa aðeins smáir demantar fundist en leitin er rétt hafin og góðar vonir eru um að Grænland verði mikilvægur útflytjandi demanta í framtíðinni. En fleiri eðalsteina er að finna hér. Þar á meðal er rúbín, en þessi fagri rauði gimsteinn, ásamt rauðum safír, finnst nokkuð víða í bergi á Suðvestur-Grænlandi, einkum í grennd við Fiskenæsset. Námufyrirtækið True North Gems er nú að undirbúa námugröft á rúbínkristöllum í grennd við Aappaluttoq á Vestur-Grænlandi.

Margir héldu að olía væri ein auðlindin í viðbót á Grænlandi en sú spá hefur ekki enn reynst rétt. Leitað hefur verið að olíu á hafsbotni umhverfis Grænland í nokkur ár. Eitt olíufélag hefur sýnt þessu mikinn áhuga, en það er Cairn Energy frá Aberdeen í Skotlandi.

Cairn var byggt upp í sambandi við vinnslu á olíu og gasi úr Norðursjó og síðan auðgaðist félagið mikið á gas- og olíuborun á Indlandi. Cairn valdi sér 11 þúsund ferkílómetra svæði undan vesturströnd Grænlands, nærri Diskóeyju, og þar boraði það margar holur allt niður á 1.500 metra dýpi undir hafsbotninum árin 2011 til 2013. Borun á þessu svæði er háð mikilli áhættu vegna borgaríss og veðurs, en borpallurinn Leifur Eiríksson var notaður við borunina. Borun var hætt árið 2013, þegar Cairn hafði eytt 1,2 milljörðum Bandaríkjadala í verkefnið, án árangurs. Olíuleitin til þessa hefur náð yfir aðeins takmarkað svæði en mikil óvissa ríkir um framhaldið.

Aðstæður umhverfis Grænland eru sennilega þær verstu sem þekkjast í olíuiðnaðinum, vegna veðurfars og borgaríss. Einnig er hugsanlegt að jarðlög á svæðinu séu ekki hagstæð fyrir olíumyndun. Setlög á stóru svæði á bæði Austur- og Vestur-Grænlandi hafa ef til vill hitnað vegna nándar við heita reitinn sem gekk undir Grænland frá vestri til austurs fyrir um 50 til 60 milljón árum.

Þessi heiti reitur er sá sami og nú situr undir Íslandi, en hann kann að hafa hitað upp setlög að því marki að olía brotnar niður og myndar gas og vatn. Ef til vill er Grænland því dottið út úr olíuglugganum vegna hærri hitastiguls. Það sama má sennilega segja um Drekasvæðið í grennd við Ísland.

Á hverju ári verða nýjar uppgötvanir á Grænlandi varðandi auð í jörðu. Nýjasta dæmið er í grennd við Maniitsoq á Vestur-Grænlandi. Þar hefur nýlega fundist risastór en forn loftsteinsgígur og eru mikil auðæfi af málmunum kopari, nikkeli og kóbalti í jörðu undir þeim gíg. Námufyrirtækið North American Nickel gerir nú boranir til að kanna magn af málmum undir gígnum.

Þessi forni gígur er um þriggja milljarða ára gamall og um 200 km í þvermál. Árekstur loftsteinsins hefur hrært vel upp í jarð­skorpunni, orsakað mikla bráðnun bergsins og jafnvel möttulsins undir jarðskorpunni og valdið því að viss frumefni, einkum málmar, safnast saman í hringlaga belti undir gígnum.

Auður í jörðu víðs vegar á Grænlandi er vissulega mikið gleðiefni fyrir þjóðina en skapar einnig mörg vandamál. Námuvinnsla er ekki vistvæn og veldur nær undantekningalaust miklum spjöllum á umhverfi og náttúru. Margar þróaðar þjóðir vilja ekki leyfa sóðalegan námurekstur í sínu heimalandi og eru alþjóðafyrirtæki því sífellt að leita á fjarlægar slóðir þar sem þau geta rótað í jörðinni eftir vild.

Námuvinnslu á úrani fylgir til dæmis mikil losun á radon-gasi, sem berst út í andrúmsloftið og lífríkið. Önnur spurning sem blasir við Grænlendingum er hvaða hlutverk almenningur mun hafa eða getur haft ef til stórtæks námureksturs kemur. Til dæmis er ljóst að London Mining vill flytja inn æfða námumenn frá Kína frekar en að þjálfa Grænlendinga til starfa. Sumir óttast að hlutverk heimamanna í námuiðnaðinum verði því í láglaunastörfum. Stórar pólitískar ákvarðanir eru því fram undan varðandi námurekstur og snerta þær beint alla framtíð grænlensku þjóðarinnar. En hvað sem öðru líður skortir enn inn­viði til stórfellds námureksturs á Grænlandi, vetur eru harðir, kuldinn mikill og samgöngur erfiðar. Allir þessir þættir munu seinka framkvæmdum og gera námugröft mun dýrari en í flestum öðrum löndum heims.

Frá Síberíu, undir Grænland, til Bárðarbungu: Saga Íslenska heita reitsins

Eldgosið í Holuhrauni og hreyfingar í Bárðarbungu minna okkur enn einu sinni á að við búum á mjög virku eldfjallalandi. Fyrir jarðvísindamenn hafa þessir atburðir nokkuð sérstaka þýðingu, vegna þess að Bárðarbunga situr einmitt í miðjunni á risa­stóru fyrirbæri í möttlinum undir Íslandi, sem er um 200 km í þvermál og kallað er heiti reiturinn. Hér undir er hitastigið talið vera allt að 1.600 °C, um tvö hundruð stigum hærra en í möttlinum umhverfis. Hér vellur upp heit kvika úr iðrum jarðar og heldur áfram að bæta við nýju efni í jarðskorpuna.

Við lítum nú í dag á heita reitinn undir landi okkar sem íslenskan, en hann á sér langa og furðulega sögu og er alls ekki íslenskur að uppruna, heldur kemur hann frá Síberíu. Það hefur lengi verið vitað að mestu eldgos á jörðu urðu í norðurhluta Síberíu fyrir um 250 milljón árum. Þá myndaðist risastór hraunbreiða af basalti, sem er blágrýtismyndun, alveg eins og blágrýtismyndanirnar sem mynda til dæmis Vestfirði og allt Austurland.

Þetta var uppruni eða fæðing heita reitsins, sem á rætur sínar að rekja allt niður að mörkum kjarna jarðar og möttulsins, niður á um 2.900 km dýpi. En Síbería er hluti af Asíuflekanum, og hann er á hreyfingu á yfirborði jarðar, eins og reyndar allir flekarnir sem mynda jarðskorpuna. Hins vegar er heiti reiturinn fastur eins og akkeri djúpt í möttli jarðar og hreyfist ekki. Með tímanum mjakaðist Síbería til suðausturs og á sama tíma fluttist fleki Norður-Ameríku til norðurs, ásamt Grænlandi.

Þannig barst Grænland yfir heita reitinn, fyrst rak vesturströnd Grænlands yfir heita reitinn fyrir um 60 milljón árum og síðan var austurhluti Grænlands kominn yfir heita reitinn fyrir um 50 milljón árum. En Grænland hélt áfram að reka til vesturs, ásamt restinni af Norður-Ameríkuflekanum. Afleiðing af því var að heiti reiturinn kom fram austan Grænlands og klauf Grænland frá Skandinavíu og Bretlandseyjum.

Við það byrjaði norðurhluti Atlantshafsins, eða Noregshaf, að opnast og þar kemur Ísland fyrst fram fyrir um 16 til 20 milljón árum. Tilvera lands okkar er því aðeins eins og eitt augnablik í 250 milljón ára sögu heita reitsins, sem enn kraumar í möttlinum undir fótum okkar og sendir frá sér glóandi heita hraunkviku. Hver er framtíð þessa heita reits? Hann er elsti heiti reiturinn sem er þekktur á jörðinni, um 250 milljón ára gamall. Heiti reiturinn undir Hawaii er til samanburðar um 85 milljón ára gamall.

Blágrýtismyndanir sem myndast hafa við eldgos af kviku sem berst upp úr heita reitnum má finna á Grænlandi, einkum á Diskóeyju á vesturhluta landsins og í Scoresby­sundi í austri. Blágrýtismyndunin er mikill stafli af nær láréttum basalt­hraunlögum. Oft eru fagrar og tilkomumiklar stuðlabergsmyndanir í þeim, til dæmis í Vikingbukten á suðurströnd Scoresbysunds, eins og myndin sýnir.

Lofslagsbreytingar á norðurslóðum

Hnattræn hlýnun er staðreynd, og mikill meirihluti vísindamanna er sannfærður um að hlýnun sé af manna völdum. Svo virðist sem áhrifa hlýnunar gæti mun meira á Grænlandssvæðinu en annars staðar á jörðu. Sumir segja að Grænland sé eins og kanarí­fuglinn í kolanámunni: kanarífuglinn deyr í búri sínu vegna ólofts í námunni, sem aðvörun til námumannanna að forða sér upp á yfirborðið.

Mest áberandi af áhrifum loftslagsbreytinga er samdráttur hafísbreiðunnar um­hverfis Grænland. Þetta eru breytingar sem þegar hafa valdið veiðimönnum á Grænlandi miklum vanda: hafísinn er orðinn veikur, ótryggur og hættulegur. Í haust var hafísbreiðan á norðurskauti jarðar um fimm milljón ferkílómetrar, en hún minnkar um 14 prósent á hverjum áratug. Þetta ár er flatarmál hafísbreiðunnar hið sjötta minnsta síðan mælingar hófust árið 1979.

Auk þess að hafísbeiðan minnkar ár frá ári þynnist hún einnig. Árið 1980 var hafísinn að meðaltali um 3,8 metrar en er nú um 1,9 metrar á þykkt. Þunnur eins árs ís kemur nú í staðinn fyrir gamla þykka ísinn, sem hafði myndast á mörgum árum. Gamli hafísinn varðveitist nú aðeins í mjórri ræmu meðfram norðurströnd Grænlands. Veiðimenn Inúíta treysta ekki unga ísnum, enda gengur hann stundum í bylgjum þegar farið er um hann og þegar vindar blása.

Það hefur bein áhrif á loftslag þegar hafísinn hopar. Venjulega endurkastar hið hvíta yfirborð hafíss um 85% af sólarljósi aftur út í geiminn en um leið og hafís fer af sjónum fer meiri hluti af þessari hitaorku í hafið og hjálpar til að hita upp loftslag jarðar, sem bræðir meiri hafís. Þannig er óstöðvandi keðjuvirkun ef til vill komin af stað, sem kann að valda gjöreyðingu alls hafíss á norðurslóðum næstu tuttugu árin. Áhrifanna gætir til dæmis þegar í Grænlandshafi, austan Grænlands, þar sem meðalhiti sjávar hefur hækkað um 0,3 gráður síðasta áratuginn.

Meginlandsísinn, hinn stóri ísskjöldur sem þekur meirihluta Grænlands, minnkar einnig hratt. Þegar við sigldum um Scoresbysund sáum við marga skriðjökla sem ekki náðu lengur fram í sjó. Þeir eru hættir að gefa frá sér borgarís og tungur þeirra eru að breytast í rústir af ís, eðju og grjóti á ströndinni og eru sífellt að hopa. Fygst er vel með heildarmagni jökulsins með gervihnöttum, sem mæla rýrnun jökulsins ár frá ári. Tölurnar eru alveg ótrúlegar, en á hverju ári bráðnar Grænlands­jökull sem nemur 367 milljörðum tonna og bráðnunin herðir á sér milli ára.

Þegar rætt er um bráðnun jökla kemur oftast upp umræðan um áhrif þess á hafið og hækkun á yfirborði sjávar. Ef allur Grænlandsjökull bráðnar hækkar í heimshöfunum að meðaltali sem nemur sjö metrum. En áhrif á sjávarborð eru alls ekki jöfn á jörðinni og reyndar allt önnur en flestir halda. Íshellan sem liggur yfir Grænlandi er um þrír kílómetrar á þykkt.

Ísinn hagar sér eins og bergmyndun og veldur áhrifum á þyngdarkraft jarðar. Þessi mikli massi af ís togar í sitt næsta nágrenni, þannig að nú er sjávarstaða um­hverfis Grænland og í meira en þúsund kílómetra fjarlægð hærri en ef svæðið væri íslaust. Ef jökullinn bráðnaði mundi slaka á þessum kröftun aðdráttar­aflsins og sjávarborð lækka í meira en þúsund kílómetra fjarlægð frá Grænlandi, þar á meðal á Íslandi og allt til Bretlandseyja. Hins vegar mundi sjávarborð hækka mikið á svæðum umhverfis miðbaug og í heittempraða beltinu. Sömu sögu er að segja um áhrif jökulsins á suðurskautinu á breytingar á sjávarborði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert