Norðurslóðir í nýrri heimsmynd

Þar sem ís­inn rym­ur er sér­blað sem fylgdi Morg­un­blaðinu föstudaginn 31. októ­ber. Þar segja Ragn­ar Ax­els­son (RAX) og fleiri frá ferð sinni um Græn­land í máli og mynd­um.

Hér fjalla Ólafur Ragnar Grímsson annars vegar og Michel Rocard og Laurent Mayet, sendiherra og aðstoðarsendiherra Frakklands á heimskautasvæðu hins vegar um nýjar áskoranir á norðurslóðum.

Myndirnar sem RAX tók eru í myndasyrpu sem fylgir fréttinni. Þar að auki má hér sjá stutt viðtöl og myndbrot úr ferð þeirra.

Hægt er að nálgast blaðið í pdf-útgáfu neðst í þessari grein. Til að sjá myndirnar á sem bestan hátt er mælt með að skoða heila opnu í skjalinu í einu.

Norðurslóðir í nýrri heimsmynd 

TEXTI: Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands

Íslendingar hafa löngum lýst legu landsins og aðstæðum þjóðarinnar á þann veg að við búum á endimörkum hins byggilega heims. Þessi sýn hafði rík áhrif á hugarfar, sjálfsmynd og framtíðarsýn.

Norðurslóðir voru reyndar um aldir fjarlægar og framandi öllum nema frumbyggjunum sem gert höfðu veröld íss og snævar að heimahögum, vettvangi litríkrar menningar og harðrar lífsbaráttu.

Nú hafa hins vegar orðið þáttaskil. Athygli heimsins beinist í vaxandi mæli að þessu nágrenni okkar. Öll helstu forysturíki í efnahagslífi veraldar láta nú til sín taka í málefnum Norðurslóða; efla rannsóknir og þátttöku í stefnumótun; gaumgæfa auðlindir, nýjar siglingaleiðir og váboða um hraðar loftslagsbreytingar sem eru áminning um nauðsyn þess að þjóðir heims taki höndum saman.

Þessi áhugi á Norðurslóðum birtist skýrt í mikilli þátttöku í alþjóðaþingi Arctic Circle – Hringborðs Norðurslóða sem hefst í Hörpu um mánaðamótin. Auk áhrifafólks frá Bandaríkjunum, Kanada, Rússlandi og Norðurlöndum sækja þingið vísindamenn, sérfræðingar, ráðamenn, umhverfissinnar og stjórnendur fyrirtækja frá forysturíkjum í Evrópu og Asíu.

Ísland er orðið vettvangur víðtæks alþjóðlegs samstarfs um framtíð Norðurslóða og á næstu árum mun Harpa sérhvert haust vera torg þessara lýðræðislegu samræðna: öflugur alþjóðavettvangur Norðurslóða.

Nágrönnum okkar og vinum í Færeyjum og á Grænlandi hefur verið boðin þátttaka í þessum nýja vettvangi og þannig getur hann einnig styrkt böndin sem lengi hafa reynst okkur vel; tengt saman enn frekar þjóðirnar þrjár sem, þótt smáar séu, eru nú í hringiðu breytinga á veraldarvísu.

Sú reynsla sem mótað hefur menningu og lífssýn þessara þriggja nágranna í norðri getur líka orðið öðrum að gagni. Því er áríðandi að kynna náttúru, menningu og mannlíf á Norðurslóðum; skýra jafnframt hvernig bráðnun íss og jökla breytir loftslagi í fjarlægum álfum.

Norðrið, sem áður var í flestra augum farartálmi, færir Íslendingum nú nýja ábyrgð og fjölda heillandi tækifæra.

Mikil áskorun

TEXTI: Michel Rocard og  Laurent Mayet, sendiherra og aðstoðarsendiherra Frakklands á heimskautasvæðu

Mikil áskorun felst í nýjum tækifærum á norðurslóðum og efla þarf stjórnun á svæðinu. Sú stjórnun hefur fyrst og fremst hvílt á herðum norðurslóðaþjóðanna átta, Arctic Eight, í krafti metnaðar þeirra og hagsmuna, en þjóðir sem ekki eiga beinna hagsmuna að gæta hafa einnig komið að málum. Sem aðilar að Alþjóða siglingamálastofnuninni og hugsanlegir hagsmunaaðilar á norðurslóðum í framtíðinni eru síðarnefndu þjóðirnar reiðubúnar að miðla málum milli sérhagsmuna og alþjóðahagsmuna við fyrirkomulag framtíðarstjórnunar á norðurslóðum.

Ólafur Ragnar við setningu Arctic Circle ráðstefnunnar.
Ólafur Ragnar við setningu Arctic Circle ráðstefnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina