Enginn gagnagrunnur um mótmælendur

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins (t.v.).
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins (t.v.). Eggert Jóhannesson

Lögreglan heldur ekki gagnagrunn um mótmælendur eða stjórnmálaskoðanir fólks. Ríkislögreglustjóri þarf að taka afstöðu til þess hvort upplýsingum um nafngreinda einstaklinga verði eytt úr gögnum lögreglunnar. Þetta sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun.

Yfirmenn lögreglunnar sátu fyrir svörum vegna samantektar sem Geir Jón Þórisson vann um skipulögð mótmæli á árunum 2008-2011. Þeir voru meðal annars spurðir að því hvort ekki væri ástæði til þess að eyða óheppilegum upplýsingum á borð við stjórnmálaskoðanir og fjölskyldutengsl nafngreindra einstaklinga úr gagnagrunni lögreglu.

Sigríður Björk sagði að það væri ekki í hennar valdi að ákveða það. Ríkislögreglustjóri í samráði við Persónuvernd yrði að taka afstöðu til þess. 

Hún var einnig spurð að því hvort að teknar hafi verið saman ljósmyndar og myndbandsupptökur frá mótmælunum eins og hvatt var til í samantektinni. Hún vissi hins vegar ekki til þess að því hafi verið fylgt eftir á nokkurn hátt. Lögreglan héldi ekki gagnagrunn um mótmælendur eða stjórnmálaskoðanir fólks. Hins vegar væri alltaf skráð hverjir boðuðu til mótmæla, hversu margir mættu til þeirra og saknæm atvik skráð ef einhver væru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert