Sátu fyrir skokkaranum á göngustíg

Hjóla- og göngustígur við Rauðavatn.
Hjóla- og göngustígur við Rauðavatn. mbl.is/Júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar að þremur karlmönnum sem eru grunaðir um að hafa ráðist á 19 ára gamla stúlku sem var að skokka við Rauðavatn í Reykjavík í gærmorgun. Mennirnir, sem stúlkan þekkir ekki, sátu fyrir henni við göngustíg.

Eins og greint var frá í gær átti árásin sér um kl. 7:30. Að sögn Kristjáns Inga Kristjánssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hefur stúlkan kært árásina til lögreglu og er búið að taka af henni skýrslu.

Hann segir að eftir árásina hafi stúlkan leitað til vinkonu sinnar sem hafði í framhaldinu samband við lögreglu. Hún var síðar flutt á sjúkrahús til aðhlynningar en hún hlaut ekki alvarlega áverka.

Svo virðist sem styggð hafi komið að mönnunum eftir fyrirsátina en þeir létu sig hverfa af vettvangi. Engu var rænt. Ekki liggur fyrir á hvaða aldri mennirnir voru eða hvort þeir voru undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Svo virðist sem árásin hafi verið algjörlega tilefnislaus.

Enginn hefur verið handtekinn og er málið í rannsókn og á viðkvæmu stigi að sögn Kristjáns. Hann biður hins vegar þá sem kunna að búa yfir upplýsingum að hafa samband í síma 444-1000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert