Tuttugu sviptir skotvopnaleyfi í fyrra

Skotvopn, sem lögreglan lagði hald á í tengslum fyrir fáeinum …
Skotvopn, sem lögreglan lagði hald á í tengslum fyrir fáeinum árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er sjálfgefið að þeir sem dæmdir eru fyrir ofbeldisbrot missi skotvopnaleyfi sitt. Ein aðalástæða þess að menn eru sviptir skotvopnaleyfi er hins vegar sú að leyfishafar eru margsinnis skráðir í málaskrá lögreglunnar.

Þetta kemur fram í svari embættis ríkislögreglustjóra við fyrirspurn mbl.is sem send var í tengslum við umræðu um vopnabúnað lögreglu og það að mögulega fái lögregluembætti landsins léttar MP5-vélbyssur til afnota.

Í fyrra voru tuttugu einstaklingar sviptir skotvopnaleyfi sínu og árið 2012 voru þeir 21. Árin 2008 til 2011 voru 38 einstaklingar sviptir skotvopnaleyfi. Skráð skotvopnaleyfi eru hins vegar á milli þrjátíu og fjörutíu þúsund.

Hægt að afturkalla leyfi án fyrirvara

Samkvæmt 34. gr. vopnalaga getur leyfisveitandi afturkallað leyfi hvenær sem er ef ekki teljast lengur vera fyrir hendi nauðsynleg skilyrði fyrir leyfinu, leyfishafi hefur ekki farið eftir settum fyrirmælum eða ætla má að leyfishafi muni fara óforsvaranlega með efni og tæki sem leyfið tekur til.

Þegar um er að ræða leyfi skv. 12. gr. eða 27. gr. laganna skal lögreglustjóri í því umdæmi þar sem leyfishafi á lögheimili taka ákvörðun um leyfissviptingu án tillits til þess hvar leyfið er upphaflega gefið út.

Lögreglustjóra er einnig heimilt að afturkalla leyfi til bráðabirgða án fyrirvara ef brýna nauðsyn ber til.

Frétt mbl.is: Sextán vélbyssur í eigu einstaklinga

Frétt mbl.is: Fimm eiga meira en 100 skotvopn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert