Sigmundur fór spenntur að sofa

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á blaðamannafundinum í dag.
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Kristinn

„Ég skal viðurkenna það að ég hlakkaði til þegar ég fór að sofa í gærkvöldi og vaknaði kátur í morgun. Þetta er mikill gleðidagur,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í samtali við mbl.is í Hörpu í dag eftir að kynning á niðurstöðum leiðréttingarnar fór fram.

„Þetta er búið að eiga sér langa meðgöngu. Það er hægt að rekja þetta til upphaf árs 2009 þegar talað var um mikilvægi þess að leiðrétta lánin en við aðrar aðstæður. En á árunum 2010 og 2011 fór maður að óttast að tækifærinu til þess að aðstoða heimilin hafi verið sóað. En það fannst leið og þá kviknaði von,“ segir Sigmundur.

Hann segir jafnframt að  í framhaldinu hafi komið upp ýmsar hindranir sem alltaf náðist þó að vinna úr.

„Maður vissi að þetta yrði flókið og það var það. Það þurfti að leysa mörg ólík mál en með aðstoð hreint frábærs fólks tókst að komast yfir allar þessar hindranir og koma þessu í höfn sem er gleðiefni.“

Aðspurður hvort hann sé sannfærður um að leiðréttingin muni virka vel fyrir heimilin í landinu segir Sigmundur svo vera. „Eins og við sáum í dag þá virkar þetta eins vel og kostur er og  leiðréttingin mun hafa áhrif áratugi fram í tímann. Eftir jafnvel 30 ár munu þúsundir íslenskra heimila vera í betri stöðu vegna leiðréttingarinnar og með minni greiðslubyrði og aukinn kaupmátt.“

Sigmundur segist vera ánægður með hversu margir sóttu um leiðréttingu. „Það var ánægjulegt að sjá hversu góð þátttakan var. Það var reynt að tala þetta niður á ákveðnum tímapunkti en fólk ákvað að láta það ekki stoppa sig, tók þátt og það hefur skilað sér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert