Ábyrgð Hönnu Birnu vegi þungt

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er gott að þessir hlutir séu á einhvern hátt farnir að skýrast, en það breytir því ekki að athugun umboðsmanns Alþingis er ekki lokið. Hún snertir aðra þætti þessa máls, eða rannsóknina og hvernig hún fór fram. Það eru því ekki öll kurl komin til grafar enn,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.

Gísli Freyr Val­dórs­son, fyrr­ver­andi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjáns­dótt­ur inn­an­rík­is­ráðherra, játaði í dag að hafa af­hent skjal úr ráðuneyt­inu varðandi hæl­is­leit­anda til fjöl­miðla í nóv­em­ber 2013. Kom þetta fram í yfirlýsingu frá innanríkisráðherra.

Spurð hvort játning Gísla Freys komi til með að veikja stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra í embætti svarar Katrín að ráðherra beri „auðvitað pólitíska ábyrgð á sínum aðstoðarmanni, sem vegur þungt.“

Í yfirlýsingu innanríkisráðherra kemur m.a. fram að játning Gísla Freys komi ráðherra „algerlega í opna skjöldu.“

Spurð hvort ráðherra geti borið pólitíska ábyrgð á aðstoðarmanni sínum vegna brota sem ráðherra hafi ekki verið kunnugt um svarar Katrín: „Það er einmitt spurningin. En við getum hins vegar sagt að ábyrgðin sé þyngri gagnvart pólitískum aðstoðarmönnum en öðrum því þeir eru nánustu samstarfsmenn ráðherra.“

Katrín hefur lengi verið þeirrar skoðunar að Hanna Birna eigi að víkja úr embætti innanríkisráðherra, en eins og staðan er nú þá telur hún mikilvægt að umboðsmaður Alþingis ljúki vinnu sinni áður svo hægt sé að fá fram heildarmyndina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert