„Gatan verður hálftannlaus við þetta“

Tré söguð niður við Laugaveg. Kaupmenn eru ekki sáttir.
Tré söguð niður við Laugaveg. Kaupmenn eru ekki sáttir. mbl.is/RAX

„Menn eru mjög óánægðir með þetta,“ segir úrsmiðurinn Frank Michelsen. Í morgun voru tré felld við Laugaveg og segir Frank það hafa mætt mikilli andstöðu kaupmanna við götuna.

„Við erum óánægðir með að það sé verið að fella tré yfir höfuð, en sérstaklega á afgreiðslutíma verslana.“ Frank segir að borgin hafi lofað að trén yrðu ekki felld fyrir jól, en nú þegar hafa mörg tré mætt örlögum sínum við Laugaveg.

„Við viljum halda þessum jólasvip götunnar,“ segir Frank. „Þetta var kynnt í haust og við mótmæltum þá en það var ekkert hlustað. Gatan verður snautleg þegar trén fara. Þau hefðu alveg mátt vera fram yfir áramótin.“

Hann segir Reykjavíkurborg hafa gefið þær skýringar að trén væru veik. „Þeir hafa ýmsar ástæður. Við getum svo sem alveg hlustað á það, en hvers vegna má ekki bíða þangað til eftir jól? Gatan verður hálftannlaus við þetta,“ segir Frank. „Okkur finnst þetta sorglegt því okkur þykir vænt um trén.“

Sum trjánna hafa staðið við Laugaveg frá því honum var breytt fyrir um fjörutíu árum. „Þetta voru mjög há tré. Þau eru kannski ekki þau hentugustu og til stendur að setja önnur í staðinn þegar Laugaveginum verður breytt. Það er hins vegar í hönnun þannig að það verður ekki fyrr en eftir einhver ár.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert