Heldur jólin á suðurpólnum

Einar Torfi Finnsson fjallaleiðsögumaður er að fara með þriggja manna …
Einar Torfi Finnsson fjallaleiðsögumaður er að fara með þriggja manna hóp á suðurpólinn. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Einar Torfi Finnsson fjallaleiðsögumaður mun ekki eyða jólunum á hefðbundinn hátt heldur verður hann í gönguskíðaferð á suðurpólnum.

Hinn 15. nóvember leggur Einar Torfi að stað í ferðalagið er hann flýgur til Punta Arena í Síle ásamt þremur öðrum. 21. nóvember er síðan stefnt á að fljúga á Suðurskautslandið þar sem skíðaferðin hefst. Einar Torfi verður leiðsögumaður í ferðinni en um samstarfsverkefni Íslenskra fjallaleiðsögumanna og Adventure Consultants er að ræða.

Að sögn Einars Torfa hafa Íslenskir fjallaleiðsögumenn unnið mikið með Adventure Consultants í gegnum tíðina, einkum á Grænlandi, en fyrirtækið skipuleggur einnig marga af þeim leiðöngrum sem farnir eru á hæsta fjall heims, Everest.

Með Einari Torfa í för verða Breti, Ástrali og Kanadamaður. Allir þrír eru vanir skíða- og fjallaferðum og hafa tveir þeirra ferðast töluvert um hálendi Íslands og annar þeirra hefur farið yfir Grænlandsjökul með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum.

Einar er einn stofnenda Íslenskra fjallaleiðsögumanna og hefur verið leiðsögumaður í fjölmörgum ferðum um hálendið og Grænland. Meðal annars hefur hann farið nokkrar ferðir á gönguskíðum með hópa yfir Sprengisand og yfir Vatnajökul. Eins hefur hann farið þrisvar yfir Grænlandsjökul, nokkrar um austurhluta Grænlands auk fleiri ferða á Grænlandi með ferðamenn.

Með 70 kg í eftirdragi í stöðugum mótvindi

Í ferðinni á pólinn nú ferðast þeir félagar á gönguskíðum og draga búnaðinn á sleða, svokallaðri púlku. Þeir fá vistir þrisvar í ferðinni sem Einar segir að  auðveldi mjög upphaf ferðarinnar þar sem að í stað þess að draga á annað hundrað kíló á eftir sér er þyngdin um 70 kíló. Miðað við veður á þessum slóðum á þessum árstíma geta þeir gert ráð fyrir að í upphafi sé um 15 gráða frost en þegar nær dregur sjálfum pólnum verði frostið 30-40 gráður og stöðugur sunnanvindur í fangið. Eins eru tugir kílómetra af leiðinni nánast stöðugir rifskaflar sem eru mjög erfiðir yfirferðar og erfitt að draga púlkuna þar yfir.

Fyrsta pilsið

Einar og félagar geta átt von á því að kælingin verði mikil enda bætist vindkælingin ofan á frostið sem verður oftast á bilinu 20-30 stig á celsíus. Því er mikil hætta á kali og nauðsynlegt að búa sig vel.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég eignast pils,“ segir Einar en hann verður klæddur í pils með svokallaðri primaloft-fyllingu, sem er gerviefni sem samanstendur af fjölmörgum örþráðum sem halda hita að líkamanum. „Þegar það byrjar að kólna skellir maður sér í pilsið utan yfir gallann til þess að hlífa lærunum við kali,“ segir Einar.

Áætlað er að ferðalagið á ísnum taki um fimmtíu daga en heildarvegalengdin er um 1100 km og hækkunin er um 2.800 metrar en ferðinni lýkur í bandarískri rannsóknarstöð, Amundsen-Scott-stöðinni á suðurpólnum.

Undirbúningur fyrir ferðalagið hefur staðið yfir í töluverðan tíma enda að ýmsu að hyggja. Til að mynda þarf búnaðurinn að þola mikið frost og vind. Einar segir að það sé hins vegar að sumu leyti auðveldara að ferðast þarna en til að mynda á hálendi Íslands þar sem rakinn er miklu meiri hér. Einar segir að það séu einkum tjöldin sem þarf að passa vel upp á og vanda sig við að tjalda því þau eru viðkvæmari en annar búnaður.

Fjarveran frá fjölskyldunni erfiðust

Varðandi undirbúning fyrir ferðina segist Einar hafa leitað í reynslubrunn Leifs Arnar Svavarssonar frænda síns og vinnufélaga en hann hefur meðal annars farið í ferðir á bæði norður- og suðurpólinn. Eins hefur Vilborg Arna Gissurardóttir komið með góð ráð fyrir ferðina.

Aðspurður hvernig tilfinning það sé að eyða jólunum á suðurpólnum segir Einar að þetta sé auðvitað ekki vinsælt hjá fjölskyldunni en hann og Ingibjörg Guðjónsdóttir eiga tvö börn, Helgu Bryndísi, 14 ára, og Ísar Örn, átta ára. Hann segir að það hafi áður komið upp sá möguleiki að fara í slíka ferð á þessum árstíma en hann ekki viljað það. En nú hafi hann ákveðið að slá til í þetta eina skipti enda mikið ævintýri.

Einar hefur starfað sem fjallaleiðsögumaður í um það bil þrjá áratugi og það var í gegnum gönguskíðamennsku sem hann endaði sem leiðsögumaður en hann hefur stundað gönguskíðamennsku frá tíu ára aldri. Aðspurður neitar Einar því að vera orðinn leiður á starfinu enda viti hann fátt skemmtilegra en að ferðast um á gönguskíðum.

„Það versta við svona langar ferðir er fjarveran frá fjölskyldunni. En núna eru krakkarnir orðnir það stórir að ég ákvað að slá til,“ segir Einar en þau Ingibjörg eru bæði leiðsögumenn og krakkarnir vanir því að foreldrarnir séu uppi um fjöll og firnindi. Einar segir að þau hagi hins vegar vinnu sinni þannig að annað þeirra sé heima á meðan hitt er á fjöllum með hópa. Svo hafi fjölskyldan mjög gaman af því að ferðast saman og þau hafi farið víða í gegnum tíðina innanlands sem utan.

Vart sést munur dags og nætur

Tveggja mánaða ferðalag á slóðir sem þessar reynir á öll samskipti en Einar segist ekki kvíða því þó svo hann þekki ekki vel til ferðafélaganna. Hann segir að það sé stór hluti af starfi leiðsögumanns að takast á við andlega þáttinn hjá fólki. Eðlilega sé dagamunur á fólki og ef of geyst er farið af stað í upphafi getur það haft áhrif á allt ferðalagið. Því þó svo spennan sé mest þá verði að gæta vel að því að reyna ekki of mikið á sig í upphafi. Einar er búinn að hlaða ógrynni af efni inn á mp3-spilara og ipodinn en öll tæki ganga fyrir sólarrafhlöðum. Enda nóg af sólinni á suðurpólnum þar sem vart sést munur dags og nætur. Hann segir að þeir verði með tvö tjöld í ferðinni og annað þeirra sé það stórt að þeir geti setið þar allir fjórir og borðað og spjallað saman.

Í flestum tilvikum er gist eina nótt á hverjum stað en hann á von á því að þeir muni staldra aðeins við í Thiel-fjöllunum þar sem þeir fá vistir og geta losað sig við rusl. Því það eru ekki ruslafötur á suðurskautinu eins og gefur að skilja. Það er mikilvægt að fara yfir allan farangur og losa sig við allan óþarfa pappa og plast áður en lagt er af stað frá Síle. „Síðustu gráðuna megum við ekki skilja eftir neinar „afurðir“ þannig að þá þarf að taka allt með í poka og setja á púlkuna. Þetta er hluti af þeirri viðleitni að halda síðustu gráðunni hreinni (frá gráðu 89° að gráðu 90°).“

Glórulaus hugmynd að byggja heilsársveg yfir Sprengisand

Einar Torfi segir að ferðir yfir hálendi Íslands séu góður undirbúningur fyrir öll ferðalög sem reyna á. Til að mynda gönguskíðaferðir yfir Sprengisand en þá er lagt af stað í Eyjafirði og endað í Sigöldu og tekur slík ferð 10-12 daga. Mikil hækkun er í upphafi ferðar og svo er veðráttan á Sprengisandi oft og iðulega hrikaleg að vetri til. Einar segist ekki geta ímyndað sér að þeir sem hafi háleitar hugmyndir um að byggja heilsársveg yfir Sprengisand geri sér grein fyrir því veðravíti sem þar er. Hugmyndin sé eiginlega glórulaus í einu orði sagt og talar þar af reynslu því hann hefur farið þessa leið oftar en einu sinni á gönguskíðum og jeppa að vetri til.

„Þetta er mjög góður undirbúningur því það er ekkert erfiðara en að glíma við rakann og þetta síbreytilega veðurfar sem er á hálendi Íslands. Þetta er erfiðara en á svæði eins og suðurpólnum þar sem veðráttan er stöðug. Þrátt fyrir að vera með norðanvindinn stöðugt í andlitið og mikinn kulda er rakinn ekki að gera manni erfitt fyrir líkt og hér heima,“ segir Einar.

Hægt að skipta um dag með einu skrefi

En eftir fjölmargar gönguskíðaferðir hefur Einar sólbrunnið illa inni í nösunum vegna endurkasts frá snjónum og verður hann að vera með grímu á ferðalaginu á pólinn til þess að koma í veg fyrir blóðnasir, sólbruna og kal.

Landslagið á suðurpólnum er fremur tilbreytingarlaust eða nánast endalaus ísbreiða. En leiðin yfir Thiel-fjöll þykir ágætis tilbreyting á ferðalaginu.

Einar segir að þegar nær dregur sjálfum pólnum verði nánast enginn munur á sólarhæðinni og nánast hægt að velja sér hvað klukkan er.

„Maður ræður hvenær á dagurinn á að byrja en á pólnum mætast öll tímabelti og því minnsta mál í heimi að hoppa yfir daglínuna. Þetta er eini staðurinn í heiminum þar sem þú getur skipt um dag með því að taka eitt skref, og farið svo aftur yfir á fyrri daginn,“ segir Einar en hægt verður að fylgjast með ferðalaginu á bloggsíðu sem Íslenskir fjallaleiðsögumenn munu annast.

Íslenskir fjallaleiðsögumenn eru að undirbúa fleiri pólferðir, bæði á norður- og suðurpólinn og nú er boðið upp á ferð á norðurpólinn þar sem farin er síðasta gráðan, þ.e. byrjað á gráðu 89° og 111 km að norðurpólnum sjálfum. 

Fyrsta ferðin á norðurpólinn þar sem skíðað er alla leið líkt og Einar Torfi gerir í þessari ferð á suðurpólinn er síðan í boði í febrúar árið 2016. Leiðangur á suðurpólinn þar sem skíðuð er síðasta gráðan verður í boði í desember 2015 og 2016.

Suðurpóllinn með augum NASA
Suðurpóllinn með augum NASA NASA
Einar Torfi Finnsson tók þessa mynd á Grænlandi
Einar Torfi Finnsson tók þessa mynd á Grænlandi Íslenskir Fjallaleiðsögumenn
Ferð á vegum Íslenskra Fjallaleiðsögumanna yfir Vatnajökul
Ferð á vegum Íslenskra Fjallaleiðsögumanna yfir Vatnajökul Björgvin Hilmarsson
Úr leiðangri Leifs Arnar Svavarssonar á suðurpólinn
Úr leiðangri Leifs Arnar Svavarssonar á suðurpólinn Leifur Örn Svavarsson/Íslenskir Fjallaleiðsögumenn
Úr leiðangri Leifs Arnar Svavarssonar á suðurpólinn
Úr leiðangri Leifs Arnar Svavarssonar á suðurpólinn
Úr leiðangri Leifs Arnar Svavarssonar á norðurpólinn
Úr leiðangri Leifs Arnar Svavarssonar á norðurpólinn Leifur Örn Svavarsson/Íslenskir Fjallaleiðsögumenn
Úr leiðangri Leifs Arnar Svavarssonar á suðurpólinn
Úr leiðangri Leifs Arnar Svavarssonar á suðurpólinn
Leiðangur sem Einar Torfi Finnsson fór til Grænlands
Leiðangur sem Einar Torfi Finnsson fór til Grænlands
Úr leiðangri Einars Torfa Finnssonar til Grænlands þar sem hann …
Úr leiðangri Einars Torfa Finnssonar til Grænlands þar sem hann fór á Gunnbjörnsfjall sem er eitt Watkins-fjallanna. Þetta er einangrað svæði og fjarri allri byggð og þar er að finna flest hæstu fjöll Grænlands. Daninn Ebbe Munch varð fyrstur til að klífa fjallið árið 1935.
Ferð sem Björgvin Hilmarsson fjallaleiðsögumaður fór yfir Vatnajökul með hóp …
Ferð sem Björgvin Hilmarsson fjallaleiðsögumaður fór yfir Vatnajökul með hóp á vegum Íslenskra Fjallaleiðsögumanna. Björgvin Hilmarsson/Íslenskir Fjallaleiðsögumenn
Ferð sem Björgvin Hilmarsson fjallaleiðsögumaður fór yfir Vatnajökul með hóp …
Ferð sem Björgvin Hilmarsson fjallaleiðsögumaður fór yfir Vatnajökul með hóp á vegum Íslenskra Fjallaleiðsögumanna. Björgvin Hilmarsson/Íslenskir Fjallaleiðsögumenn
Einar Torfi Finnsson tók sjálfsmynd í leiðangrinum á Gunnbjörnsfjall á …
Einar Torfi Finnsson tók sjálfsmynd í leiðangrinum á Gunnbjörnsfjall á Grænlandi. Einar Torfi Finnsson/Íslenskir Fjallaleiðsögumenn
Úr leiðangri sem Björgin Hilmasson fjallaleiðsögumaður fór með yfir Vatnajökul
Úr leiðangri sem Björgin Hilmasson fjallaleiðsögumaður fór með yfir Vatnajökul
Úr leiðangri sem Björgin Hilmasson fjallaleiðsögumaður fór með yfir Vatnajökul
Úr leiðangri sem Björgin Hilmasson fjallaleiðsögumaður fór með yfir Vatnajökul Björgvin Hilmarsson/Íslenskir Fjallaleiðsögumenn
Úr leiðangri sem Björgin Hilmasson fjallaleiðsögumaður fór með yfir Vatnajökul
Úr leiðangri sem Björgin Hilmasson fjallaleiðsögumaður fór með yfir Vatnajökul Björgvin Hilmarsson/Íslenskir Fjallaleiðsögumenn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert