Tæpur milljarður í rannsóknarnefndir

Frá kynningu á skýrslu um fall sparisjóðanna. Kostnaður vegna þeirrar …
Frá kynningu á skýrslu um fall sparisjóðanna. Kostnaður vegna þeirrar rannsóknarnefndar nemur um 680 milljónum króna. mbl.is/Árni Sæberg

Vegna óleystrar fjárþarfar rannsóknarnefnda Alþingis er sótt um 130 milljóna króna framlag í frumvarpi til fjáraukalaga. Ljóst er að umfang og útgjöld vegna starfsemi nefndar um rannsókn á Íbúðalánasjóði og nefnd sem rannsakaði fall sparisjóðanna voru frá upphafi vanáætluð en verk-, tíma- og fjárhagsáætlanir hafa ekki gengið eftir.

Heildarkostnaður frá upphafi vegna þessara nefnda stefnir í um 930 milljónir króna.

Nefndirnar voru skipaðar síðsumars 2011. Báðum var upphaflega ætlað að skila niðurstöðum á árinu 2012, í mars annars vegar og júní hins vegar. Nefnd um Íbúðalánasjóð lauk störfum í júlí 2013 og nefnd um sparisjóðina lauk störfum í apríl 2014.

Fram kemur, að áfallinn kostnaður við starfsemi beggja nefndanna til ársloka 2013 hafi samtals numið 811,6 milljónum og hafi verið 9,4 milljónir umfram fjárheimildir.

Nefnd um sparisjóðina kostar 680 milljónir

„Vegna mikillar óvissu um það hvort og þá hve mikil fjárþörf yrði á árinu 2014 var ákveðið að bíða átekta og fara ekki fram á fjárveitingu í fjárlögum. Nú liggur hins vegar fyrir að kostnaður við starf nefndanna í ár til loka ágúst var 115 m.kr., þar af 6,8 m.kr. vegna nefndar um Íbúðalánasjóð en 108,2 m.kr. vegna nefndar um sparisjóðina. Auk þess er í þessari tillögu gert ráð fyrir rúmlega 5 m.kr. svigrúmi vegna viðbótarútgjalda, meðal annars við skráningu geymslugagna og annars skjalafrágangs. Heildarkostnaður frá upphafi við starfsemi beggja nefnda stefnir samkvæmt þessu í um 930 m.kr. Þar af eru um 250 m.kr. vegna nefndar um Íbúðalánasjóð en 680 m.kr. vegna nefndar um sparisjóðina,“ segir í frumvarpinu.

Þá segir, að stærstu kostnaðarliðir beggja nefndanna hafi frá upphafi verið laun og aðkeypt sérfræðiþjónusta.

„Enn á eftir að skila rannsóknargögnum nefndanna á rafrænu formi til Þjóðskjalasafns Íslands. Það er hins vegar talið kostnaðarsamt og verður ekki gert fyrr en tryggð hefur verið fjárveiting til verksins. Ekki er sótt um fé til þess verks að sinni. Lög um rannsóknarnefndir Alþingis eru til endurskoðunar og þrátt fyrir að fyrir liggi samþykkt Alþingis um starf einnar rannsóknarnefndar til viðbótar hefur forsætisnefnd Alþingis ákveðið að ný rannsókn verði ekki sett af stað fyrr en að búið hefur verið svo um hnútana að gera megi raunhæfar áætlanir um umfang verks, kostnað og tíma, sem liggi fyrir áður en rannsókn hefst,“ segir ennfremur í frumvarpinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert