Stigminnkandi framlög til tónlistarskólanna

Þórunn Guðmundsdóttir aðstoðarskólastjóri Tónlistaskóla Reykjavíkur.
Þórunn Guðmundsdóttir aðstoðarskólastjóri Tónlistaskóla Reykjavíkur. Árni Sæberg

„Tónlistarskólar í Reykjavík standa frammi fyrir grafalvarlegu ástandi. Nokkrir tónlistarskólar í Reykjavík ramba á barmi gjaldþrots. Rýnihópur á vegum borgarinnar lagði fram biksvarta skýrslu í júní 2014 („Greining á fjárhagsvanda tónlistarskóla í Reykjavík“) þar sem fram kemur að þeir skólar í Reykjavík sem eru með hátt hlutfall nemenda á framhaldsstigi séu fastir í sjálfheldu tapreksturs.“

Svona kemst Þórunn Guðmundsdóttir, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík að orði í grein sinni, Höfuðborg - tónlistarborg? sem birtist í Morgunblaðinu í gær.

Í greininni fer Þórunn yfir þá alvarlegu stöðu sem tónlistarskólar Reykjavíkur eru í og ber saman tölur yfir framlög sveitarfélagana til tónlistarskólanna. 

Hún segir frá því að framlög Reykjavíkurborgar til tónlistarskólanna farið stigminnkandi frá árinu 2005. Frá árinu 2008 til 2012 hafa framlögin lækkað um 323 milljónir króna eða 31%. Jafnframt fjölgaði tónlistarskólum í Reykjavík úr 9 í 20 á árunum 1995 til 2005.

Á sama tímabili fjölgaði nemendum lítið.

Í greininni sýnir Þórunn fram á að framlag Reykjavíkur til tónlistarskóla er áberandi lægst bæði 2008 og 2012 og að framlag Reykjavíkurborgar hafi jafnframt lækkað langmest í prósentum talið.

„Hvað með húsakost og tækjakost í tónlistarskólum í þessum bæjum? Hafnarfjarðarbær, Garðabær og Reykjanesbær hafa byggt myndarlega yfir sína tónlistarskóla. Tónlistarskólinn á Akureyri er með glæsilega aðstöðu í menningarhúsinu Hofi og Tónlistarskólinn á Seltjarnarnesi er með góða aðstöðu á vegum bæjarins. Höfuðborgin hefur hins vegar ekki byggt yfir einn einasta tónlistarskóla. Þvert á móti hefur hún tekjur af húsnæði í eigu tónlistarskóla í gegnum fasteignagjöld og leigutekjur af þeim tónlistarskólum sem hafa aðstöðu í grunnskólum,“ segir Þórunn í greininni. 

Í viðtali við mbl.is í vikunni lýsti Gunnar Guðbjörnsson, skólastjóri Söng­skóla Sig­urðar Demetz alvarlegri stöðu skólans og annarra tónlistarskóla í Reykjavík.

„Þeir sem fara með mála­flokk­inn vita að skól­arn­ir eru á leiðinni á haus­inn. Ekki er hægt að redda sér mánaðamót eft­ir mánaðamót, við get­um það ekki til lengd­ar. Við erum sí­fellt með hnút í mag­an­um hver mánaðamót því við vit­um ekki hvort við mun­um geta borgað fólk­inu okk­ar laun,“ sagði Gunnar m.a. í viðtalinu.

Tafla sem birtist í grein Þórunnar.
Tafla sem birtist í grein Þórunnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert