Assange ber vitni í gegnum síma

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hefur hafst við í sendiráði Evkadors …
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hefur hafst við í sendiráði Evkadors í London í tvö ár. AFP

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, þarf ekki að koma til Íslands til að bera vitni í fjársvikamáli. Héraðsdómur Reykjaness féllst á þá kröfu ákæruvaldsins í málinu að Assange gæti gefið vitni í gegnum síma. Verjandi sakborningsins hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Sigurður Ingi Þórðarson, betur þekktur sem Siggi hakkari, er sakborningurinn í fjársvikamálinu sem um ræðir. Málið var þingfest í júní sl. vegna fjársvika, þjófnaða, eignarspjalla og skjalafals. Stærsti ákæruliðurinn varðar 6,7 milljóna króna fjársvik en í ákæru segir að Sigurður hafi blekkt eiganda vefverslunar til að millifæra fjármunina inn á reikning sinn í stað þess að leggja hann inn á reikning Wikileaks. Um var að ræða ágóða af sölu varnings til stuðnings uppljóstrarasíðunni.

Samkvæmt ákærunni sagði Sigurður eiganda vefverslunarinnar að hann starfaði í umboði Julian Assange og hefði því heimild hans til að fara fram á að peningurinn yrði lagður inn á umræddan reikning. Sigurður Ingi er ákærður fyrir að hafa nýtt sér féð í eigin þágu.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness á fimmtudag í næstu viku. Assange hefur hafst við í sendiráði Ekvadors í London í um tvö ár. Ákæruvaldið fór fram á að hann fengi að bera vitni í gegnum síma en Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Sigurðar Inga, segir óhjákvæmilegt að Assange komi fyrir dóminn og beri vitni.

„Ég tel að það séu ekki lagaskilyrði fyrir hendi til að hann gefi skýrslu í síma. Hann er lykilvitni í málinu og ég tel að framburður hans geti ráðið úrslitum um sekt eða sýknu ákærða í málinu. Þess vegna tel ég að hann þurfi að koma fyrir dóminn. Það er alger grundvallarregla í sakamálalögum að lykilvitni komi fyrir dóm. Við höfum gengið alltof langt í þá átt að leyfa símaskýrslur. Það þarf að meta sönnunargildi framburðar og það er bara staðreynd að það er tvennt ólíkt að gera það þegar þú ert með viðkomandi fyrir framan þig í eigin persónu eða þegar skýrslutakan fer fram í gegnum síma,“ segir Vilhjálmur.

Assange gefi skýrslu á Íslandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert