„Ekki óttasleginn því maðurinn var bæði lítill og mjór“

Eyþór Þorbergsson fulltrúi hjá embætti sýslumannsins á Akureyri.
Eyþór Þorbergsson fulltrúi hjá embætti sýslumannsins á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Eyþóri Þorbergssyni, fulltrúa hjá Sýslumanninum á Akureyri var skiljanlega brugðið þegar ráðist var að honum um miðjan nótt á heimili hans í síðustu viku, en ber sig samt vel. Segist ekki óttasleginn en muni vissulega gera öryggisráðstafanir á heimilinu. Eyþór er saksóknari í nær öllum sakamálum á Akureyri og víða annars staðar á Norðurlandi.

Maðurinn sem réðst að Eyþóri hefur margoft komið við sögu lögreglunnar allt frá því hann var barn að aldri. Hann er enn í gæsluvarðhaldi við annan mann, en þeir eru taldir hafa kveikt í bíl Eyþórs síðar sömu nótt. Bíllinn er gjörónýtur.

Hafði tekið verkjalyf

Endajaxl var tekinn úr Eyþóri síðdegis á miðvkudag í síðustu viku og fékk hann sterk verkjalyf. „Ég er frekar hræddur við tannlækna, og fékk því stóran skammt af verkalyfjum til að verða almennilega rólegur. Ég kom heim um klukkan sjö, sofnaði fljótlega í sófanum og vaknaði ekki fyrr en tíu eða jafnvel hálf ellefu. Ég var einn heima því krakkarnir voru sem betur fer hjá mömmu sinni þessa viku,“ sagði hann við Morgunblaðið í dag.

Eyþór út til að fá sér að borða seint um kvöldið. „Eftir að ég kom aftur heim náði ég ekki að sofna strax, var farinn að finna aftur til eftir aðgerðina og tók meiri verkjalyf. Var því dálítið vankaður þegar bankað var á útidyrnar um þrjú leytið. Ég hélt að þetta væri hugsanlega sonur minn að koma og fór því til dyra en þegar ég opnaði sé ég lítinn, grímuklæddan mann fyrir utan. Ég var ekki mjög óttasleginn því maðurinn er bæði lítill og mjór.“

Vopnaður járnstöng

Eyþór áttaði sig ekki á því hver var þarna á ferðinni. „Ég sá að hann var með eitthvert vopn í hendinni en sá ekki hvað það var; sá hendina nálgast mig og fylgdist með hreyfingunni frekar en reyna að sjá almennilega hvað hann var með. Ég fann ekki fyrir högginu strax vegna verkjalyfjanna en eymslin leyndu sér ekki daginn eftir.“

Gesturinn reyndist með skaft úr topplyklasetti, náði föstu höggi á vinstri hönd Eyþórs sem er marin og bólgin. Hurðin opnast út, Eyþór náði að ýta henni hraustlega á árásarmanninn, sem flúði þá af hólmi. Þegar þar var komið sögu skellti Eyþór í lás og fór að sofa. „Eftir á að hyggja átti ég auðvitað að hringja í lögregluna en hugsaði með mér að gera það bara daginn eftir þegar ég færi í vinnuna.“

Eyþór náði að sofna en festi ekki svefn lengi. Var vaknaður aftur um fimmleytið þegar kveikt var í bílnum; sat þá frammi í stofu og horfði á sjónvarpið. „Ég heyrði smá sprengingu, fór út og sá að bíllinn minn var alelda. Þá hringdi ég í 112 til að fá slökkviliðið á staðinn en datt heldur ekki í hug þá - ótrúlegt, en satt - að hringju í lögregluna.“

Hægt að vera vitur eftir á

Eyþór fór austur á land strax daginn eftir árásina og kom ekki til Akureyrar fyrr en í dag. Ferðin tengdist reyndar hvorki árásanni né starfinu að öðru leyti heldur var skipulögð og af fjölskylduástæðum. Hann segist því ekki hafa fylgst náið með fréttum af málinu. „Það er alltaf hægt að vera vitur eftir á og ef ég hefði hringt í lögguna strax hefði ég hugsanlega getað komið í veg fyrir að kveikt væri í bílnum. En ég vildi bara fara að sofa,“ segir Eyþór spurður hvort hann hafi einhverja bakþanka varðandi viðbrögðin þarna um nóttina.

Hann segist hress. „Ég er fínu lagi. Þetta hefði verið meira áfall ef krakkarnir hefðu verið hjá mér. Ég þoli ýmislegt og þetta breytir í raun engu hjá mér. Ég gríp væntanlega til einhverra öryggisráðstafana, sem ég get ekki upplýst hverjar eru, og verð svo duglegri að mæta í ræktina til að verða tilbúinn í aðra orrustu ef hún verður.“

Ekki færri „hálfvitar“ hlutfallslega en í Reykjavík


Eyþór Þorbergsson er saksóknari í nær öllum málum fyrir norðan, sem fyrr segir. „Ég hef verið lengi í þessu og orðinn svolítið þekktur í undirheimum Akureyrar. Ég hef verið í símaskránni, hef ekki verið hræddur og ætla alls ekki að fara að lifa lífinu þannig; ég nenni því ekki.“

Spurður um undirheima Akureyrar; hugtak sem venjulegur bæjarbúi er tæpast vel að sér um, segir Eyþór: „Akureyri er ekkert mikið öruggari bær en Reykjavík, held ég. Það eru auðvitað fleiri „hálfvitar“ í Reykjavík en hér, en ég er ekki viss um að þeir séu hlutfallslega fleiri fyrir sunnan.“

Eyþór telur ekki að málið hafi einhver áhrif á hann til langframa. „Ég þoli ýmislegt.“

Hann vill ekki velta vöngum yfir því hvort árásin á hann muni hafa einhver áhrif í samfélaginu fyrir norðan. „Ég hef verið í burtu, kom bara í gær, og hef ekki rætt þetta við marga. En fólk sem þekkir mig er jafnvel meira slegið en ég sjálfur. Það má segja að maður hafi, eins og lögreglumenn og aðrir í minni stöðu, haft það á bak við eyrað að svona lagað gæti gerst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert