Samninganefndir haldi sig við efnið

Formaður Félags tónlistarskólakennara vill ekki greina nánar frá efni tilboðanna …
Formaður Félags tónlistarskólakennara vill ekki greina nánar frá efni tilboðanna sem lögð voru fram á samningafundi í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Samninganefndir Félags tónlistarskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga funduðu í tíu klukkustundir í gær. Sigrún Grendal, formaður FT, segir ríkissáttasemjara leggja ríka áherslu á að samninganefndirnar haldi sig við efnið en verkfall tónlistarskólakennara hefur nú staðið yfir í fjórar vikur.

Næsti fundur hefst í húsi ríkissáttasemjara klukkan 11.

Sigrún segir að staða kjaradeilunnar hafi verið óviss í gærkvöldi þegar fundi var slitið á tíunda tímanum. Fundurinn var heldur lengri en fyrri fundir deilunnar. Ekki er hægt að segja hann hafi verið með öllu árangurslaus en báðar samninganefndirnar lögðu fram tilboð á fundinum.

„Við vorum að vinna úr hlutum. Þetta á eftir að ganga meira á milli svo við getum áttað okkur á því hvort við séum að vinna í sameiginlega átt. Það er mjög jákvætt að menn fáist til þess að vinna. Við erum ánægð með það en verðum að sjá hvort tekið verði tilliti til okkar leiðréttingarkrafna,“ sagði Sigrún í samtali við mbl.is fyrir fundinn í morgun.

Gefur lengd fundarins í gær tilefni til bjartsýni?

„Það átti sér stað meiri vinna en áður. Ef maður á að reyna að lesa í það, þá hlýtur það að sýna meiri vilja en við höfum fundið fyrir áður. Við vonumst til að þetta skili einhverju,“ segir Sigrún.

Samninganefnd sveitarfélaganna lagði fram tilboð á fundinum í gær. Farið var yfir tilboðið og lagði samninganefnd FT fram gagntilboð. Sigrún vill ekki greina frá efni tilboðanna. „Að svo stöddu erum við beðin um halda því innandyra, hvað fer okkar á milli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert