„Getur þú ekki búið til eitthvað fallegt?“

Karl Wernersson og Guðmundur Ólason í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Karl Wernersson og Guðmundur Ólason í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Endurskoðunarfyrirtækið KPMG óskaði í apríl 2007 eftir því að fá lánaskjöl vegna 2,7 milljarða króna kröfu í bókhaldi Milestone. Krafan tengdist greiðslum Milestone fyrir hluti Ingunnar Wernersdóttur og var utan um hana gerður samningur á milli Milestone og Milestone Import Export, dagsettur 30. desember 2005.

Skýrslutökum í máli sérstaks saksóknara gegn þremur fyrrverandi stjórnendum Milestone og þremur löggiltum endurskoðendum hjá KPMG lauk í dag. Á morgun hefst málflutningur og stefnt er að því að málið verði dómtekið á föstudag.

Í mál­inu eru Guðmund­ur Ólason, fv. for­stjóri Milest­one, Karl Werners­son, fv. stjórn­ar­formaður, og Stein­grím­ur Werner­son, fv. stjórn­ar­maður, ákærðir vegna greiðslna til Ing­unn­ar Werners­dótt­ur fyr­ir hluti henn­ar í Milest­one, Milest­one Import Export og Leiftra en þær námu á sjötta millj­arð króna á ár­un­um 2006 og 2007.

Jafn­framt eru end­ur­skoðend­urn­ir Hrafn­hild­ur Fann­geirs­dótt­ir, Mar­grét Guðjóns­dótt­ir og Sig­urþór Char­les Guðmunds­son, öll frá end­ur­skoðun­ar­fyr­ir­tæk­inu KPMG, ákærð fyr­ir brot gegn lög­um um end­ur­skoðend­ur. Þau Mar­grét og Sig­urþór eru enn­frem­ur ákærð fyr­ir meiri­hátt­ar brot á lög­um um árs­reikn­inga vegna viðskipt­anna.

Samningurinn útbúinn í apríl

Meðal þeirra sem gáfu skýrslu í dag var Guðjón Ásmundsson en hann hóf störf hjá Milestone snemma á árinu 2007. Áður hafði Guðjón, sem er löggiltur endurskoðandi, starfað hjá KPMG. Saksóknari bar undir hann tölvupóst sem Hrafnhildur sendi Guðjóni í apríl 2007 en þá vann KPMG að ársreikningi Milestone.

Hrafnhildur óskaði í póstinum eftir lánaskjölum sem stæðu á bak við 2,7 milljarða króna kröfu í bókhaldi Milestone. Guðjón áframsendi póstinn á Arnar Guðmundsson, fjármálastjóra Milestone, og spurði hann hvort umrædd gögn væru til. Svarið frá Arnari var stutt og laggott: „Nei, getur þú ekki búið til eitthvað fallegt.“

Eftir nokkrar umræður innan Milestone fer Guðjón fram á að gerður verði 2,7 milljarða króna lánasamningur á milli Milestone og Milestone Import Export. Samningurinn var dagsettur aftur í tímann, undirritaður og sendur KPMG.

Keypti félagið Leiftra á þúsund krónur

Í málinu eru stjórnendur Milestone ákærðir fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína og valdið Milestone verulegri fjártjónshættu með því að fjármagna kaup Karls og Steingríms á hlutum Ingunnar, í fullkominni óvissu um það hvort, hvernig eða hver myndi endurgreiða Milestone fjármunina.

Þegar Karl var spurður að því á mánudag hver hafi átt að kaupa bréf Ingunnar sagði hann: „Það var ýms­um hug­mynd­um kastað fram á ár­inu 2006, en það var ekki fyrr en við frá­gang árs­reikn­ings­ins 2006 að þessi hug­mynd kem­ur upp, að Leiftri verði eig­andi bréf­anna og Milest­one Import Export taki lán hjá Milest­one til að greiða fyr­ir þau.“

Þá kom einnig í dag fyrir æskuvinur Karls og Steingríms en hann eignaðist félagið Leiftra í desember 2011. „Ég var á skrifstofunni hjá Karli og eitt leiddi af öðru og ég keypti af honum félagið fyrir lítinn pening. [...] Við vorum bara að spjalla, þá nefndi hann þetta og ég sló til.“

Maðurinn var ekki upplýstur um það að Leiftri setti fram kröfu í þrotabú Milestone upp á 584 milljónir króna og vissi ekki um skuldastöðu félagsins. 

Saksóknari: „Hvað greiddir þú mikið fyrir félagið?“

Æskuvinur: „Mig minnir að það hafi verið þúsund krónur. Þetta var bara svona gjörningur.“

Saksóknari: „Voru eignir inni í félaginu þegar þú tókst við því?“

Æskuvinur: „ÉG veit það ekki. Mér skildist að það ætti ekkert nema skuldir.“

Saksóknari: „Fékkstu þær upplýsingar, að það ætti skuldir?“

Æskuvinur: „Mér skildist það. Ég spurði ekki neitt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert