Erfitt að læra án leiðbeiningar

Erna Elvarsdóttir, Þorgerður Sól Ívarsdóttir, Katrín Pétursdóttir, Ingibjörg Brynjólfsdóttir og …
Erna Elvarsdóttir, Þorgerður Sól Ívarsdóttir, Katrín Pétursdóttir, Ingibjörg Brynjólfsdóttir og Eyrún Margrét Eiðsdóttir sendu sveitastjórnum bréf. Hér eru þær ásamt tveimur vinkonum sínum. Ljósmynd/Þorgerður Sól Ívarsdóttir

„Við erum farnar að sakna þess mikið að mæta á æfingar,“ segir Þorgerður Sól Ívarsdóttir, ein fimm stúlkna í Tónlistarskóla Borgarfjarðar sem sendu sveitastjórnum landsins bréf í gær. Í bréfinu lýsa þær því hversu mikla þýðingu tónlistarnámið hefur fyrir þær, og þrýsta á sveitastjórnirnar að leysa deiluna sem fyrst.

„Við vorum alltaf að hugsa um þetta í skólanum og svo stakk kennarinn okkar upp á því að við myndum skrifa bréf og senda á sveitastjórnirnar,“ segir Þorgerður. Hún segir engin svör hafa borist ennþá, en þær stöllur vonist til þess að það gerist sem fyrst.

Hefur áhrif á próf og tónleika

Tón­list­ar­kenn­ar­ar hafa nú verið í verk­falli í um mánuð, og eru nemendur því búnir að missa af fjölda tíma. Eins og mbl.is fjallaði um í gær getur þetta haft mikil áhrif á jólatónleika og próf hjá tónlistarskólunum. 

„Sumar okkar eru að fara í stór stigspróf og það er mjög erfitt fyrir okkur að læra án þess að fá leiðbeiningu frá tónlistarkennurunum okkar,“ segir Þorgerður. „Það tekur alltaf tíma að undirbúa sig fyrir svona próf en við þurfum bara að bíða á meðan verkfallið stendur.“

Ekki síður mikilvægt en almennt skólanám

Í bréfi stúlknanna kemur fram að tónlistarnám sé mikilvægur þáttur í samfélaginu. Nemendur sem stundi tónlistarnám verði oft skipulagðir í námi og margar rannsóknir sýni það að nemendum í tónlistarnámi gangi almennt betur í stærðfræði.

„Tónlistarnám á það til að gleymast því það er ekki skylda eins og grunnskólanám. Mikilvægt er að semja við tónlistarkennara eins og alla aðra kennara þar sem tónlistarnám er ekki síður mikilvægt en almennt skólanám.“

„Þetta stendur okkur mjög nærri“

Þorgerður segir of marga leiða verkfall tónlistarkennara hjá sér og hugsa lítið um það. „En þetta stendur okkur mjög nærri. Við fáum ekki að hitta kennarana okkar svo við fáum engin lög og þá getum við ekki æft okkur heima,“ segir hún. „Það er mjög erfitt að æfa nýtt lag alveg frá grunni án þess að hafa hjálp kennara.“

Stúlkurnar fimm munu fara á málþing í Borgarnesi á mánudag, þar sem þær munu fjalla um þessi mál. „Við ætlum að segja frá okkar hlið og vonandi vekja fólk til umhugsunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert