Sjö fengu í dag viðurkenningu Stígamóta fyrir framúrskarandi störf í þágu jafnréttis og gegn ofbeldi.
Þeir sem fengu viðurkenningu eru Björg G. Gísladóttir, rithöfundurinn Steinar Bragi, rappsveitin Reykjavíkurdætur, Jóhannes Kr. Kristjánsson, Rótin, Druslugangan og Tabú.
„Það þarf að vinna vel fyrir þessum viðurkenningum. Síðustu sjö ár höfum við reynt að finna það fólk sem okkur finnst skara fram úr í vinnunni gegn ofbeldi og fyrir réttlæti,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta í samtali við mbl.is. Hún segir að allir verðlaunahafar eigi það sameiginlegt að hafa gert hluti og dregið hluti fram í dagsljósið sem hafa ekki sést áður.
„Allt það fólk sem við heiðruðum í dag átti það svo sannarlega skilið. Reykjavíkurdætur hafa til dæmis brotið upp þennan karllæga rappheim og Druslugangan hefur hrist rækilega í samfélaginu.“
Tveir rithöfundar fengu viðurkenningar í dag, þau Steinar Bragi og Björg G. Gísladóttir.
„Steinar Bragi skrifaði bókina Kötu kannski ekki mjög falleg eða þægileg bók en lætur mann ekki í friði. Í henni birtist svo mikið óþol gegn því óréttlæti sem fellst í kynferðisofbeldi og hversu alvarlegar afleiðingar ofbeldið hefur bæði fyrir þá sem eru beittir því en engu að síður þá sem því beita. Okkur fannst síðan ekki leiðinlegt að verðlauna hana Björgu en bókin hennar, Hljóðin í nóttinni vakti gífurlega athygli en þar segir hún frá kynferðislegri misnotkun.“
Fjölmiðlamaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson fékk einnig viðurkenningu í dag. „Hann hefur að okkar áliti unnið streitulaust í mörg ár og verið með vægðarlausar umfjallanir um umheimanna. Jafnframt fengu verðlaun þær Freyja Haraldsdóttir og Embla Guðrúnardóttir en þær standa fyrir vefsíðunni Tabú. Þar leyfa þær sér að ræða allskyns mál sem við höfum ekki rætt áður eins og kynlíf fatlaðra, able-isma og allskonar hluti sem þær hafa dregið fram í dagsljósið.“
Rótin - félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda fékk einnig viðurkenningu. „Það má segja það nákvæmlega sama um þær,“ segir Guðrún. „Þær hafa beint sjónum að sérstökum vanda kvenmanna í fíknivanda og vilja að meðferðarúrræði taki tillit til þess. Þær hafa lagt sig fram um að búa til samstarfs milli stofnanna og einstaklinga.“