Hataðasti maður í heimi

Julien Blanc í viðtali á CNN.
Julien Blanc í viðtali á CNN. Skjáskot af CNN.com

Hátt í 11 þúsund manns hafa nú skrifað undir áskorun á stjórnvöld um að hleypa flagaraþjálfaranum Julien Blanc ekki til Íslands. Íslendingar eru þó ekki einu Norðurlandabúarnir sem vilja síður að Blanc fái að breiða út boðskap sinn því nú hafa Danir einnig komið sér upp áþekkum undirskriftalista.

Blanc hyggst kenna dönskum karlmönnum að taka konur á löpp á tveggja daga námskeiði í janúar en hefur þegar mætt miklum mótmælum og titlar greinarhöfundur Berlingske hann m.a. sem hataðasta mann í heimi. Það viðurnefni kemur raunar frá Blanc sjálfum, sem baðst afsökunar í viðtali á CNN eftir að hafa verið meinað að dveljast í Brasilíu og Ástralíu þar sem hann hugðist halda námskeið.

„Mér líður hræðilega. Ég verð ekki hamingjusamur ef mér líður eins og ég sé hataðasti maður í heimi,“ sagði Blanc.

Eftir undirskriftaherferð í Bretlandi er ljóst að Blanc verður meinaður aðgangur að landinu og virðast vinsældir hans síður en svo fara vaxandi, þrátt fyrir afsökunarbeiðnina.

Kvennahvísl og kverkatök

„Hann er kvennahvíslarinn. Eins og nákvæmt tæki getur hann fundið þann punkt (...) þar sem stelpurnar verða ringlaðar og meirar - og vúps, svo falla nærbuxurnar,“ skrifar Poul Høj hjá Berlingske.

Høj segir Blanc nota hugtök á við að draga á tálar frjálslega en hann fari þó síst af öllu fínt í hlutina.

„Á námskeiðum sínum kennir Blanc hvernig maður vélar konur, hvernig maður lýgur og afskræmir hlutina,“ skrifar Høj.

„Hann segir að konum líki tilfinningin við að vera nauðgað, hann hefur birt auglýsingu þar sem hann sést taka konu kverkataki, og hann útskýrir að ef henni finnst það ekki vera málið hafi hann margsinnis reddað aðstæðum með því að segja „Just kidding“,“ skrifar Høj.

Kaldhæðnislegt val

Høj segir Blanc lengi hafa verið vel séðan í hópum karlmanna sem hafa allt sitt vit frá samfélagssíðum á við Reddit og 4Chan en hann hafi komið fram í dagsljósið þar sem hann hélt að viðurkenning slíkra hópa væri viðurkenning samfélagsins. Það sé hins vegar alls ekki raunin.

„Það er kaldhæðnislegt að Blanc skuli yfirhöfuð velja að koma til Danmerkur, því samkvæmt Daily Telegraph hefur hann áður birt myndband með titlinum „Don't Bang Denmark“ þar sem hann sagði aðdáendum sínum að það væri erfiðara að skora í Danmörku sökum yfirgripsmikils velferðarkerfis landsins. Það þýðir að „konur eru ekki nærri því jafnörvæntingarfullar að finna menn sem geta séð fyrir þeim“ eins og hann segir samkvæmt blaðinu.“

Høj bendir á að afsökunarbeiðni Blancs hafi farið fyrir ofan garð og neðan enda þyki fáum hún einlæg. Einn af vinnuveitendum Blancs, Owen Cook, tók þátt í umræðunni í vikunni og sagði að um misskilning væri að ræða en andstæðingar Blancs voru fljótir að grafa upp myndband af Cook að grobba sig af því að hafa nauðgað fatafellu.

„Kvennahvíslarinn er við að missa röddina,“ skrifar Høj að lokum og ljóst er að fái andstæðingar hans nokkru ráðið munu ráðleggingar hans ekki rata inn fyrir landsteina Íslands, í það minnsta ekki af hans eigin vörum.

Tengdar fréttir:

„Borgaðu mér og nauðgaðu þeim öllum“

Iceland says stop Julien Blanc

Bætti við ókeypis daðurnámskeiði

Julien Blanc meinað að koma til Bretlands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert