Nýr ráðherra verði skipaður sem fyrst

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra,
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, mbl.is/Kristinn

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist virða ákvörðun Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um að segja af sér embætti. „Fyrst og fremst er það eftirsjá að Hönnu Birnu úr ríkisstjórninni,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

„Þetta er persónuleg ákvörðun sem hún tekur. Við sátum saman og ræddum um þessa hluti. Hún hefur síðan gefið út sína yfirlýsingu og ég virði þessa niðurstöðu hennar. Það dylst engum að þetta hefur verið henni erfitt og það hefur legið fyrir að það gæti verið erfitt fyrir hana að ná þeim árangri í starfi sem hún sækist eftir á meðan málið [lekamálið svokallaða] litar öll hennar störf,“ segir Bjarni.

Hann kveðst sannfærður um að Hanna Birna muni koma tvíefld til baka í þingið eftir stutt hlé og styrkja flokkinn í þinglegum störfum hans.

Aðspurður vill Bjarni ekki gefa upp hvenær hann fékk að vita um ákvörðun Hönnu Birnu. „Við áttum samtal fyrir stuttu og hún gerði mér grein fyrir þessari niðurstöðu,“ segir hann. 

Mikilvægt að eyða óvissunni sem fyrst

Spurður hver muni taka við sem innanríkisráðherra segir Bjarni: „Það er mikilvægt að eyða óvissunni um það sem allra fyrst. Ég hef nefnt það við forsætisráðherra nú þegar að ég leggi áherslu á að við skipum nýjan ráðherra sem allra fyrst. Það mun ég ræða við forsætisráðherra og auðvitað fyrst og fremst við þingflokk sjálfstæðismanna næstu sólarhringana og leita eftir því að fá botn í það án óþarfa tafa,“ segir Bjarni.

Hvað varðar arftaka Hönnu Birnu í innanríkisráðuneytinu segir Bjarni: „Ég ætla að ræða það við þingflokkinn fyrst af öllum.“ Ekki liggur fyrir tímasetning hvenær þingflokkurinn muni koma saman en gera má ráð fyrir að það verði í kvöld eða um helgina.

„Það er engin ástæða til að bíða lengi með það,“ segir Bjarni.

Persónuleg ákvörðun

Spurður hvort hann telji að Hanna Birna hafi tekið rétta ákvörðun segir Bjarni að það sé ekki hans hlutverk að dæma fyrir hönd Hönnu Birnu.

„Þetta er mjög persónuleg ákvörðun. Það er með okkur öll að við þurfum bæði að hafa skýrt umboð og stuðning, en við þurfum líka að hafa vilja og trú á því að við getum sinnt verkefnum okkar eins og okkur langar til. Í þessu tilviki þá virði ég niðurstöðu Hönnu Birnu að þær aðstæður hafi skapast að hún sækist ekki lengur eftir því að sitja sem ráðherra,“ segir Bjarni að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka