Eins og jólin séu komin

Söngvarar úr Söngskólanum í Reykjavík þenja raddböndin.
Söngvarar úr Söngskólanum í Reykjavík þenja raddböndin. Jim Smart

„Þetta er bara eins og jólin séu komin,“ segir Garðar Cortes, skólastjóri Söngskólans í Reykjavík, í samtali við mbl.is. Eins og fram hefur komið skrifaði Félag tónlistarkennara undir samning í nótt og var verkfalli þar með aflétt.

Garðar segir þetta hafa verið mikil gleðitíðindi, og kennsla sé nú þegar hafin í skólanum. „Ég frétti þetta klukkan hálfsjö í morgun og þá voru allir mínir menn vaktir. Þeir vöktu svo nemendurna sína og núna streymir fólk hingað inn.“

Jólatónleikarnir verða á sínum stað

Verkfall tónlistarkennara hafði staðið í um fimm vikur þegar samningar náðust loks í nótt. Garðar segir kennslu því hafa raskast mikið, en nú verði unnið að því að bæta það upp og koma til móts við nemendur. 

„Fólk er búið að missa mikið úr og við þurfum að endurskipuleggja alla tónleika sem áttu að vera á þessum tíma,“ segir Garðar. „Það eru nokkrir tónleikar innan skólans sem þarf að huga að, en jólatónleikarnir verða á sínum stað.“

Prófum frestað fram í janúar

Hann segir prófum þó hafa verið frestað, en þau verða haldin um miðjan janúar en ekki í desember eins og venjulega. „Það munu því allir fá tækifæri til að dusta af sér rykið. Við höldum próf í söng, tónfræði og öllu því sem sat á hakanum meðan á verkfallinu stóð.“

Loks segir hann bæði nemendur og kennara himinlifandi með það að verkfallinu sé loks lokið. „Það er mikil ánægja yfir því að þetta skuli vera búið.“

Garðar Cortes, skólastjóri Söngskólans í Reykjavík.
Garðar Cortes, skólastjóri Söngskólans í Reykjavík. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert