Ekki farið alfarið að kröfu FT

Tón­list­ar­kenn­ar­ar skrifuðu und­ir kjara­samn­ing í nótt.
Tón­list­ar­kenn­ar­ar skrifuðu und­ir kjara­samn­ing í nótt. mbl.is/Golli

„Við lögðum fram tilboð síðasta fimmtudag og út frá því myndaðist umræða sem þróaðist þannig að samningar gátu náðst,“ segir Inga Rún Ólafs­dótt­ir, sviðsstjóri kjara­sviðs Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um kjarasamning tónlistarkennara sem skrifað var undir í nótt. 

Félag tónlistarkennara skrifaði undir samninginn á sjötta tímanum í morgun eftir rúmlega 16 klukkustunda langan samningafund. Í dag hefja tónlistarskólar því störf eftir um fimm vikna verkfall.

Inga Rún segir niðurstöðuna ekki vera þá sem tónlistarkennarar fóru fram á, en samninganefnd FT hafði meðal annars lagt fram að félagsmenn fái greitt eftir sömu launatöflu og leik- og grunnskólakennarar.

Hún segist þó ekki vilja tjá sig frekar um samninginn á þessu stigi málsins, en vonar að báðir aðilar hafi gengið sáttir frá borði. „Þetta er niðurstaða langra viðræðna svo það er gott að hafa fundið leið til að klára þetta.“

Sigrún Grendal, formaður FT, sagði í samtali við mbl.is í morgun að tónlistarkennarar megi vel una við samninginn. Þá benti hún á að tón­list­ar­kenn­ar­ar hafi setið eft­ir í launaþróun annarra kenn­ara og að með samn­ingn­um telji hún að þeirri óheillaþróun hafi verið snúið við.

FT mun nú geta borið samninginn undir félagsmenn sína og mun niðurstaða kosninga um hann liggja fyrir hinn 8. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert