Geta ekki litið hjá ógninni

Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra.
Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra. mbl.is/Júlíus

Lögreglan á Íslandi getur ekki leyft sér að horfa fram hjá vaxandi hættu af hryðjuverkum í Evrópu, meðal annars vegna Íslamska ríkisins. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að lögreglan vinnur að greinargerð til ráðherra um aukna þörf hennar fyrir vopn og búnað, að sögn Jóns Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá embætti ríkislögreglustjóra. 

„Mat og þarfagreining var gerð í fyrra en við erum að vinna í að uppfæra hana. Hún verður svo send ráðherra þegar hún er tilbúin. Ein ástæðan fyrir þörf á aukinni viðbúnaðargetu eru tilfelli fjöldadrápa sem hafa átt sér stað í Evrópu undanfarin ár, þar með talin á Norðurlöndum auk hefðbundinnna vopnamála sem koma upp hér á landi öðru hvoru. Þrátt fyrir að það hafi ekki tekist að fá þessi vopn þá er alveg óbreytt staða með það að viðbúnaðargeta lögreglunnar er ekki fullnægjandi til að hún geti sinnt hlutverki sínu,“ segir Jón og vísar til vopna frá Noregi sem ákveðið var að skila.

Þörfin er þó ekki aðeins fyrir byssur heldur fyrir nýtískulegri búnað, til dæmis skotskýlingarbúnað á borð við vesti og hjálma. Íslenska lögreglan hefur ekki fengið beinar upplýsingar um yfirvofandi hryðjuverkaógn á hér en Jón segir að hættan hafi hins vegar aukist mikið í Evrópu undanfarið.

„Staðan í Evrópu hefur verið að breytast mikið vegna ISIS-samtakanna sem hvetja áhangendur sína þar til að fremja voðaverk heima hjá sér. Öll Evrópulöndin hafa sett þetta sem stærstu ógnina hjá sér. Ein birtingarmyndin er það sem hefur verið að gerast í Noregi. Við sem lögregla getum ekki leyft okkur að lifa einfaldlega í þeirri trú að ekkert geti gerst á Íslandi. Við höfum náttúrulega þá skyldu að verja líf og heilsu fólks. Lögreglan þarf að hafa getu til að takast á við svona mál þó að vissulega voni maður að ekkert slíkt gerist,“ segir Jón og vísar til aukins viðbúnaðs lögreglu í Noregi vegna ótta við hryðjuverk.

Norska lögreglan verður vopnuð

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka