Auka tekjur um hálfan milljarð

mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Fjárlaganefnd af­greiddi fjár­laga­fruma­varp næsta árs í gær. Meðal annars var ákveðið að auka tekjur með því að lækka afslátt af vörugjöldum á fólksbifreiðar sem bílaleigur hafa notið, úr einni milljón niður í 500 þúsund krónur. Þetta mun skila hálfum milljarði króna samkvæmt upplýsingum frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, varaformanni fjárlaganefndar. 

Þetta er stærsta breytingin í tekjuleiðinni og með þessu verður hægt að auka framlög til ýmissa verkefna og framkvæmda.

Þá var einnig ákveðið að hækka lágmarksverslun fyrir endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna (e. tax free) úr 4.000 krónum upp í 7.000 krónur.

Þær tillögur sem ríkisstjórnin hafði lagt fram til breytinga á fjárlagafrumvarpinu munu halda sér en einnig var ákveðið að veita 1.500 milljónir króna, til viðbótar við þá 5,7 milljarða sem kynntir var í vikunni að yrðu veittir til ýmissa verkefna.

Meðal annars verður 300 milljónum króna varið í uppbyggingu á ljósleiðara annars vegar á Snæfellsnesi og í Skaftártungum og hins vegar á Norðausturlandi, þ.e. í fjarskiptasjóð. Þá verður 170 milljónum varið í landssamgöngur, þ.e. til Vegagerðarinnar. Eins og fram hefur komið fara 500 milljónir í uppbyggingu flugvalla á landsbyggðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert