Afhentu ráðherra áskorun

Starfsfólkið safnaðist saman á fimmtu hæð ráðuneytisins. Þröngt var á …
Starfsfólkið safnaðist saman á fimmtu hæð ráðuneytisins. Þröngt var á þingi. mbl.is/Þórður

Um fjörutíu starfsmenn Fiskistofu mættu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í morgun í von um að fá að afhenda Sigurði Inga Jóhannessyni sjávarútvegsráðherra áskorun.

Starfsfólkið sagðist hafa reynt að ná í ráðherrann í tæpar þrjár vikur til að fá að afhenda áskorunina en þegar það fékk engin viðbrögð ákvað það að mæta í ráðuneytið. 

Að sögn starfsfólks ráðuneytisins var ráðherrann ekki við en fulltrúi hópsins las upp áskorunina. 

Fyrst og fremst skorar starfsfólk Fiskistofu á ráðherra að hætta við flutning höfuðstöðva Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar.

„Þú yrðir maður að meiri og um leið leiddir þú málið út úr því öngstræti sem það er komið í. Erindi umboðsmanns Alþingis ætti eitt og sér að nægja til að vekja þig til umhugsunar,“ sagði í áskoruninni. 

Hér má lesa fjögur atriði sem eru meðal þeirra sem koma fram í áskorun starfsmanna Fiskistofu

1. Ákvörðun um flutning Fiskistofu er ólögmæt þ.e heimild Alþingis liggur ekki fyrir. Það er skýrt með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 312/1998. Þá vekjum við líka athygli þína á því með vísan til dómsins að auk lagaheimildar verða ákvarðanir stjórnvalda að hlíta ákveðnum meginreglum stjórnsýsluréttar. 

2. Starfsemi Fiskistofu hefur nú þegar orðið fyrir skaða af áformunum einum saman. Nokkrir starfsmenn hafa sagt upp og horfið af vettvangi. Aðrir líta í kringum sig eftir öðru starfi. Fiskistofa mun því skaðast enn frekar og þekking og fjármunir munu tapast. Fiskistofa stendur ekki undir lögbundnu hlutverki sínu ef hún verður viðskila við reynslu og þekkingu fjölda starfsmanna. Stofnun er fyrst og fremst mannauðurinn, þekking hans, hæfni og reynsla. Sérstaklega er þetta mikilvægt nú þegar boðaðar hafa verið umfangsmiklar breytingar í stjórn fiskveiða.

3. Bandalag háskólamanna (BHM) færir rök fyrir því að kostnaður við starfsmannaveltu á hvern starfsmann nemi tvöföldum til fjórföldum árlegum launakostnaði hans. Í því ljósi vanmetur ríkisstjórnin flutningskostnað Fiskistofu gróflega með því að segja að hann sé 200 til 300 milljónir króna.

4. Byggðasjónarmið sem vísað hefur verið til standast ekki skoðun.

Atvinnuleysi í Hafnarfirði var að meðaltali 1,2% meira en á Akureyri árið 2013.

Stöðugildum hjá ríkinu fækkaði um nær 21% í Hafnarfirði á árunum 2007 til 2013 en um 5,4% á Akureyri.

Stöðugildi á vegum ríkisins á Akureyri voru 1.004 árið 2013 en 495 í Hafnarfirði.

Stöðugildum á vegum ríkisins á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um 464 á árunum 2007-2013, þar af stöðugildum í Hafnarfirði um 128 eða 28%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert