Úthluta tæplega 40 milljónum í styrki

Athöfnin fór fram í dag á Hótel Natura.
Athöfnin fór fram í dag á Hótel Natura.

Vinir Vatnajökuls úthlutuðu í dag samtals tæplega 40 milljónum króna til styrktar 24 verkefnum sem falla undir rannsóknir, kynningu og fræðslu um Vatnajökulsþjóðgarð og nágrenni hans. Nýr formaður stjórnar Vina Vatnajökuls, Halldór Ásgrímsson, afhenti styrkina við hátíðlega athöfn á Hótel Natura.

Vinir Vatnajökuls eru frjáls félagasamtök sem voru stofnuð árið 2009. Þau hafa nú á fimm árum veitt tæplega 250 milljónum króna í fræðsluverkefni og styrki, að því er segir í tilkynningu.

„Það er mjög ánægjulegt að styrkja þessi fjölbreyttu verkefni sem umsækjendur hafa lagt mikla vinnu og metnað í. Þau eiga það sameiginlegt að stuðla að því að sem flestir geti notið þeirra náttúrufyrirbæra og þeirrar sögu sem Vatnajökulsþjóðgarður hefur að geyma,“ segir Kristbjörg Hjaltadóttir, framkvæmdastjóri Vina Vatnajökuls, í tilkynningunni.. Í ár bárust samtökunum 47 styrkumsóknir en fagráð samtakanna valdi að lokum 24 verkefni sem hljóta styrki.

Þá var ný vefsíða Vina Vatnajökuls formlega tekin í notkun við athöfnina. Nýja vefsíðan kynnir ítarlega niðurstöður styrktarverkefna samtakanna þannig að sem flestir geti notið afraksturs af styrkjum Vina Vatnajökuls.

Haft er eftir Kristbjörgu að til að ná settum markmiðum og sinna sínu hlutverki þurfi Vinir Vatnajökuls á liðsinni að halda. Fram til þessa hafa margir lagt Vinunum lið, en stærstu bakhjarlar samtakanna eru Alcoa Fjarðaál, Landsvirkjun, verkfræðistofan Mannvit, Bílaleiga Akureyrar og þeir einstaklingar sem gerst hafa Vinir og veitt stuðning frá upphafi. Þar til í vor hefur Íslensk Erfðagreining lagt samtökunum til húsnæði endurgjaldslaust en nú eru samtökin í boði Mannvits til húsa í Ármúla 42.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert