Bað ráðherra að sýna spilin

Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, spurði að því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvort forsætisráðherra væri tilbúinn til að sýna betur á spilin hvað varðaði boðaðar breytingar á lögum um stjórnarráð Íslands, þar sem ráðherrum verður falin heimild til að flytja aðsetur stofnana.

Þingmaðurinn benti á að mikið væri deilt um þá ákvörðun að flytja Fiskistofu á Akureyri og þá hefði einnig verið rætt að flytja Barnaverndarstofu út á landsbyggðina. Sagði hann að uggur væri í mörgum vegna þessara mála.

Guðmundur sagðist ekki vera á móti því að stofnanir væru úti á landi, þess væru mörg vel heppnuð dæmi. Hins vegar þyrfti að gæta að mörgu og spurði þingmaðurinn forsætisráðherra að því hvað væri í undirbúningi. Hvort til stæði að flytja fleiri stofnanir og hvernig umgjörð laganna yrði. Spurði hann m.a. að því hvort gerði yrði krafa um faglegt mat og kostnaðarmat, og hvort litið hefði verið til fordæma, t.d. í Noregi, þar sem umgjörðin væri skýr.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra benti á að ekki væri um nýmæli að ræða, heldur hefði þessi heimild ráðherra verið felld úr lögum 2011. Hann sagði að eins og sakir stæðu liti út fyrir að opninberar stofnanir mættu hvergi vera nema í Reykjavík. Sagði hann það mjög óheppilegt og því væri um að ræða leiðréttingu eða lagfæringu á breytingunum 2011.

Hann sagði að hvað varðaði flutningi stofnanna fylgdi honum mörg álitamál. Þá þyrfti að hafa í huga þau atriði sem þingmaður vísaði til í fyrirspurn sinni. Hann sagðist telja mjög æskilegt að líta til Noregs, þar sem Norðmenn hefðu náð meiri árangri hvað þetta varðar en flestar Evrópuþjóðir.

Guðmundur sagði að um heimild af þessu tagi þyrfti að vera skýr lagaumgjörð og að sporin hræddu. Hann sagði Fiskistofu mega vera á Akureyri en að standa þyrfti að málum á lengri tíma og með faglegum hætti. Hann spurði forsætisráðherra hvort honum þættu áform um flutning Fiskistofu til eftirbreytni.

Sigmundur ítrekaði að við ákvarðanatöku þyrfti ráðherra að athuga þá þætti sem þingmaður nefndi í fyrirspurn sinni en hvað varðaði Fiskistofu væri undirbúningshópur að störfum, sem ætlað væri að huga að þessum atriðum. Hann sagði að það væri ekki þannig að allir starfsmenn Fiskistofu flyttust norður á sama degi en að vonandi næði undirbúningshópurinn sem bestum árangri, þannig að afraksturinn yrði öflug Fiskistofa með ánægt starfsfólk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert