Ekkert húsaskjól eða matur út mánuðinn

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er alvarlegt fyrir samfélagið að hér búi fólk sem ekki á húsaskjól, á ekki fyrir mat út mánuðinn og getur ekki leitað sér lækninga eða staðið undir lyfjakostnaði. Þessir þættir munu verða ríkissjóði mun kostnaðarsamari en hækkun lífeyris,“ segir Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Í tilkynningu frá Ellen er á það bent að eftir aðra umræðu Alþingis á frumvarpi til fjárlaga 2015, hefur tillaga að hækkun prósentu almannatrygginga verið breytt úr 3,5% í 3%. Því til stuðnings er vitnað til nýrrar þjóðhagsspár í nóvember sem gerir ráð fyrir minni verðlagshækkunum.

Á góðærisárunum dró í sundur milli lífeyrisþega og almennra launþega. Lífeyrisþegar fengu skell þegar með nokkurra daga fyrirvara var gerður bráðabirgðagjörningur til að takmarka lögbundnar hækkanir. Þá þótti ráð að greiða lífeyrisþegum ekki samkvæmt neysluvísitölu, sú kjaragliðnun hefur aldrei verið leiðrétt. Nú skal hins vegar fylgja þeirri neysluvísitölu svo tryggt verði að lífeyrisþegar njóti ekki ávinnings,“ segir Ellen.

Þá segir hún að ljóst sé að upplegg fjárlaganefndar sé ekki ætlað til að lífeyrisþegar njóti efnahagsbata og mannsæmandi lífsskilyrða. Til dæmis hafi hlutur lífeyrisþega í greiðslu heilbrigðisþjónustu frá árinu 2009 hækkað um 75% til greiðslu fyrir rannsóknir og 50% fyrir komu á slysa- og bráðadeild. Einnig hafi greiðsluþátttaka í lyfjakostnaði i verið aukin.

„Það er kaldhæðnislegt að þriðja umræða um málið fari fram á morgun 3. desember á alþjóðadegi fatlaðs fólks. ÖBÍ vonar að á Alþingi fari fram málefnalegar umræður á morgun og komist verði að þeirri niðurstöðu að betra sé að búa í samfélagi fyrir alla.“

mbl.is