Fá ekki upplýsingar um efni fundanna

Enn sem komið er Eyþór Björnsson fiskistofustjóri eini starfsmaðurinn sem …
Enn sem komið er Eyþór Björnsson fiskistofustjóri eini starfsmaðurinn sem ætlar að flytja til Akureyrar. mbl.is/Árni Sæberg

Verkefnisstjóri úr forsætisráðuneytinu, fiskistofustjóri og nokkrir sviðsstjóra Fiskistofu skipa undirbúningshóp sem stýrir undirbúningi flutnings höfuðstöðva stofnunarinnar frá Hafnarfirði til Akureyrar. Hópurinn fundar reglulega en annað starfsfólk fær ekki upplýsingar um efni fundanna.

Vinna hópsins hófst  um það leyti sem Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra sendi fjörtíu starfsmönnum Fiskistofu í Hafnarfirði bréf og tilkynnti formlega um flutninginn. Bréfið barst í september. Ekki vildu allir sviðsstjórar stofnunarinnar Hafnarfirði taka þátt í vinnu undirbúningshópsins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og innanríkisráðherra, sagði á Alþingi í gær að undirbúningshópurinn væri að störfum. Sagði hann einnig að það væri ekki þannig að allir starfsmenn Fiskistofu flyttust norður á einum degi en vonandi næði undirbúningshópurinn sem bestum árangri, þannig að afraksturinn yrði öflug Fiskistofa með ánægt starfsfólk.

Sameining Fiskistofu og Matvælastofnunar?

Stefnt er að því að höfuðstöðvar Fiskistofu verði fluttar til Akureyrar fyrir 1. júlí 2015 og að flutningunum ljúki eigi síðar en 1. janúar 2017. Mestur þungi flutninganna verður á árinu 2015 en nánari útfærsla verður í höndum fiskistofustjóra.

Frá og með 10. september á þessu ári verða allir nýir starfsmenn ráðnir með starfsstöð á Akureyri.

Tölvusviðið, sem þjónar bæði Fiskistofu og Hafrannsóknarstofnun, verður ekki flutt. Til skoðunar er hvort það muni í framtíðinni einnig þjóna Matvælastofnun. Stofnaður hefur verið starfshópur um það verkefni.

Kanna verður hvort hentugt sé að sameina starfsstöð Fiskistofu og Matvælastofnunar á höfuðborgarsvæðinu og ef til vill víðar um land.

Fiskistofustjóri vildi fara annað en hætti við

Enn sem komið er Eyþór Björnsson fiskistofustjóri eini starfsmaðurinn sem ætlar að flytja til Akureyrar og starfa áfram hjá Fiskistofu þar í bæ.

Hann sótti um stöðu forstjóra Samgöngustofu í júní þegar hún var auglýst laus til umsóknar en dró umsögn sína til baka líkt og Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. 

Eyþór var skipaður fiskistofustjóri til fimm ára í byrjun október árið 2010. 

Ráðherra vill draga úr þekkingarrofi

Í bréfinu sem Sigurður Ingi sendi starfsfólkinu segir meðal annars: „Til að draga úr þekkingarrofi vegna þessara breytinga verður starfsmönnum sem náð hafa 60 ára aldri fyrir árslok 2015 gefinn kostur á að ljúka starfsævi sinni fyrir Fiskistofu á höfuðborgarsvæðinu, kjósi þeir það.“

Starfsmönnum sem flytja verður boðið að fljúga norður á kostnað Fiskistofu tvisvar sinnum með fjölskyldu sinni til að skoða húsnæði, kynna sér aðstæður og gera viðeigandi ráðstafanir vegna flutninga í annan landshluta.

Þeir starfsmenn sem kjósa að flytjast ekki til Akureyrar og hætta störf fá greidd laun á uppsagnartíma án þess að vinnuframlags verði krafist. Fái starfsmaður aðra vinnu á uppsagnartímanum koma laun á nýja vinnustaðnum til frádráttar.

Starfsfólk Fiskistofu skoraði á Sigurð Inga Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, …
Starfsfólk Fiskistofu skoraði á Sigurð Inga Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á mánudag. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert