Enn ein mósasýkingin á LSH

Páll Matthíasson, forstjóri LSH.
Páll Matthíasson, forstjóri LSH. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Mikið álag hefur verið á deildir Landspítala og hefur framkvæmdastjórn þurft að funda endurtekið í vikunni til að ráða fram úr því verkefni hvernig á að koma öllum þeim fyrir sem þurfa innlögn. Enn ein mósasýkingin, nú á gigtar- og almennri lyflækningadeild B7, og sú tímabundna fækkun á legurýmum sem þeirri sýkingu fylgir er kornið sem fyllir mælinn að þessu sinni. Það er hins vegar löngu ljóst að spítalinn þarf að að auka svigrúm sitt til að bregðast við auknu álagi, það er of langt að bíða þeirrar lausnar sem nýjar spítalabyggingar verða. “

Páll Matthíasson fjallar í forstjórapistli um álagið á spítalanum, árangur og frammistöðu Landspítala og hvatningarstyrki til sterkra rannsóknarhópa.  Hann brýnir jafnframt deiluaðila í læknadeilu til þess að setja alla sína orku í að finna lausn.

Pistillinn í heild:

Árangur og frammistaða Landspítala er í heild mjög góður og á mörgum sviðum framúrskarandi. Við erum oft of hógvær og þegar við látum vita af því einstaka starfi sem hér er unnið þá er það oft í formi talna og línurita sem almenningur tengir ekki endilega við.  Lög og reglur um trúnað við sjúklinga setja enda allverulegar skorður við umfjöllun um einstaklinga og um vandratað einstigi að ræða. 

Stöku sinnum gefst  innsýn í þau verk sem hér eru unnin. Þegar allt leggst á eitt;  snör og fumlaus handtök frábærs fagfólks, samhæfð teymisvinna og markviss uppvinnsla verður árangurinn á heimsmælikvarða. 

Höfum í huga að frábært starf er unnið hér á öllum göngum og deildum alla daga. Það er líka mikilvægt að muna að það markmið okkar að byggja upp framúrskarandi öflugan - og öruggan - spítala er langhlaup. Það tekur langan tíma að byggja upp opna öryggismenningu þar sem jafn óhikað er rætt hér innanhúss um það sem illa fer eins og afrekin - allt til þess að læra af reynslunni. Við horfum nú til vinnu sem hafin er undir forystu velferðarráðuneytis til að skoða hvort og hvernig hægt sé að breyta lagaumhverfi þannig að það styðji við öryggismenningu á Landspítala. Má þar meðal annars líta til fordæmis í nýlegum lögum um rannsókn samgönguslysa.

Á þriðjudaginn veitti Vísindasjóður Landspítala hvatningarstyrki. Átta sterkar umsóknir bárust og hlutu þrír öflugir rannsóknarhópar fimm milljóna króna styrk hver fyrir að leiða framúrskarandi vísindateymi. Verðlaununum veittu viðtöku Engilbert Sigurðsson, yfirlæknir og prófessor í geðlækningum, Jón Jóhannes Jónsson, yfirlæknir og prófessor í erfða- og sameindalæknisfræði og Ragnar Bjarnason, yfirlæknir og prófessor í barnalækningum. Ég óska þeim til hamingju og vona að styrkirnir nái þeim árangri sínum að vera þeim og öðrum hvatning til áframhaldandi vísindastarfa.

Mikið álag hefur verið á deildir Landspítala og hefur framkvæmdastjórn þurft að funda endurtekið í vikunni til að ráða fram úr því verkefni hvernig á að koma öllum þeim fyrir sem þurfa innlögn. Enn ein mósasýkingin, nú á gigtar- og almennri lyflækningadeild B7, og sú tímabundna fækkun á legurýmum sem þeirri sýkingu fylgir er kornið sem fyllir mælinn að þessu sinni. Það er hins vegar löngu ljóst að spítalinn þarf að að auka svigrúm sitt til að bregðast við auknu álagi, það er of langt að bíða þeirrar lausnar sem nýjar spítalabyggingar verða. Eitt af fjórum lykilverkefnum Landspítala er bætt flæði sjúklinga og öll áhersla verður lögð á það á nýju ári, undir merki þessa verkefnis, að fjölga plássum og bæta útskriftir.

Framundan eru verkföll, síðasta hrinan að sinni. Sú lota hefst aðfaranótt mánudags og stendur í fjóra sólarhringa. Mikið mun mæða á öllu starfsfólki en sem fyrr verður kappkostað að tryggja fullnægjandi þjónustu við sjúklinga, miðað við aðstæður. Vaxandi biðlistar og uppsagnir lækna eru ógn sem taka þarf á og ég biðla enn til deiluaðila að setja alla sína orku í að finna lausn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert