200 laxar sluppu en 400 veiddir

Mynd úr safni af sjókvíaeldi
Mynd úr safni af sjókvíaeldi Helgi Bjarnason

Búið er að veiða að minnsta kosti 400 eldislaxa í net og á stöng á svæðinu í kringum Patreksfjörð en í haust var tilkynnt til Fiskistofu að 200 laxar hefðu sloppið úr sjókví í Patreksfirði. Þetta kemur fram í grein sem Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambands veiðifélaga, ritar í Morgunblaðið í dag. Segir hann fjöldann sem hefur verið veiddur varlega áætlaðan.

Í grein Óðins kemur fram að laxarnir hafi komið frá Fjarðarlaxi í Patreksfirði en samkvæmt upplýsingum frá Fjarðarlaxi sluppu laxarnir ekki frá því fyrirtæki enda fyrirtækið ekki einu sinni með sjókvíaeldi í Patreksfirði og beðist er velvirðingar á þessum mistökum sem orðið hafa í grein Óðins sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Telja að þúsundir laxa hafi sloppið

„Af þessu verður ekki annað ráðið en að þúsundir laxa hafi sloppið. Er þá litið til eðlilegra affalla laxa um veturinn í sjó. Þannig hefur náttúran nú komið upp um lygamálin og framtíð sjókvíaeldis á norskum laxi við Ísland verður að skoða í nýju ljósi. Rannsóknir hafa leitt í ljós að eldislaxarnir sem veiddust voru farnir að mynda svil og hrogn og voru sumir þeirra komnir að hrygningu. Þeir laxar sem ekki tóku færi veiðimanna eru sjálfsagt búnir að hrygna þegar þessi orð eru sett á blað og enginn veit um fjölda þeirra eða það sem verra er hversu víða þeir leituðu í ferskvatn til þess arna. Þá er ekki síður athyglisvert að aldursgreining á veiddum strokulaxi bendir eindregið til þess að laxarnir hafi ekki komið úr sömu kvínni og séu ekki allir af sömu kynslóð. Þetta segir okkur einfaldlega að eldislax er að sleppa úr eldiskvíum við Ísland eins og reyndar alls staðar í heiminum þar sem lax er alinn í sjó. Því meira eldi, því fleiri strokulaxar.

Allt sem við höfum sagt um hættuna af þessari starfsemi hefur reynst rétt, en allt sem laxeldismenn hafa haldið fram er rangt. Við stöndum frammi fyrir sömu náttúruspjöllum og aðrar þjóðir verði sjókvíaeldi á norska laxinum aukið eins og áform eru um,“ skrifar Óðinn en greinina má lesa í heild í Morgunblaðinu í dag.

Reynsla Norðmanna af hegðun strokulaxa úr sjókvíum er að laxinn þvælist víða og aðeins hluti hans kemur fram á því svæði sem hann er alinn, segir Óðinn.

„Dreifing á eldislaxi sem sleppur úr sjókvíum er mikil og kemur hann einnig fram í ám sem liggja langt frá þeim stað sem hann var settur í sjókvíar. Þegar litið er til þessara staðreynda skýtur skökku við að norskur eldislax, alinn í sjó við Ísland, skuli vera markaðssettur erlendis sem vistvæn afurð. Ekkert er fjær lagi en að sú fullyrðing nái máli. Í Noregi hefur einnig komið í ljós að eldislax sem leitar í laxveiðiár fer ofarlega í árnar til hrygningar. Í hinni frægu laxveiðiá Alta í Noregi er jafnan dregið á ána efst við stíflu á haustin. Í haust komu þar upp í ádrætti á einni viku 62 laxar. Af þeim reyndust 56 vera eldislaxar. Norðmenn heimila ekki eldi laxa við Noreg sem eiga uppruna í öðrum löndum af umhverfisástæðum. Það ætti að vera íslenskum stjórnvöldum umhugsunarefni,“ segir meðal annars í greininni.

Áður sagði að laxarnir hefðu sloppið frá Arnalaxi, en misritun var að ræða.

Skýrsla um uppruna laxanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert