Ekki meiri þorskur frá upphafi mælinga

mbl.is/Sigurður Bogi

Meira fékkst af flestum tegundum botnfiska í stofnmælingu Hafrannsóknastofnunar í haust en undanfarin ár og eru mælingar sumra tegunda þær hæstu frá upphafi haustrallsins árið 1996 segir í fréttatilkynningu. Þannig var mæling þorsks sú hæsta síðan þær hófust það ár. Einnig eru vísbendingar um að árgangurinn af ýsu þetta árið geti orðið stór eftir að nýliðun hefur lengi verið léleg.

Eins og áður segir var mæling á magni þorsks sé sú hæsta frá upphafi stofnmælingarinnar árið 1996 og hefur hún farið hratt vaxandi undanfarin sjö ár. Mest fékkst af þorski djúpt norðvestur, norður og austur af landinu sem og á Þórsbanka fyrir suðaustan land líkt og undanfarin ár segir í tilkynningunni. Fyrsta mæling á 2014 árganginum af ýsu bendir til þess að nú sé lokið sex ára hrinu af mjög lélegum árgöngum. Árgangurinn í ár mældist sá næst stærsti síðan haustrall hófst 1996 og einungis stóri árgangurinn 2003 mældist stærri við fyrstu mælingu. Þá hefur aldrei fengist eins mikið af ýsu 10 ára og eldri í haustralli en undanfarin tvö ár og vegur þar þyngst árgangurinn frá 2003.

Mæling á gullkarfa reyndist sú hæsta frá árinu 1996 og hefur hún aukist jafnt og þétt frá árinu 2000. Mest fékkst af gullkarfa að venju djúpt út af Faxaflóa, Breiðafirði og Vestfjörðum en lítið út af Austfjörðum. Mæling á djúpkarfa var hærri árið 2014 sambanborið við árið 2013, en hefur farið þó farið hægt lækkandi frá árinu 2000. Veiðistofn grálúðu hefur einnig stækkað frá árunum 2004-2007 þegar hann var í lágmarki en stofninn er þó talsvert lægri en hann var á árunum 1997-2002.

Stofnmælingin fór fram dagana 2. október – 4. nóvember. Rannsóknasvæðið var umhverfis Ísland allt niður á 1500 metra dýpi og náði einnig inn í grænlenska lögsögu. Togað var alls með botnvörpu á 378 stöðvum en til verksins voru leigðir togararnir Jón Vídalín VE og Ljósafell SU. Fram kemur í tilkynningunni að um sé að ræða bráðabirgðaniðurstöður sem séu mikilvægur hluti af árlegri úttekt Hafrannsóknastofnunar á ástandi helstu nytjastofna við Ísland sem síðan ljúki með ráðgjöf í júní á næsta ári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert