Vill fresta gildistökunni til 2020

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Skjáskot af Althingi.is

Þingmaður Framsóknarflokksins vill að gildistöku ákvæðis um íblöndun lífdísels í eldsneyti hér á landi á grundvelli tilskipunar frá Evrópusambandinu verði frestað til ársins 2020 eins og svigrúm sé til að gera samkvæmt henni.

Frosti Sigurðsson vakti athygli á því á Alþingi í dag að þegar hefðu tapast hundruð milljóna króna í erlendum gjaldeyri úr landi vegna ákvæðis tilskipunarinnar. Með frestun gildistöku ákvæðisins mætti spara 5 milljarða króna sem annars rynnu til erlendra olíufélaga. Benti hann á að hlutfall endurnýjanlegrar orku væri miklu hærra hér á landi en innan Evrópusambandið og að sambandið tæki ekkert tillit til þess. Liechtenstein hefði frestað gildistöku ákvæðisins og Ísland ætti að geta það sama. Þá færi betur á því að akrar sem færu í það erlendis að vinna lífdísel væru notaðir til þess að framleiða matvæli.

Willum Þór Þórsson, samflokksmaður Frosta, tók undir með honum. Tilskipun Evrópusambandsins væri liður í því markmiði að auka vægi endurnýjanlegrar orku en Ísland væri langt yfir þeim markmiðum sambandsins. Upphaflega hafi verið gert ráð fyrir að innlendir aðilar gætu annað þörf Íslands fyrir lífdísel og sú hefði ekki orðið raunin. Fyrir vikið flæddi gjaldeyrir úr landi til erlendra söluaðila.

mbl.is

Bloggað um fréttina