Ráðnir verða „náttúruverðir“

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra kynnti frumvarp um náttúrupassa í morgun.
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra kynnti frumvarp um náttúrupassa í morgun. mbl.is/Kristinn

Gert er ráð fyrir að tekjur af náttúrupassa verði 4,5-5,2 milljarðar króna fyrstu þrjú árin en stefnt er að því að lög um hann taki gildi 1. september á næsta ári. Náttúrupassinn mun kosta 1.500 krónur og gilda í þrjú ár. Yngri en 18 ára munu hins vegar ekki þurfa slíkan passa.

Þetta kom fram á blaðamannafundi í morgun þar sem Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti frumvarp til laga um náttúrupassa. Samkvæmt frumvarpinu verður umsjón eftirlits með náttúrupassanum í höndum Ferðamálastofu sem fær heimildir til þess að sekta þá einstaklinga um 15 þúsund krónur sem ekki hafa greitt gjald fyrir passann. Sérstakir „náttúruverðir“ munu sjá um eftirlitið. Engin gjaldhlið verða hins vegar heldur mun eftirlitið byggjast á stikkprufum. Gert er ráð fyrir að ráðnir verði um 10 manns til þess að sinna þeim störfum.

Náttúrupassinn mun gilda á ferðamannastöðum í eigu og umsjá opinberra aðila. Bæði ríkis og sveitarfélaga. Auk þess verður einkaaðilum boðið að gerast aðilar að honum. Ein gjaldskrá verður fyrir Íslendinga og erlenda ríkisborgara þar sem mismunun á grundvelli þjóðernis er óheimil samkvæmt EES-samningnum sem Ísland á aðild að. Ragnheiður sagði að leitað hefði verið allra leiða til að Íslendingar þyrftu ekki að greiða gjaldið. Það hefði ekki verið mögulegt og því verið reynt að lágmarka hlutfall þeirra í þeim efnun.

10-15% tekjanna komi frá Íslendingum

Gert er ráð fyrir að að 10-15% af heildartekjum vegna náttúrupassans komi frá Íslendingum. Ef farnar væru aðrar leiðir, líkt og hækkun gistináttagjalds eða álagning komugjalds, yrði það hlutfall mun og jafnvel miklu hærra að mati atvinnuvegaráðuneytisins. 

Sala náttúrupassans mun fara fram á netinu og miðar allur undirbúningur að því að sögn ráðherra að mjög auðvelt og fyrirhafnarlítið verði að ganga frá kaupum á honum. Ennfremur verður mögulegt að kaupa passann í sjálfsala á Keflavíkurflugvelli og nokkrum fjölsóttum ferðamannastöðum. Hægt verður til að mynda að kaupa passann samhliða frágangi á skattframtali.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða mun hafa umsjón með útdeilingu fjármuna og er gert ráð fyrir að 82,5% af tekjum hans verði varið til uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða sem eiga aðild að náttúrupassa. Við þá úthlutun skal taka mið af verkefnaáætlun sem unnin er á grundvelli laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn.

Ennfremur er gert ráð fyrir að 10% af tekjum Framkvæmdasjóðsins renni til framkvæmda á ferðamannastöðum sem ekki eiga aðild að náttúrupassa gegn 50% mótframlagi eigenda. Þá verða 7,5% eyrnamerkt málefnum tengdum öryggi ferðamanna. 3,5% að hámarki skal varið til umsýslu náttúrupassans.

Frétt mbl.is: Hræðist ekki umræðuna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert