Svarar með skýrslu á vorþingi

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjármálaráðherra hyggst leggja fram ítarlega skýrslu um niðurstöður höfuðstólslækkunar húsnæðislána á vorþingi. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar við þremur skriflegum fyrirspurnum sem hafa verið lagðar fram í þinginu. Frá þeim Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs,  Birni Val Gíslasyni, varaformanni VG, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, þingmanni flokksins.

„Skýrslan mun byggjast á stöðu úthlutunar eins og hún verður við lok samþykkisfrests á ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar en eins og er vantar of mikið upp á endanlegar niðurstöður til að skynsamlegt sé að draga nægilega marktækar ályktanir um þetta mál. Reiknað er með því að skýrslan verði tilbúin og kynnt á vorþingi,“ segir í svarinu en fyrirspurnir eru í nokkrum liðum og snúa að nánari útlistun á því hvernig þeim fjármunum sem varið verði til lækkunarinnar verði varið. Meðal annars hvernig úthlutun þeirra muni skiptast eftir landshlutum.

Björn Valur spurði ennfremur hvort ríkisábyrgð væri á greiðslujöfnunarreikningum skuldara hjá fjármálastofnunum. Svar ráðherrans við því var neikvætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert