Viðvörun: Fárviðri á Vestfjörðum

Spáð er fárviðri á Vestfjörðum.
Spáð er fárviðri á Vestfjörðum. mbl.is/Rax

Veðurstofan vill vekja athygli á að samkvæmt nýjustu spálíkönum er spáð norðaustan ofsaveðri eða fárviðri (25-35 m/s) á norðanverðum Vestfjörðum eftir hádegi í dag.

Búist er við að veður versni mikið á milli kl. 14 og 15 á Hornströndum og við Ísafjarðardjúp, þar með talið á þéttbýliskjörnum í Djúpinu. Veðurhæðinni fylgir talsverð ofankoma.

Í kvöld og nótt gera spár ráð fyrir norðaustan 20-28 m/s og snjókomu eða éljum á öllum Vestfjörðum. Mikið dregur úr vindi fyrir hádegi á morgun.

Fyrir norðan land er ört vaxandi lægð sem verður 945 hPa við mynni Húnaflóa síðdegis í dag. Vestan lægðarinnar er umræddur vindstrengur í fárviðrisstyrk. Spár gærdagsins gerðu ráð fyrir að þessi vindstrengur næði ekki inn á Vestfirði en nýjustu spár með greiningartíma 06 UTC í dag (þriðjudag) benda eindregið til þess.

Sjáðu storminn „í beinni“ hér

Vonskuveður var á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi.
Vonskuveður var á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert